*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Leiðari
27. apríl 2018 11:02

Glansmynd Reykjavíkur

Þetta jaðrar við að vera móðgun við hugsandi fólk — PR-mennska í sinni tærustu mynd,

Haraldur Guðjónsson

„Við viljum byggja upp skemmtilega og lifandi borg fyrir alla. Til þess þarf að tryggja öruggt húsnæði fyrir alla þjóðfélagshópa og halda áfram að bjóða upp á fjölbreytta valkosti á húsnæðismarkaði,“ segir í stefnu Samfylkingarinnar í húsnæðismálum Reykjavíkur. Enn fremur segir: „Nú stendur yfir mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar og árið 2017 var mesta íbúafjölgun í Reykjavík í 30 ár. Síðustu þrjú ár hafa verið metár í útgáfu nýrra byggingarleyfa og aldrei hafa fleiri íbúðir farið í uppbyggingu á einu kjörtímabili í sögu borgarinnar.“

Oft eru kosningaloforð og stefnur stjórnmálaflokka þokukenndar og hástemmdar en þetta hjá Samfylkingunni jaðrar við að vera móðgun við hugsandi fólk. Þetta er PR-mennska í sinni tærustu mynd, þar sem hálfsannleikurinn er sagður.

Fyrir það fyrsta þá sýna nýjar tölur að hlutfallsleg íbúðafjölgun er einna minnst í Reykjavík þegar uppbygging sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er skoðuð. Það eru engar fréttir að verið sé að byggja flestar íbúðir í Reykjavík, langstærsta sveitarfélagi landsins. Ef meta á stöðu uppbyggingar í borginni þarf að nota aðra mælikvarða, til dæmis fjölda íbúða í byggingu á hverja þúsund íbúa.

Í mars var verið að byggja tæplega 14 íbúðir fyrir hverja þúsund íbúa í Reykjavík. Til samanburðar var verið að byggja 52 íbúðir á hverja þúsund íbúa í Mosfellsbæ, 38 íbúðir í Garðabæ og 29 í Kópavogi. Í samanburði við Reykjavík er einungis verið að byggja minna í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi. Sjálfsagt er að geta þess að Hafnarfjörður stóð fyrir mikilli uppbyggingu á Völlunum um og eftir hrun og á Seltjarnarnesi er lítið sem ekkert landrými til uppbyggingar. Glansmyndin sem Samfylkingin teiknar upp verður aðeins mattari við þennan samanburð.

Einnig er talað um met í íbúafjölgun. Í því sambandi er brýnt að nota mælikvarða sem segja eitthvað. Til dæmis mætti skoða hvort meðaltalsfjölgun íbúa Reykjavík eigi sér einhverjar augljósar skýringar. Þegar það er gert kemur í ljós að sú er raunin. Íbúum á Íslandi fjölgaði um 3% í fyrra eða töluvert meira en íbúum í Reykjavík, sem fjölgaði um 2,3%. Væntanlega hefði íbúum Reykjavík fjölgað enn meira ef nægt framboð væri af húsnæði.

Í stefnuyfirlýsingu Samfylkingarinnar er talað um að aldrei hafi „fleiri íbúðir farið í uppbyggingu á einu kjörtímabili í sögu borgarinnar“. Af hverju skyldi það vera? Hugsanlega vegna þess að nánast ekkert var byggt á kjörtímabilinu þar á undan. Það má alveg benda á það að þá var Samfylkingin líka í meirihluta í borginni.

Staðan á húsnæðismarkaði er slæm, sérstaklega fyrir ungt fólk sem þarf að koma sér þaki yfir höfuðið – fyrstu kaupendur. Á tveimur árum hefur húsnæðisverð hækkað mikið á höfuðborgarsvæðinu. Frá miðju ári 2016 fram á mitt ár 2017 hækkaði fasteignaverð um ríflega 20% á meðan laun hækkuðu um 5% á sama tímabili. Það gefur augaleið að þessi taktur er verstur fyrir unga fólkið og þá sem lítið hafa á milli handanna.

Nýjustu tölur Hagstofunnar sýna að frá mars 2017 til mars 2018 hækkaði fasteignaverð um tæplega 8% á höfuðborgarsvæðinu. Þó að hægt hafi verulega á hækkunarfasanum á verðhækkunum þá eru þær nú í takt við það sem þær voru á árunum 2013 til 2016 og ekkert sem bendir til þess að fasteignaverð muni lækka. Ástæðan er sú að enn er mikill skortur á nýju húsnæði, sérstaklega ódýru húsnæði. Þó að íbúðum í byggingu hafi fjölgaði undanfarna mánuði þá er enn mjög langt í land. Byggingarmagnið nú rétt dugir til þess að mæta eðlilegri árlegri þörf fyrir nýju húsnæði en er langt frá því að mæta þeim uppsafna skorti á íbúðarhúsnæði sem skapast hefur frá árinu 2012. Þetta sýna nýjar tölur frá Samtökum iðnaðarins.

Á fundi Samtakanna í síðustu viku voru kynntar niðurstöður könnunar félagsmanna. Samkvæmt niðurstöðunum telja flestir sérfræðingar í bygginga- og mannvirkjagerð að ýmsar hindranir séu til staðar í lóðamálum, svo sem vegna þéttingar byggðar (sem eykur þann tíma sem tekur að fá framkvæmdaheimild), lítils lóðaframboðs í úthverfum og hárra opinberra gjalda og vegna þess að erfitt sé að nálgast lóðir. Í skipulagsmálum er afgreiðsluferli skipulagstillagna sagt of langt og flókið og regluverk of þungt, en til að mynda liðu þrjú ár frá tillögu um endurskoðun á deiliskipulagi Úlfarsárdals til sölu byggingarréttar undir 450 íbúðir. Enn fremur var því alfarið vísað á bug að skortur væri á tækjum og búnaði, en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur sagt að vöntun sé á krönum og mannskap til að byggja meira.

Stærsta sveitarfélag landsins ber mikla ábyrgð á ástandinu. Forsvarsmenn meirihlutans verða að viðurkenna þetta í stað þess að slá ryki í augu kjósenda með hálfsannleik í þokukenndum stefnuyfirlýsingum. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.