*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Lára Björg Björnsdóttir
30. janúar 2014 14:45

Glatað skipulag

Heimurinn hefur aldrei kunnað að meta skipulagslistaverkið sem ég er.

Ráðleggingar um hvernig skuli best haga lífi sínu sveiflast eins og aðrir hlutir eftir tísku og tíðaranda. Nú til dags er til dæmis voða mikið verið að segja fólki að „slaka á” í heimilisstörfunum og að það þurfi ekki „allt alltaf að vera fullkomið”.

Röð og regla er látin víkja fyrir einhverskonar „rólegheitum” og því að „njóta líðandi stundar” eða, ef við köllum hlutina bara sínum réttu nöfnum, kaos.

„Slökktu ljósin þá sérðu ekki rykið” og „Lestu bók, ryksugan má bíða,” eru heróp dagsins.

Þetta nýja trend hentar mínum persónuleika afskaplega illa því skipulag, tiltekt og þrif eru það eina sem ég er raunverulega góð í. Núna má ég hins vegar búa við silaleg, sóðaleg og hálfopin augu í náttúrlegri rólyndisvímu sem stara á mig öllum stundum. Og þess vegna er sérstaklega erfitt að vera ég þessa dagana.

Ég fæddist skipulögð. Sjö ára gömul fór ég ekki að sofa án þess að hafa smurt nesti fyrir næsta dag og lagt fötin sem ég ætlaði í á stól og merkt þau með miða sem á stóð „föt dagsins.” Öll heimavinna var unnin í einni lotu og þegar ég var búin sat ég og yddaði blýantana og trélitina mína og nuddaði blýantsklessur af strokleðrinu til að halda því alveg hvítu. Fé fyrir barnapössun og heimilisþrif fór ósnert í skartgripaskrínið. Ellefu ára átti ég stærra seðlabúnt en meðaldópsali í úthverfi.

Þetta ágerðist með árunum. Korteri áður en sonur minn fæddist sá ég handklæði hanga á stól á fæðingar­stofunni. Ekki þótti mér í boði að láta drenginn koma í heiminn í draslaraskap og ringulreið. Ljósmóðirin hafði brugðið sér frá svo ég, tillitsemin uppmáluð, staulaðist á lappir, braut helvítis handklæðið saman og fór með inn á bað, þar sem það átti heima.

Og nú kemur óréttlætið í hinum sjóðandi potti vitleysisgangsins sem hlutirnir eru: Skilningsleysi og vanþakklæti. Jebb. Þarna hefði ljósmóðirin átt að hrósa mér fyrir huggulegheit en í staðinn fékk ég það sem ég hef alltaf fengið: Skammir og tiltal.

Og þegar ég var yngri? Yddandi blýanta langt fram á nótt, skúr­andi allt heimilið og leggjandi fyrir stórfé? Fékk ég að heyra hvað ég væri dugleg eða stórfengleg? Nei nei, mér var sagt að fara að sofa og hætta að stressa mig.

Heimurinn hefur aldrei kunnað að meta skipulagslistaverkið sem ég er. Hann er meira eins og slefandi api sem híar á mig á góðum degi og skammar mig á vondum.

En áður en þið farið að vorkenna mér þá vil ég bara að þið vitið eftirfarandi, krakkar mínir: Ég mun ekki gefast upp. Ég læt ekki í minni sóðapokann. Þessi slökunardraslaratískubóla mun springa og þá fæ ég loksins viðurkenningu fyrir allt mitt erfiði.

Fyrst þarf ég bara að finna yddarann minn.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.