*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Andrés Magnússon
12. janúar 2017 15:20

Gleðilegt, liðið ár

Birgitta Jónsdóttir sagði á síðasta ári að auka þyrfti valdheimildir Fjölmiðlanefndar gagnvart fjölmiðlum.

Haraldur Guðjónsson

Það er fjölmiðlaveisla í kringum stjórnarmyndunina, en samt er það nú mest allt frekar fyrirsjáanlegt. Hvernig væri til dæmis að fjölmiðlar létu vera að fylgjast með þessari fáránlega banal athöfn þar sem menn rétta Assa-lykil og aðgangskort á milli sín, eins og það sé heilagt sakramenti?

Hvað má þá segja um hinar óbærilega innihaldslausu fréttir þar sem rætt er við einn af þessum fimm stjórnmálafræðingum landsins, sem af pólitísku innsæi og þekkingu útskýrir fyrir lýðnum að það sé erfitt að spá fyrir um lífvænleik og langlífi stjórnarinnar?

Hún gæti „alveg lifað kjörtímabilið eða lengur“, en það sé „allt eins líklegt að menn gefist upp fyrr“. Þá væri ekki ómögulegt að „átök [yrðu] um ríkisútgjöld“ og forgangsröðun, því efndir á fyrirheitum stjórnarsáttmálans kynnu að velta á fjárveitingum og „menn þurfi að koma sér saman um stefnuna“. Hvar værum við stödd án slíkra sérfræðinga og frétta af lærðu áliti þeirra?

Ekki má gleyma hinum sérfræðifréttunum af þessum vettvangi, þegar álits stjórnarandstæðinga á stjórninni er leitað og þeir setja sig í stellingar og kveða íbyggnir upp úr um það, að þessi stjórn sé nú varla á vetur setjandi, stefna hennar landsmönnum fremur andsnúin og lítt til heilla, en forystumenn hennar ekki traustsins verðir. Allt fullkomlega sjálfgefið, en ekkert spurt út í einstök stefnumál. Frekar svona rýrt í roðinu.

Og þó. Þær Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, og Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstrigrænna, komu í morgunútvarp Rásar 2 á þriðjudag og létu þar móðan mása um að Viðreisn og Björt framtíð hefðu „gefið upp á bátinn sín helstu baráttumál“ og fengju „ekki neitt úr samstarfinu“, „að þessi svokölluðu kerfisbreytingarmál, hin stóru mál Viðreisnar fyrst og fremst og kannski Bjartrar framtíðar líka, [væru] meira og minna öll á ís“.

 – Þessar bollaleggingar voru þeim mun fróðlegri fyrir það að þingkonurnar höfðu ekki lesið stjórnarsáttmálann frekar en aðrir, því hann var ekki frágenginn!

                                                         * * *

Það rifjar raunar upp þunnildislega umfjöllun í aðdraganda kosninganna í haust, þar sem fjölmiðlar kepptust við að segja frá niðurstöðum skoðanakannana á fylgi flokkanna. Var þó synd að segja að það hafi sveiflast mikið.

Fjölmiðlar létu það samt ekki aftra sér frá því að slá upp smávægilegustu fylgisbreytingum, þó þær væru langt innan allra skekkjumarka. Það er skiljanlegt að miðlarnir geri það, þá vantar alltaf fréttir.

Í sumum tilvikum hafa þeir varið nokkru fé til þess að gera þessar skoðanakannanir og vilja því fá nokkuð fyrir snúð sinn. En þegar það er látið eins og 0,3% fylgishreyfing sé frétt og til marks um eitthvað, þá er það ekki lofsverð nýtni, heldur er verið að villa um fyrir almenningi. Það má ekki.

Enn meiri ástæða er fyrir fjölmiðla að gefa þessu gaum þegar horft er til þess hversu frábrugðin kosningaúrslitin voru niðurstöðum kannana vikurnar og dagana á undan.

Nú er auðvitað mögulegt að það hafi verið feikileg ferð á fylginu síðustu dægrin fyrir kosningar eða að tilteknir hópar hafi ákveðið að sitja heima á kjördag, en það eru engar sérstakar vísbendingar um það.

Eða óvæntir atburðir á lokasprettinum. Líklegra er að það sé eitthvað að mælingunum. Það væri ekkert einsdæmi, hið sama hefur verið upp á teningnum í velflestum Vesturlöndum undanfarin ár. Um það hefur töluvert verið fjallað þar, en lítið hér.

                                                         * * *

Höldum aðeins áfram að rifja upp frá liðnu ári: Píratadrottningin Birgitta Jónsdóttir var frummælandi í sérstakri fjölmiðlaumræðu á Alþingi í maí, þar sem lét hún einkum í ljós áhyggjur af ritstjórnarlegu sjálfstæði, eignarhaldi fjölmiðla og valdsviði fjölmiðlanefndar.

Ekki svo að skilja að Píratanum þætti nóg um afskipti hins opinbera af fjölmiðlum, öðru nær. Henni þóttu lögin ekki hafa gefist vel og því þyrfti að auka valdheimildir fjölmiðlanefndar gagnvart fjölmiðlum!

                                                         * * *

Þetta rifjaðist upp fyrir fjölmiðlarýni, þegar hann sá fréttir um að Smári Páll McCarthy, forsætisráðherraefni Pírata, hefði undanfarinn mánuð leitað með logandi ljósi að kaupanda á 2% hlut sínum í vikuritinu Stundinni, „enda er með öllu óeðlilegt að þingmaður eigi í fjölmiðli,“ sagði Smári á Facebook-síðu sinni.

Nú var kosið fyrir tveimur og hálfum mánuði, þannig að það er ekki seinna vænna fyrir hann að selja, svona miðað við þau göfugu prinsipp.

En þá má kannski einnig spyrja hvort ekki hefði verið eðlilegra og prinsippfastara fyrir hann að selja hlutinn sinn fyrir kosningabaráttuna. Varla er það minna óeðlilegt að frambjóðandi eigi í fjölmiðli en þingmaður?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.