Eitt það allra mikilvægasta í líkamsræktinni en vill þó of oft gleymast er að það á að vera gaman að mæta í ræktina og hreyfa sig. Að styrkja líkama og sál á ekki að vera kvöð heldur á að fylgja því tilhlökkun að reima á sig skóna og klæða sig í gallann. Aðdragandinn og atburðurinn sjálfur á að vera heildræn jákvæð upplifun sem fyllir líkamann endorfíni og fær okkur til þess að hlakka til næstu æfingar. Fjölbreytni æfinganna skiptir líka miklu máli og eykur hún enn frekar á skemmtanagildið. Að takast á við ólík verkefni í góðra vina hópi, svitna, fá útrás og taka svo spjallið í kjölfarið er frábær skemmtun sem aldrei klikkar.

Ég heyri oft viðkvæðið „ég hreinlega hef ekki tíma til að hreyfa mig“ en æfingar þurfa ekki alltaf að vera langar. Hins vegar þurfa þær að vera skemmtilegar og fjölbreyttar svo áhugi og einbeiting haldist. Ef okkur finnst eitthvað nógu skemmtilegt þá finnum við tíma til að sinna því, sama hversu þétt og þrútin dagskráin okkar er. Ef við erum að upplifa það að hafa ekki tíma fyrir ræktina ættum við kannski að íhuga breytingar og skoða aðeins betur þá endalausu möguleika sem í boði eru. Hvort sem það heitir Boot Camp, Cross Fit, Spinning, Hot Yoga eða útihlaup þá hentar það sama aldrei öllum. Höldum því ótrauð áfram og finnum þá líkamsrækt sem veitir okkur allt í senn útrás, gleði og ánægju.

Að hætta einhverju þýðir ekki endilega hafa mistekist því oftar en ekki er það upphafið að einhverju miklu stærra og skemmtilegra. Þegar við höfum svo fundið réttu líkamsræktina er gott að setja sér markmið með hreyfingunni. En meira um það síðar!

Pistill Arnaldar birtist í Viðskiptablaðinu 27. mars 2014. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .