*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Óðinn
6. nóvember 2018 12:13

Glerþakið og Sigríður Á. Andersen

„Aðstandendur“ kvennafrídagsins virðast alveg gleyma því að einstaklingar hafa vilja en hópar ekki.

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Kvennafrídagurinn var haldinn hátíðlegur fyrir viku. Að þessu sinni kusu „aðstandendur“ dagsins, sem raunar eru hvergi nafngreindir, að leggja sérstaka áherslu á launamun kynjanna. Vandinn er sá að málflutningurinn er í svo lauslegu samhengi við staðreyndir málsins, að hann missir fullkomlega marks. Nema auðvitað fyrir þá, sem rök og raunveruleiki skipta litlu máli, og þá vandast nú í því, því þref um trúarkreddur og hindurvitni er einstaklega ólíklegt til þess að skila niðurstöðu eða koma að minnsta gagni.

                                                               ***

Hagstofa Íslands gaf út Hagtíðindi í vor, þar sem fjallað var um launamun kynjanna frá 2008- 2016 af nákvæmni og í töluverðum smáatriðum. Þar kemur fram að óútskýrður launamunur kynjanna hefur minnkað úr 6,6% árið 2008 í 4,5% árið 2016. Hann hefur minnkað um þriðjung á aðeins átta árum. Því hljóta allir að fagna. Þó verður að hafa í huga að þrátt fyrir að Hagstofan, eða aðrir, finni ekki skýringar á launamun milli einstaka hópa, kynja eða annarra lýðmengja samfélagsins, kunna að vera á því málefnalegar skýringar.

                                                               ***

Ónákvæmni með tölur Á síðu Kvennafrídagsins, kvennafri.is, segir hins vegar „Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru konur með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá klukkan 9 til 17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið klukkan 14:55.“

                                                               ***

Þarna eru þvílík lausatök á staðreyndum málsins, að stappar nærri falsi. Fjöldi vinnustunda hefur til dæmis afgerandi áhrif á tekjur fólks í sama starfi. Ef annar vinnur í 8 klukkustundir og hinn í 6 hlýtur sá fyrri að fá hærri laun. Ekki er tekið tillit til þessa grundvallaratriðis í tölum sem „aðstandendurnir“ leynilegu velja að notast við.

                                                               ***

Aðferðafræðin

Sú aðferð, sem Hagstofan notast við, er samanburður tölulegs meðaltals launa kvenna og karla. Þessari aðferð er meðal annars beitt af Evrópsku hagstofunni (Eurostat) og kallast óleiðréttur launamunur. Launamunurinn er þó ekki alveg óleiðréttur þar sem launin reiknast á greidda stund og þannig er að hluta tekið tillit til mismunandi fjölda vinnustunda kynjanna. Þar vantar hins vegar að taka tillit til yfirvinnu. Óleiðréttur launamunur kynjanna var 16,1% árið 2016 en hafði verið 17% árið áður. H H H Þegar er búið er að leiðrétta launamun hefur verið tekið tillit til starfs, atvinnugreinar, vinnutíma, menntunar, reynslu, ábyrgðar og fleiri þátta, en þá er niðurstaðan 4,5% árið 2016. Það er nú svolítið annað en 26%.

                                                               ***

Villandi framsetning…

Með því að notast við tölur, þar sem ekki einu sinni er leiðrétt fyrir vinnutíma, gera „aðstandendurnir“ sig seka um villa um fyrir almenningi. Af góðum hug mætti ætla að þar réði ókunnugleiki á viðfangsefninu eða einfeldni í meðferð tölulegra staðreynda. Þá er hins vegar með ólíkindum að Hagstofan, hagstofustjóri eða aðrir starfsmenn stofnunarinnar, skuli ekki hafa stigið fram til þess að leiðrétta þessa bersýnilega misvísandi notkun og túlkun á rannsóknum og gögnum stofnunarinnar. Það er bæði mikilvægt fyrir Hagstofuna og íslenska þjóðmálaumræðu, að enginn vafi leiki á um gildi Hagstofunnar sem heimildar og jafnframt að enginn komist upp með það óleiðrétt eða óátalið að afvegaleiða almenning með misvísandi framsetningu gagna í hennar nafni.

                                                               ***

Trúvilla ráðherrans

Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra varð það á að gagnrýna þessa villandi framsetningu „aðstandendanna“. Viðbrögðin við þessarri trúvillu ráðherrans komu fram í frekar snúðugri fréttatilkynningu.

                                                               ***

„Það er rétt hjá ráðherranum að við tökum ekki tillit til vinnutíma, menntunar, reynslu, mannaforráða og fleiri breyta. Við teljum enga ástæðu til að leiðrétta fyrir þessum þáttum enda teljum við þá ekki málefnaleg rök fyrir kynbundnum launamun.“

                                                               ***

Með öðrum orðum þá eiga konur að fá jafn há laun og karlar þó þær vinni styttri vinnudag. Menntun skiptir ekki máli. Reynsla skiptir engu máli. Ábyrgð skiptir ekki heldur máli. Sé sú afstaða tekin til röklegrar niðurstöðu eiga öll laun í heiminum að vera jöfn, óháð kynferði, óháð öllu.

                                                               ***

…eða vísvitandi fals

Hitt er þó hálfu verra, að með yfirlýsingunni staðfestu „aðstandendurnir“ að þessa framsetningu mátti hvorki rekja til þekkingarleysis né glópsku. Nei, hún var svona af ráðnum hug. Beinlínis sett fram til þess að villa um fyrir almenningi. Af því að í huga „aðstandendanna“ skiptir ekkert í heiminum máli nema kynferðið.

                                                               ***

Óskýrður ≠ kynbundinn

Velferðarráðuneytið fékk Sigurð Snævarr hagfræðing til að skrifa skýrslu um launamun karla og kvenna í samráði við starfsmenn Hagstofu. Jafnmargir karlmenn og konur komu að gerð skýrslunnar. Í skýrslunni segir m.a.: „Ómálefnalegan, óskýrðan launamun má skilgreina sem launamun sem eingöngu er vegna kynferðis. Um er að ræða þann mun sem eftir stendur þegar tillit hefur verið tekið til allra þeirra þátta sem áhrif hafa á launamyndun. Í reynd er í besta falli hægt að nálgast þennan mun. Launamyndun byggist oft á þáttum sem tölfræðin veitir ekki svar við. Við getum því ekki með vissu ályktað að sá óskýrði launamunur sem hér hefur verið metinn sé eingöngu vegna kynferðis.“

                                                               ***

Aðstæður og ákvarðanir einstaklinga

„Aðstandendur“ kvennafrídagsins virðast alveg gleyma því að einstaklingar hafa vilja en hópar ekki. Það væri til að mynda áhugavert að kanna hvort konur vilji heldur vinna styttri vinnudag og taka hugsanlega meiri ábyrgð á börnum. Eða vera lengur í fæðingarorlofi. Það væri áhugavert og kynni að gefa til kynna almenna hneigð í þeim efnum, en gæfi ekki hið eina rétta svar um afstöðu einstaklinganna, hvað þá að hið opinbera kæmi með heimildir til þess að gefa fólki og fyrirtækjum fyrirmæli um hvernig þau skuli haga starfssamningum eða verkaskiptingu á heimilum. Það hlýtur að vera sameiginleg ákvörðun foreldra og hvorki á hendi hins opinbera að ákveða það né að aðilar vinnumarkaðarins hlutist til um það í samningum.

                                                               ***

Sigríður Á. Andersen upplýsti það til dæmis í Kastljósi Ríkisútvarpsins að á hennar heimili væri verkaskiptingin með þeim hætti að hún hafi hvorki farið með börn sín í skóla né sótt í áraraðir. Nú kann að vera að Sigríður sé óvenjuvel gift (þó Óðinn viti margt þekkir hann það ekki út í hörgul), en auðvitað hljóta þær ákvarðanir að vera þeirra hjóna en engra annarra.

                                                               ***

Krafan um óréttlæti til framtíðar

Allt útlit er fyrir því að konur verði almennt betur menntaðar í framtíðinni en karlmenn og muni þar af leiðandi í auknum mæli taka að sér ábyrgðarstöður, sem krefjast lengri vinnudags. Eiga karlmenn þá að setja á stofn vefsíðuna karlafri.is og krefjast sömu launa fyrir minni vinnu?

                                                               ***

Fyrir kaldhæðni örlaganna yrði niðurstaðan af rangfærslum hinna sanntrúuðu „aðstandenda“ líklega sú, að glerþakið sem sumum er tíðrætt um, myndi enda á höfði kvenna. Því ef krafa „aðstandendanna“ nær fram að ganga munu allir fá sömu laun, óháð vinnuframlagi, menntun og þar fram eftir götum, og því munu konur ekki njóta þess að leggja meira á sig í námi og vinnu í framtíðinni. Það væri sannarlega óréttlátt.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.