*

mánudagur, 20. janúar 2020
Huginn og muninn
17. ágúst 2019 10:03

Gleymast fórnarlömb Klaustursmálsins?

Það er eins og mörgum yfirsjáist að í Klausturmálinu séu þolendur sem þurf jafnvel að útskýra svívirðingarnar fyrir börnum og ættingjum.

Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhúsins.
Haraldur Guðjónsson

Hrafnarnir lásu sér til nokkurrar furðu í fjölmiðlarýni Andrésar Magnússonar í síðasta Viðskiptablaði, að tíðindi frá Alþingi um lyktir Klaustursmálsins hefðu orðið DV tilefni til þess að endurbirta upptökur af þeim fúla fundi, sömu upptökur og Persónuvernd hafði lýst ólöglegar og gert Báru Velheyrandi Halldórsdóttur að eyða. DV leit greinilega ekki svo á að sér væri nokkur hindrun í að endurbirta ósköpin og valdi meira að segja svæsnustu lýsingarnar.

Málskraf Klausturmunka var auðvitað einstaklega ógeðfellt og allar birtingar og endurbirtingar þeim til skammar. En er hægt að líta hjá því að þar var verið að tala um annað fólk eins og Albertínu F. Elíasdóttur, Freyju Haraldsdóttur og Lilju B. Alfreðsdóttur með fullyrðingum, uppnefnum og kjaftasögum um misgjörðir eða háttsemi, sem þær eiga tæplega skilið að sé rifjað upp og kjamsað á með þessum hætti? Það er eins og mörgum yfirsjáist að í málinu eru þolendur, fólk af holdi og blóði, sem varð fyrir svívirðingum og þarf jafnvel að útskýra þær fyrir börnum sínum, ættingjum og vinum.

Í þessu samhengi er einnig sérstök ástæða til þess að velta fyrir sér vinnubrögðunum á Alþingi. Bæði hvað varðar siðanefndina og forsætisnefnd, sem um málið fjölluðu. Hröfnunum þykir full ástæða til þess að taka störf, stefnu og tilvist siðanefndar til endurskoðunar, því það er eitthvað einkennilegt við það að nefnd á vegum þingsins sé að kveða upp dóma yfir þingmönnum. Það eiga kjósendur að gera. Ekki varð það skárra við að megnið af þingmönnum gerði sig vanhæfan í málinu og fór svo að það voru tveir þingmenn stjórnarmeirihlutans, sem þarna settust í dómarasæti yfir þingmönnum úr minnihlutanum.

Ekki getur það verið til fyrirmyndar. Í þessu máli voru það þó frekar vinnubrögðin, sem gera verður athugasemdir við. Í umfjöllun nefndanna var allur óhróðurinn úr Klaustri endurtekinn og skjalfestur um aldur og ævi í opinberum gögnum. Var það gert að viðhöfðu samráði við þolendur málsins? Það rifjar upp enn einn furðulegan anga málsins, en það var þegar Borgarleikhúsið tók sig til og setti á svið leiklestur á svívirðingunum í Klaustri.

Kannski markmiðið hafi verið að afhjúpa orðbragð þingmannanna þar eða kannski frekar að efna til frekari afhrópunar og opinberrar smánunar þeirra, hvort sem hvatirnar þar að baki voru pólitískar eða af öðrum toga. Það þarf einhver að spyrja Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra hvernig það sé í verkahring leikhússins.

Ef til vill einnig hver hafi verið kostnaðurinn af sýningunni og kynningu hennar og hver hafi borið hann, því öfugt við allar aðrar sýningar Borgarleikhússins var aðgangurinn ókeypis. Útsvarsgreiðendur þurfa hins vegar árlega að leggja leikhúsinu til mörg hundruð milljónir króna. Fyrst og síðast þarf þó að rukka Kristínu Eysteinsdóttur um svör við því hvers vegna ekkert tillit var tekið til þolendanna í Klaustursmálinu, hvorki þá né nú. Óhróðurinn er allur á netinu í boði Borgarleikhússins.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.