*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Jóhannes Þór Skúlason
7. júní 2018 12:01

Glöggt er gests augað

Við Íslendingar getum stundum verið snögg að stökkva á neikvæða vagninn.

Haraldur Guðjónsson

Nýverið birti ferðasíðan velþekkta, Tripadvisor, lista sína yfir bestu upplifun þeirra milljóna ferðamanna sem nota síðuna – Certificate of Excellence. Ýmsum hér heima kom á óvart að þar trónir Ísland á toppi listans yfir bestu upplifun af ferðamannalöndum heims og það sama á við um upplifun af íslenskum veitingastöðum og afþreyingu. Reykjavík er í öðru sæti yfir bestu upplifun af ferðamannaborgum veraldar og einnig í öðru sæti fyrir veitingastaði. 

Það er athyglisvert að á meðan umræða um ferðaþjónustu er um þessar mundir óþarflega neikvæð, snýst um gjaldtöku og verðlag og ágang, gefa ferðamenn frá öllum heimshornum Íslandi og íslenskri ferðaþjónustu toppeinkunn. Gæti verið að gestsaugað sé stundum glöggara en okkar heimafólksins?

Dýrtíð eða bein afleiðing efnahagsþátta?

Ísland er vissulega dýrt ferðamannaland. Því heyrist fleygt hér og þar að ferðaþjónustan verði bara að lækka verð. En slíkar aðstæður verða ekki til úr engu. Mikil styrking krónunnar hefur valdið því að samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu á erlendum mörkuðum hefur farið hratt versnandi, enda er greinin skiljanlega mjög næm fyrir sveiflum gjaldmiðilsins eins og aðrar útflutningsgreinar. Á sama tíma hefur innlendur launakostnaður hækkað gríðarlega frá 2010; 113% hækkun í evrum samanborið við 6-20% hækkun á hinum Norðurlöndunum. Ferðaþjónusta er mannaflsfrek grein og launakostnaður því oft lunginn af rekstrarkostnaði fyrirtækjanna. Ofan á þetta bætist m.a. fjármagnskostnaður vegna mikilla fjárfestinga til að standa undir vextinum og svo gjöld hins opinbera, s.s. hækkun olíuverðs, hækkun virðisaukaskatts 2016, þreföldun gistináttagjalds og hækkun kolefnisgjalds á eldsneyti. Það er því ekki eins hlaupið að því að lækka verð til að laga samkeppnishæfnina og sumir virðast enn telja.

En íslensk ferðaþjónusta er þrátt fyrir þetta sterk. Ferðamönnum er enn að fjölga þótt hægt hafi á. Greinin skilaði nettó 60 milljörðum króna beint til ríkis og sveitarfélaga á síðasta ári og á hverjum degi leggja erlendir ferðamenn um 1,4 milljarða króna í erlendum gjaldeyri inn í efnahagslífið. Ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi eru orðin um 4.000 talsins og störfum í greininni í heild hefur fjölgað um 55% frá árinu 2010, og um tæp 78% á landsbyggðinni. Ferðaþjónustan er þegar orðin burðarás í efnahagslífi Íslands og hefur verið drifkraftur fjölbreytni í atvinnulífi og uppbyggingar, t.d. í minni sveitarfélögum um allt land. Og hún er ekki að fara neitt.

Kíkjum út úr kúlunni

Við Íslendingar getum stundum verið snögg að stökkva á neikvæða vagninn. Margar neikvæðar fréttir í erlendum miðlum má því miður rekja til óvæginnar umfjöllunar og umræðu hér heima. En íslensk ferðaþjónusta á mikið undir jákvæðu orðspori og því þurfum við öll að tileinka okkur ábyrga umræðu um greinina og gæði landsins. Það þýðir ekki að við eigum að beina blinda auganu að því sem er að – það þarf auðvitað að laga. En við þurfum að nálgast hlutina af fagmennsku, af jákvæðni og með hvatningu að leiðarljósi, öðruvísi verður okkur ekki ágengt. Í gósentíð samfélagsmiðlanna er orðið fljótt að berast, bæði innan og út fyrir landsteinana.

Það er líka mikilvægt að muna að maður hefur almennt ekki góða yfirsýn innan úr kúlunni. Það er nauðsynlegt að horfa vítt á verkefnið og setja skynsamleg langtímamarkmið, t.d. í stefnumörkun stjórnvalda. Það er eðlileg þróun að það hægi á þeirri gríðarlegu fjölgun ferðamanna sem við höfum séð undanfarin ár. Sú þróun verður alls ekki sársaukalaus en það er heldur engin ástæða til að hrópa heimsendaspár af torgum. Það sýna viðurkenningar Tripadvisor t.d. svart á hvítu. 

Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hafa í gegnum tíðina sýnt hugkvæmni í að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Og tækifærin í ferðaþjónustunni eru alls staðar í kring um okkur. Skynsamleg umgengni við náttúruna og nauðsynleg uppbygging innviða um allt land getur vel viðhaldið aðdráttarafli Íslands fyrir ferðamennina í framtíðina. 

Við höfum séð á undanförnum árum að ferðaþjónustan takmarkast einungis af hugmyndaauðgi einstaklinganna, þar sem fjöldi fyrirtækja hefur sprottið upp til að búa til þjónustu sem ekki var til staðar áður. Enn bíður fjöldi slíkra hugmynda þess að vera hrint í framkvæmd. En stóra verkefnið okkar á næstu árum er að ná jafnvægi í aðsókn og þjónustu við ferðamenn, þannig að ferðaþjónustan verði til langrar framtíðar sú meginstoð hagkerfisins og atvinnulífsins sem hún er orðin í dag.Það er í senn stærsta áskorunin og stærsta tækifærið sem við stöndum frammi fyrir.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.