*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Týr
7. maí 2018 11:01

Glötuð tækifæri

Saga meirihlutans í borginni er saga glataðra tækifæra en verst er að borgarstjórinn er hæstánægður með sig.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar.
Haraldur Guðjónsson

Í liðinni viku var ársreikningur Reykjavíkurborgar kynntur í Borgarráði og lá við að borgarstjóri klökknaði yfir þeim undrum, sem þar var lýst. Tekjur borgarinnar hafa vissulega aukist í efnahagsuppgangi síðustu ára: Heildartekjurnar 28 milljörðum hærri að raunvirði í fyrra en fyrir fjórum árum og liðlega 41 milljarði hærri en fyrir átta árum. Hitt er bagalegra að skuldasöfnunin hefur verið sem aldrei fyrr, en þær hafa tvöfaldast á þessum átta árum. Sem hlutfall af tekjum borgarinnar hafa skuldir hækkað úr 56% í 85%. Á sama tíma hefur launakostnaður hækkað um 58% á föstu verðlagi án þess að borgarbúar hafi orðið þess varir að þjónustan hafi batnað um helming. Öðru nær.

                        ***

Það er lítill ágreiningur um það sem á bjátar í Reykjavík. Í borginni ríkir heimatilbúin húsnæðiskreppa, samgöngukerfið er lamað á álagstímum, biðlistar eftir dagvist lengjast, þjónusta við eldri borgarara hefur verið skert svo um munar, óþrif og mengun er orðið heilbrigðisvandamál, jafnvel vatnsból og strendur hafa reynst óheilnæm, en þrátt fyrir ógnarmikla útþenslu stjórnkerfisins, fá borgarbúar úrlausn sinna mála seint og illa.

                        ***

Þetta hefur ekki gerst vegna þess að verkefnin séu óleysanleg — þetta eru allt hefðbundin verkefni sveitarfélaga. Það er ekki heldur svo að höfuðborg landsins geti ekki verið sjálfbær, þvert á móti ætti hún að njóta einhverrar hagkvæmni stærðarinnar. Enn síður er því um að kenna að Degi B. Eggertssyni gangi eitthvað annað en gott eitt til. En því miður virðist fullreynt á að hann valdi verkefninu.

                        ***

Það er ekki tóm vanræksla eða skeytingarleysi. Nær er að benda á að eitthvað bogið sé við forgangsröðunina og skilning borgarstjóra á ábyrgð sinni. Þegar ekið er eftir Borgartúninu með flísalagðar gangstéttir sitt á hvora hönd holóttrar götunnar er auðvelt að sjá hvernig gæluverkefnin hafa fengið forgang á grunnverkefni borgarinnar. Rétt eins og viðbrögð borgarstjórans þegar eitthvað fer úrskeiðis, en þá lætur hann ævinlega eins og honum komi það ekki við, alveg steinhissa á því hvernig vandamál dagsins gat gerst.

                        ***

Verst er þó að borgarstjórinn virðist hæstánægður með sig og á kynningu kosningastefnu Samfylkingarinnar boðaði hann óbreytta stefnu, meira af því sama, meira af glötuðum tækifærum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.