Vatnaskil urðu í stjórnarmyndunarviðræðum þegar flokksformennirnir þrír voru orðnir ásáttir um framhaldið og Katrín Jakobsdóttir gekk á fund forseta til þess að greina honum frá því og að hún væri forsætisráðherraefni nýrrar ríkisstjórnar.

Nú blasir við að flokksformennirnir hafa kosið að hafa þennan hátt á viðræðunum, meðal annars til þess að höggva á að hefð skapist um að forseti sé að hlutast mikið til um stjórnarmyndun. Þess vegna var einkennilegt að sjá enn og aftur hjal og uppslátt um að forseti hafi afhent Katrínu eitthvert „formlegt umboð“ til stjórnarmyndunar.

En ef slíkt nývirki er til, hvernig stendur á því að enginn fjölmiðill hefur enn birt mynd af því?

***

Það er erfitt að átta sig á því hvaðan þetta raus um hið „formlega umboð“ komi. Að því leyti sem forseti á annað borð getur gefið stjórnmálamönnum umboð sitt, þá er það einmitt einstaklega óformlegt.

En á hinn bóginn er nokkuð öruggt að allur fréttaflutningurinn um þetta fyrirbæri stýrist aðallega af dramatískri þörf. Að í þessum einstaklega óáþreifanlegu stjórnarmyndunarumleitunum, þreifingum og viðræðum, sé eitthvað sem hönd er nánast á festandi, einhver helgigripur sem gerir þeim, sem á honum heldur, kleift að mynda ríkisstjórn en útilokar aðra. Sem er auðvitað fjarstæða.

Fjölmiðlar verða að stilla sig um að dramatísera fréttir, þær verða að vera sannar og réttar. Það er í góðu lagi að þær séu málaðar í sterkum dráttum og litaðar stemmningslýsingum, en allt verður það að þjóna fréttinni og almenningi. Það að flækja hana með svona þvaðri gerir það ekki.

***

Nú er fjölmiðlum auðvitað vorkunn. Það liggja stórviðburðir í loftinu, en allar söguhetjurnar verjast frétta, hlaupa íbyggnar framhjá hljóðnemunum eða tala í besta falli í gátum. Og norpandi neyðast fréttamennirnir til þess að segja ekkifréttir um hvað þeim þyki líklegt eða hvað sagt sé á göngum Alþingis og svo framvegis.

Það er því erfitt að áfellast menn fyrir að moða úr því litla sem þeir hafa. Alvöru fréttamiðlar verða þó að gæta þess að segja ekki meira en standa má við.

Hún var þess vegna alveg galin fréttin sem Ríkisútvarpið sagði á sunnudag um að það stæði nánast ekkert út af í stjórnarmyndunarviðræðum og byggði það á myndatöku með aðdráttarlinsu undir gluggatjöldin í glugga á Ráðherrabústaðnum, þar sem sjá mátti Lilju Alfreðsdóttur drekka úr freyðivínsglasi:

Að fundahöldum loknum, og áður en fólk hélt heim á leið, var skálað í freyðivíni fyrir þá sem lokið höfðu störfum í viðræðunum - væntanlega til marks um þann árangur sem náðst hefur í viðræðum flokkanna um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Væntanlega?! — Af hverju var ekki bara sagt að fréttastofu þætti ósennilegt annað en einhverjar tilfallandi vangaveltur fréttamannsins?

Þetta er fráleitt. Fréttastofan leggst á glugga og kynnir svo einhverjar órökstuddar ályktanir fréttamannsins sem frétt, svona til þess að byggja undir á tilgátu sína um að nánast allt væri klappað og klárt, en hið eina sem út af stæði yrði útkljáð „á morgun“. Fyrir þessum tilteknu ályktunum var enginn fótur nema gisk fréttamannsins.

***

Við þetta er því að bæta að svona gluggagægjur eru ekki alvöru fréttamiðli sæmandi. Ekki nema að þær leiði í ljós sjálfstæða frétt, sem eigi beint erindi við almenning. Því var hreint ekki að heilsa.

Á hinn bóginn fólust í þessu kampavínsskoti tiltekin hughrif, enda urðu ýmsir til þess að rifja upp kampavínsauglýsingu Vinstrigrænna úr kosningabaráttunni.

Það er ekkert að því að gula pressan eða skoðanamiðlar eins og DV eða Stundin dragi slíkt fram — má raunar halda því fram að það sé hlutverk þeirra — en að fréttamiðill setji slíkt fram sem frétt er út í bláinn. Að það sé sjálfur ríkisfjölmiðillinn, rauður í framan af hlutleysi, er ennþá galnara.

***

Örlög fjölmiðlasamsteypu Pressunnar hafa verið nokkuð í fréttum að undanförnu og hafa ásakanir gengið á víxl milli ýmissa hlutaðeigandi um það allt. Hér verður ekki reynt að leggja mat á það allt, þarf örugglega löglærðari menn en yðar einlægan til þess að skera úr um það. Það að vera með lögfræðipróf er þó engin trygging þess að allt sé satt og rétt, eins og lesa mátti frétt um í Morgunblaðinu á dögunum.

Þar sagði meðal annars að í lok ágúst hefði Lögfræðistofan BBA Legal að beiðni Eignarhaldsfélagsins Dalsins ehf., sem er meðal annars í eigu Róberts Wessman, sent tilkynningu til fjölmiðlanefndar um breytt eignarhald á Pressunni. Hið breytta eignarhald hefði hins vegar ekki reynst á rökum reist og því hefði þurft að leiðrétta hina breyttu skráningu eignarhaldsins.

Þetta er allt hið einkennilegasta mál og geta vafalaust spunnist af því fleiri fréttir. Þar skorti ekki lögmennina, en samt tókst þeim svona illa til. Nema auðvitað að þetta hafi verið einhver brella eða verra, sem vitaskuld myndi gera málið mun alvarlegra.

En í frétt Morgunblaðsins vantaði eitt lykilatriði, sem var hvaða lögmaður hefði sent inn þessa röngu tilkynningu. BBA Legal er bara kontór í Borgartúni, en það var maður af holdi og blóði sem sendi inn tilkynninguna. Lögfræðingur nánar til tekið, sem leggur starfsheiður sinn að veði með hverri slíkri gjörð. Almenning varðar um það hvað hann heitir, þó ekki væri nema til þess að varast hann í framtíðinni.

***

Þetta á raunar ekki aðeins við um þessa tilteknu frétt. Íslenskir miðlar eru allt of latir við að nafngreina fólk, sem kemur við sögu frétta. Hið sama á við um heimildamenn, jafnvel hjá stofnunum og fyrirtækjum, þar sem ekkert fer milli mála um hver viðkomandi er eða að hann tali í nafni þess sem hann vinnur fyrir.

Fréttir eiga að fjalla um fólk, ekki aðila. Fyrirtæki segja ekkert, heldur nafngreindir talsmenn þeirra. Og bílar lenda ekki í árekstri, heldur fólkið sem ekur þeim.