Reykjavík er ríkari af viðburðum eins og Menningarnótt sem fram fór um helgina. Hátíðarhöldin fóru vel fram með minniháttar undantekningum.Borgin bauð frítt í strætó en mislas eftirspurnina. Það mátti búast við því að með mikilli umræðu um Borgarlínu væri fólk spennt að prófa almenningssamgöngur. En, borgarbúar horfðu upp á strætó sem stóð ekki við áætlanir, keyrði framhjá fólki sem beið án þess að stoppa og meira að segja voru dæmi um strætisvagna sem hleyptu fólki ekki út þegar það vildi.

Viðbrögð Strætó voru ekki til þess að auka traust fólks á almenningssamgöngum. Í stað þess að hlusta á tillögur borgarbúa um umbætur, leituðu þau afsakana og kenndu barnavögnum um. Strætó missti þar af gullnu tækifæri til að laða að sér fleiri notendur, hefði upplifunin verið jákvæð. Hvort ætli sé líklegra að fólkið velji almenningssamgöngur eða einkabílinn næst?

Borgaryfirvöld hafa verið með það á stefnuskrá sinni að lækka leikskólagjöld. Við vitum öll hvernig hefur gengið að bjóða upp á þessa ódýru þjónustu í Reykjavík síðustu árin. Börn eru innrituð í leikskóla sem eru ekki til og ef þeir eru yfir höfuð til er ekki til starfsfólk til að taka á móti börnunum. Foreldrar sitja heima, komast ekki til vinnu og börnin eru svikin um rétt sinn til að sækja leikskóla.

Að bjóða fólki frítt strætó á Menningarnótt er í sjálfu sér gott mál. Hins vegar hefðu einkaaðilar hefðu aldrei rennt blint í sjóinn með þessum hætti. Á menningarnótt sannaðist hið forkveðna enn og aftur, að góð þjónusta er mikilvægari en ókeypis þjónusta. Þetta vita þau sem eiga allt sitt undir að rekstur fyrirtækja þeirra gangi upp.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 25. ágúst 2022.