*

miðvikudagur, 23. september 2020
Óðinn
27. júní 2018 18:37

Góðar fréttir

Það er full ástæða fyrir okkur að vera þakklát fyrir að búa á Íslandi, þótt veðrið sé þessa dagana einkar óskemmtilegt.

Gröf yfir landsframleiðslu, einstaklingsneyslu og iðjuleysi ungs fólks

Á þessum síðum hefur áður verið minnst á þá merkilegu staðreynd að þótt við Íslendingar erum að upplifa eitthvað mesta og lengsta efnahagslega uppgangstímabil í sögu lýðveldisins þá er ótrúlegur fjöldi fólks sannfærður um að hér sé allt í kaldakoli og að við stefnum hraðbyri í svartnættið.

                                                                ***

Það er því áhugavert að skoða nokkrar nýlegar fréttir frá Hagstofu Íslands, sem draga upp mynd af efnahagsástandi sem nær allir jarðarbúar myndu gjarnan vilja búa við.

                                                                ***

Efnahagslega staðan

Fyrst ber að nefna að magn vergrar landsframleiðslu á mann á Íslandi árið 2017 var 30% yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna 28 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum. Ísland var í fimmta sæti af 37 Evrópuríkjum.

                                                                ***

Magn vergrar landsframleiðslu á mann árið 2017 var hæst í Lúxemborg, 153% yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna. Þar á eftir komu Írland, Sviss og Noregur. Landsframleiðsla á mann á Íslandi er því hærri en í Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, svo dæmi séu tekin.

                                                                ***

Í sömu frétt var svo greint frá því að magn einstaklingsbundinnar neyslu á mann var hér á landi 17% yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna og var Ísland í sjötta sæti af Evrópuríkjunum 37. Noregur var í efsta sæti listans. Einstaklingsbundin neysla samanstendur af öllum vörum og þjónustu sem heimilin neyta án tillits til þess hver greiðir.

                                                                ***

Þannig telst til einstaklingsbundinnar neyslu öll neysla sem greidd er af heimilum og neysla sem er greidd af öðrum aðilum svo sem hinu opinbera. Einstaklingsbundin neysla er, samkvæmt Hagstofunni, gjarnan talin hentugur mælikvarði til að bera saman velferð milli ríkja.

                                                                ***

Velferðar- og atvinnumál

Næsta frétt snýr að ungu fólki, sem oft er sagt eiga hér erfiðara uppdráttar en víða annars staðar. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að í fyrra voru aðeins 3,9% fólks á aldrinum 15-24 ára án vinnu, utan skóla og ekki í starfsþjálfun og var þetta hlutfall hvergi lægra meðal Evrópuríkjanna 37. Í Tyrklandi og Makedóníu er tæplega fjórðungur fólks á þessu aldursbili ekki í námi, vinnu eða starfsþjálfun. Meðaltal Evrópusambandins var 10,9%.

                                                                ***

Í frétt Hagstofunnar er þessi staðreynd sett í mjög gott samhengi. „Atvinna gegnir mikilvægu hlutverki í lífi flestra. Hún er tekjulind og forsenda fyrir þátttöku í markaðssamfélaginu, en þar að auki er hún vettvangur félagslegra tengsla og skapar fólki hlutverk og stöðu í samfélaginu. Því má segja að virkni á vinnumarkaði sé mikilvæg leið til þátttöku í nútímasamfélagi. Fyrir vikið ógnar atvinnuleysi ekki aðeins afkomu fólks, heldur einnig sjálfsmynd þess og félagslegri stöðu.

                                                                ***

Nám er ekki síður mikilvægt, sérstaklega á tilteknum æviskeiðum, og getur það gegnt svipuðu hlutverki og vinna í lífi ungs fólks. Nám er yfirleitt ekki tekjulind, heldur þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að undirbúa fólk undir vinnumarkaðinn. Virkni í námi jafngildir þannig virkni á vinnumarkaði, a.m.k. hjá ungu fólki. Fyrir vikið nægir ekki að horfa til þess hvort ungt fólk hafi vinnu eða ekki, heldur skiptir jafnvel enn meira máli hvort það stundi nám.“

                                                                ***

Meðalævilengd Íslendinga er með þeirri hæstu í álfunni, en meðalævi íslenskra karla var 80,5 ár og íslenskra kvenna 83,9 ár. Á árunum 2006-2017 var ungbarnadauði hvergi jafn fátíður og á Íslandi, eða 1,7 af hverjum 1.000 lifandi fæddum börnum. Ungbarnadauði var tíðastur í Tyrklandi, eða 12,4 af hverjum 1.000 lifandi fæddum börnum.

                                                                ***

Hið opinbera

Við getum haldið áfram. Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um 9,6 milljarða á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en á sama tímabili í fyrra var hún jákvæð um 8,4 milljarða. Vissulega er það áhyggjuefni að heildarútgjöld hins opinbera jukust um 5% á milli ára, en tekjuafgangurinn nemur engu að síður 3,5% af tekjum hins opinbera.

                                                                ***

Landsframleiðsla á fyrsta fjórðungi ársins jókst um 6,6% frá sama fjórðungi í fyrra og er gert ráð fyrir því að hagvöxtur verði 2,9% í ár. Miklu skiptir að gert er ráð fyrir því að fjárfesting aukist um 3,2% á árinu, en fjárfesting er forsenda hagvaxtar til lengri tíma.

                                                                ***

Utanríkisverslun

Vöru- og þjónustujöfnuður var jákvæður á fyrsta ársfjórðungi ársins um 4,8 milljarða króna. Vöruskiptajöfnuðurinn, sem jafnan fær meiri umfjöllun í fréttum, var óhagstæður um 27,8 milljarða króna, en þegar þjónustuviðskipti eru tekin með í reikninginn þá snýst myndin við.

                                                                ***

Þá er gott að halda því til haga, þótt þetta séu ekki nýjar fréttir, að í samantekt OECD, Better Life Index, kemur fram að í engu OECD ríki er jöfnuður meiri en á Íslandi og að Ísland er í tíunda sæti af 38 þegar kemur að ráðstöfunartekjum heimila og því ellefta þegar kemur að hreinum fjárhagslegum eignum heimila.

                                                                ***

Þá má heldur ekki gleyma því að þegar þetta er skrifað er Ísland með raunverulegan möguleika á því að komast áfram í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu – staðreynd sem fyrir aðeins nokkrum árum hefði flokkast með bjartsýnustu draumórum.

                                                                ***

Það er því full ástæða fyrir okkur að vera þakklát fyrir að búa á Íslandi, þótt veðrið sé þessa dagana einkar óskemmtilegt.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.