Fyrr í sumar opnaði Landsbankinn fyrir aðgang að svokallaðri A2A-greiðslulausn, fyrstur íslenskra banka, og óhætt er að segja að áhuginn hafi verið mikill. Frá því lausnin var sett í loftið hafa rúmlega 50 aðilar í fjártæknigeiranum nýtt sér prófunarumhverfi fyrir A2A-greiðslulausnina og verið er að vinna úr fyrstu umsóknunum um aðgang að raunumhverfi.

Með þessu var stigið stórt skref í átt að opnu bankakerfi á Íslandi og það verður sannarlega spennandi að sjá hvernig íslensk fjártæknifyrirtæki ætla að nýta sér þennan aðgang.

Þegar rætt er um opið bankakerfi er meðal annars átt við að bankar geri öðrum á fjártæknimarkaði kleift að útbúa forrit (öpp og fleira) sem geta „talað við“ tölvukerfi bankanna. Þannig geti aðrir boðið upp á ýmsa þætti fjármálaþjónustu sem áður var eingöngu í höndum bankanna.

Bankakerfið opnað

Sú tækni sem opið bankaumhverfi byggir á nefnist forritaskil (e. „application programming interface“ eða API). Landsbankinn og fleiri íslenskir bankar hafa áður opnað fyrir aðgang að ýmsum upplýsingum, svo sem um verðskrá, vexti og gengi gjaldmiðla og þennan aðgang geta fjártæknifyrirtæki nýtt sér, meðal annars til að gera samanburð á kjörum.

A2A greiðslulausnin sem Landsbankinn setti í loftið í sumar gengur lengra, því með henni geta fjártæknifyrirtæki gert viðskiptavinum kleift að greiða fjármuni beint út af reikningum sínum, án þess að nota aðrar lausnir bankans, svo sem Landsbankaappið, netbankann eða greiðslukort. Landsbankinn er því sannarlega búinn að opna bankakerfið, a.m.k. að hluta.

Millifæra beint út af bankareikningum

A2A-greiðslulausnin stendur fyrir af-bankareikningi-á-bankareikning (e. account-to-account). Þegar fjártæknifyrirtæki hafa fengið aðgang að raunumhverfi fyrir greiðslulausnina geta þau útbúið forrit sem gerir viðskiptavinum kleift að millifæra íslenskar krónur af bankareikningi hjá Landsbankanum inn á bankareikninga hjá innlendum bönkum. Með sömu aðferð má greiða beint út af bankareikningi með því að bera símann að posa úti í búð.

Fjártæknifyrirtæki geta til dæmis smíðað app sem nýtir síma til að skanna strikamerki á vörum úti í búð og þegar neytandinn smellir á kaupa-hnapp í appinu, skuldfærist sjálfkrafa af forskráðum bankareikningi og hann getur gengið út úr búðinni án frekari málalenginga. Þjónusta sem þessi er byrjuð að ryðja sér til rúms erlendis og ýmsar nýjungar hafa þegar litið dagsins ljós. Rétt er að taka fram að fyrirtæki fá ekki aðgang að greiðslureikningum viðskiptavina nema að fengnu sérstöku samþykki þeirra.

Markaðstorg fyrir bankaþjónustu framtíðar

A2A-greiðslulausn Landsbankans er aðgengileg á API-markaðstorgi bankans sem var opnað í byrjun árs. Aðgangur að markaðstorginu er tvíþættur, annars vegar að prófunarumhverfi og hins vegar að raunumhverfi. Þegar fyrirtæki hefur nýtt sér prófunarumhverfið og er tilbúið til að halda þróun áfram þarf að sækja um aðgang að raunumhverfi. Aðgangur að raunumhverfi fyrir A2A-greiðslulausnina er aðeins veittur fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði bankans, svo sem um fjárhagslegt heilbrigði, öryggi hugbúnaðarlausnar og orðsporsáhættu.

A2A-greiðslulausnin er ætluð fyrirtækjum sem hyggjast verða greiðsluvirkjendur samkvæmt nýrri tilskipun Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu, PSD2, en tilskipuninni er ætlað að stuðla að nýsköpun og aukinni samkeppni í greiðsluþjónustu. Greiðslulausnin er sérstaklega ætluð fyrirtækjum á fjártæknimarkaði sem hafa einsett sér að sækja fram á þessum vettvangi. Landsbankinn lítur svo á að um langtímasamband sé að ræða og vill aðstoða fyrirtæki sem hafa nú þegar greiðslumiðlunarleyfi eða hyggjast fá sér slíkt leyfi eftir gildistöku PSD2.

Þótt PSD2-tilskipunin hafi ekki verið innleidd í lög hér á landi viljum við taka þetta skref núna og stuðla þannig að því að íslensk fjártæknifyrirtæki hafi sem bestan vettvang til að smíða nýjar lausnir. Vonin er sú að viðskiptavinir bankans njóti sem fyrst góðs af þeim breytingum sem eru að verða á fjármálaþjónustu.

Höfundur er sérfræðingur á Fyrirtækjasviði Landsbankans.