*

fimmtudagur, 28. október 2021
Gísli Freyr Valdórsson
18. september 2012 12:51

Goðið Obama og illmennið Romney

Það er stundum ótrúlegt að fylgjast með umfjöllun fjölmiðla af kosningabaráttunni vestanhafs. Spurning hvort nú verði breyting á.

Eins og flestum er orðið kunnugt fara fram forsetakosningar í Bandaríkjunum í byrjun nóvember nk. Næstu vikur og mánuði verður væntanlega töluvert fjallað um kosningarnar og aðdraganda þeirra í íslenskum fjölmiðlum.

Ef marka má fyrri umfjallanir af forsetakosningum vestanhafs, nú eða umfjöllun um bandarísk stjórnmál yfir höfuð, þá þýðir þetta að framundan eru nokkrar vikur af umfjöllun um stórmennið Barack Obama sem átti að færa samlöndum sínum von og breytingu. Það er þó ekki loku fyrir það skotið að eitthvað verði fjallað um auðmanninn Mitt Romney sem ætlar ekki að færa landsmönnum neitt annað en Repúblikanaflokkinn. Íslenskir fjölmiðlar fjölluðu á síðustu vikum um nýafstaðna landsfundi stærstu flokkanna vestanhafs; repúblikanaflokksins þar sem einhverjir rugludallar töluðu eitthvað rugl (eins og fram kom í Morgunútvarpi ríkisins), og demókrataflokksins þar sem Obama og Clinton sameinuðust í því að blása von og lífi í hjarta allra Bandaríkjamanna.

Við munum væntanlega sjá áberandi fréttir af því þegar helstu fjölmiðlar vinstri manna í Bandaríkjunum lýsa yfir stuðningi við Obama á næstu vikum. Það þykir alltaf jafn fréttnæmt þegar „stórblöðin“ New York Times og Washington Post lýsa aftur og aftur yfir stuðningi við forsetaframbjóðanda demókrata.

En það er ekki útilokað að fjallað verði um illmennið Romney og meðreiðarsvein hans Paul Ryan, sem skv. umfjöllun fjölmiðla hér á landi er nánös á annarra manna fé sem kallast því góða nafni almannafé. Fari svo að þessir kumpánar mismæli sig eða missi eitthvað óheppilegt út úr sér á fundum verða Íslendingar alveg örugglega upplýstir um það. Þó svo að hinn vel menntaði Obama hefði óvart sagt að austurríska væri tungumál, að Evrópa væri þjóðríki og að ríki Bandaríkjanna væru 57 þá voru það bara klaufaleg mismæli. Ef það er ekki spilað ítrekað í The Daily Show með John Stewart á það ekkert erindi við íslenska notendur fjölmiðla.

Það aldrei að vita nema inn slæðist einstaka frétt af neikvæðum og illkvittnum auglýsingum repúblikana um goðið Obama. Nær öruggt má telja að engar slíkar fréttir berist af auglýsingum demókrata enda stunda þessir miklu gáfumenn ekki slíka starfsemi. Ólíklegt má þykja að Íslendingar fái fréttir af samtökum sem kalla sig Priorities USA Action, sem hafa nú þegar varið tugum milljóna dala í auglýsingar gegn Romney.

Það verður líklega óþarfi að fjalla um smámál eins og stórauknar skuldir bandaríska ríkisins síðustu ár, aukið atvinnuleysi, mögulegt hrun Bandaríkjadalsins og vandamálin við að komast út úr Írak og Afghanistan á meðan einhver lúnitik úr biblíubeltinu opnar munninn og lýsir yfir stuðningi við Romney. Tala nú ekki um ef Sarah Palin fer eitthvað að skipta sér af og mismælir sig eitthvað.

Ég vona svo innilega að ég hafi rangt fyrir mér og geti leiðrétt þennan pistil þann 7. nóvember nk. Nema Romney vinni og heimurinn farist í kjölfarið.

 

Birtist fyrst í umfjöllun um fjölmiðla í Viðskiptablaðinu þann 13.09.12. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.