*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Týr
15. febrúar 2019 10:18

Góðir siðir

Klaustursmálið fór svo sannarlega fyrir brjóstið á þjóðinni, enda munnsöfnuðurinn þar við borðið engum bjóðandi eða sæmandi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er á meðal þingmanna sem sat að sumbli í hinu umtalaða Klaustursmáli.
Haraldur Guðjónsson

Klaustursmálið fór svo sannarlega fyrir brjóstið á þjóðinni, enda munnsöfnuðurinn þar við borðið engum bjóðandi eða sæmandi. Enda svo sem ekki margir boðnir, þó fleiri reyndust leggja þar við hlustir en Klausturriddararnir héldu. Nú hafa þeir oftsinnis beðist afsökunar á þessum ummælum, en vandinn er sá að fólk hefur verið mjög misfúst til þess að veita þær afsakanir. Fram hafa komið kröfur um afsögn sumra þingmannanna á Klaustri, jafnvel allra, og í þinginu hefur það gerst að sumir vilja sniðganga þá eða útskúfa.

* * *

Nú er það auðvitað svo, að á Klaustri höfðu menn mismikið til málanna að leggja og engan veginn allir, sem viðhöfðu þar einhvern óverjandi dónaskap. Þeir bera því ekki allir sameiginlega sök á þeim orðum, sem þar féllu. En það er þó fremur hitt, sem ber að staldra við, að einhverjir (pólitískir andstæðingar, ótrúlegt en satt!) vilji á einhvern hátt knýja þingmenn til afsagnar eða setja til hliðar í störfum þingsins.

* * *

Það verður að vera algerlega skýrt, að á þingi sitja menn í umboði kjósenda, og á meðan ekki koma til refsiverð brot, má enginn stjaka þeim þaðan. Alls ekki neinn. Ekki forseti, ekki forsætisráðherra, ekki flokksformenn eða nefndir Alþingis, hvorki páfinn né Gallup. Eða siðanefnd.

* * *

Hin sérstaka meðferð á Klausturmálinu er aðallega lýsandi fyrir brotalamir í þinginu, ekki síst hvað varðar siðareglur þingsins. Svo margir þingmenn höfðu tjáð sig um málið, að þeir þóttu ekki tækir til þess að fjalla um það, og því brugðið á það ráð að kjósa nýja tveggja manna forsætisnefnd, sem hefur það eina verkefni að fjalla um Klaustursmálið og vísa því áfram til siðanefndar Alþingis. Svo skemmtilega vill til að þeir eru báðir úr stjórnarflokkunum og eiga að fjalla af hlutlægni um mál, sem aðeins varðar stjórnarandstöðuna. Fyrir nú utan hitt, að þetta fordæmi mun helst verða til þess að þingmenn veigri sér við að fjalla um þau mál, sem hæst ber í samfélaginu, ef þeir skyldu nú baka sér vanhæfi í þinginu fyrir vikið!

* * *

Þingmenn eru beinlínis kosnir til þess að rífast fyrir okkar hönd og láta í ljós skoðanir á álitaefnum samtímans. Þar hafa stækir íhaldsmenn vel getað unnið með kommúnistum með byltingu á stefnuskránni, kurteisustu menn með hinum kjaftforustu. Hafi þingmenn uppi dónaskap í störfum þingsins geta forsetar eða nefndarformenn vítt þá eða svipt málfrelsi. En það sem sagt er utan þings, um þær sakir mega aðeins kjósendur jafna.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.