Goðsögnin um hina fallegu og litlu sparisjóði úti á landsbyggðinni sem þjóni nærsveitungum sínum af alúð og kærleika endaði með falli Sparisjóðsins í Keflavík. Það eru þrír þættir sem gera sjóði á borð við þennan beinlínis hættulega en þetta kemur til vegna uppbyggingar sjóðanna.

Fyrsti þátturinn snýr að því hvernig sjóðirnir fjármagna sig. Það gera þeir að mestum hluta með því að safna innlánum sem gerir það að verkum að ef og þegar þeir falla þá lendir það á innlánseigendum eða ríkissjóði. Við þessar aðstæður er ekki hægt að velta ábyrgðinni nema að litlum hluta yfir á aðra kröfuhafa. Ríkissjóður hefur þá um tvennt að velja, að tryggja innlán eða láta innlánseigendur taka skellinn á sig. Það þarf vart að taka fram að ríkissjóður er gjarn á að tryggja innlán í bankakrísum því annars tekur skamman tíma fyrir allt kerfið að fara á hliðina.

Annað atriðið snýr að því sem oft er hampað sem helsta kosti sparisjóðakerfisins. Þeir búa yfir mikilli staðbundinni þekkingu á sínum viðskiptavinum og nærumhverfi. Menn virðast samt ekki alltaf átta sig á því að þetta nærumhverfi á það til að villa mönnum sýn. Stjórnendur virðast ekki geta skilgreint á milli þess sem teljast góðir lántakendur, eða skuldarar, og hins vegar góðir vinir og kunningjar. Innlán eru því notuð til að lána í ýmsar glórulausar fjárfestingar á borð við stofnfjáraukningar annarra sparisjóða og viðlíka verkefni. Staðbundna þekkingin á það nefnilega til að snúast upp í andhverfu sína.

Þriðji þátturinn snýr að stjórnendum. Þar sem stofnfjáreigendur eru oft mjög margir og þeir hafa engan beinan hag af rekstri sjóðsins þá verða völd stjórnenda of mikil. Lítið aðhald kemur frá þeim sem eiga að teljast eigendur sjóðanna og stjórnendur geta valsað um fjárhirslur sjóðanna. Gott dæmi um hversu valdalitlir stofnfjáreigendur eru í raun og veru er sú staðreynd að stofnfjáreigendur í Keflavík fengu ekki einu sinni aðgang að skýrslu PWC sem slitastjórn sjóðsins var látin borga.

Örfáir sparisjóðir eru eftir á landinu. Um helmingur þeirra er að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins. Þrátt fyrir að litlu sparisjóðirnir eigi það til að líta út fyrir að vera krúttlegi hvolpurinn í hópnum sem engum geri mein þá geta sætustu hvolpar skilið eftir sig leiðindi sem enginn nennir að þrífa upp. Það þarf að hafa í huga að það er aldrei gaman þegar skattborgarar þurfa að þrífa upp eftir aðra.