*

mánudagur, 17. júní 2019
Illugi Jökulsson
25. janúar 2012 13:38

Góðu fréttirnar

Fordæmi annarra eru hvatning og áskorun. Góðar fréttir sýna okkur að heimurinn er ekki á leiðinni þráðbeint til helvítis.

Nicole Kidman

Eru engar fréttir góðar fréttir? Það finnst flestum, nema kannski fréttastjórum með byrjandi magasár, sem þurfa að fylla dálksentimetrana.

Vondar fréttir eru góðar fréttir í orðabókum margra blaðamanna. Hinsvegar virðast góðar fréttir almennt ekki þykja góðar fréttir.

Við vorum að ræða þetta í Vikulokunum á Rás 1 á laugardaginn, Baldvin Jónsson markaðsmaður m.m. og Kristín Vala Ragnarsdóttir sjálfbærnigúrú m.m. Umræðum stjórnaði Hallgrímur Thorsteinsson m.m. Það sem kannski var óvenjulegt við þennan umræðuþátt er að þar var ekki þvargað um pólitík. Bara ekki eitt orð.

Við steingleymdum að tala um krísuna í Samfylkingunni, rétt tæptum á ræðu forsetans, sögðum ekki orð um ástandið í Sjálfstæðisflokknum eða klofninginn hjá Vinstri grænum.

Engum datt í hug að tala um mögulegan stuðning Hreyfingarinnar við restina af ríkisstjórninni, og hvorki Jón Bjarnason né Árni Páll voru nefndir á nafn.

Við töluðum hinsvegar heilmikið um góðar fréttir. Það er nefnilega svo mikið af góðum fréttum, út um allt, ef við bara nennum að skyggnast um eftir þeim. Mínir góðu kollegar á hinum ýmsu fjölmiðlum mættu gjarnan huga að þeirri staðreynd. Út um allt eru einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök – jafnvel stofnanir! – að gera góða hluti. Þetta á ekki síst við í atvinnulífinu. Þúsundir fyrirtækja á Íslandi skiluðu þrátt fyrir allt hagnaði á síðasta ári.

Fullt af fólki er að vinna að því að láta drauma sína rætast. Aðrir berjast fyrir betri heimi, en niðurstaðan er sú sama: Aukin lífsgæði, aukin hamingja, aukin gleði. Aukin farsæld. Gleði og hamingja auka almenna farsæld. Og góðar fréttir fylla okkur vongleði og bjartsýni. Fordæmi annarra eru hvatning og áskorun. Góðar fréttir sýna okkur að heimurinn er (þrátt fyrir allt) ekki á leiðinni þráðbeint til helvítis.

Fleiri góðar fréttir, takk. Af öllum sviðum mannlífsins. Fréttir af nýjum fyrirtækjum, frumkvöðlum, hjálparstarfi... Ég sé núna að mest lesna fréttin á mbl. is flokkast undir góða frétt, allavega fyrir Nicole og Keith: „Nicole Kidman hefur farið að fordæmi eiginmanns síns, Keiths Urban, og er hætt að neyta áfengis.“

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is