*

sunnudagur, 20. júní 2021
Óðinn
7. febrúar 2017 13:12

Gölluð skýrsla um aflandsfélög

Óðinn gagnrýnir skýrslu starfshóps fjármálaráðuneytisins á fjármagnsflutningi og eignarumsýslu á lágskattasvæðum.

Flavio Ensiki

Skýrsla starfshóps á vegum fjármálaráðuneytisins á fjármagnsflutningi og eignaumsýslu á lágskattasvæðum hefur fengið litla sem enga efnislega umfjöllun. Reyndar fjallaði Kastljós um skýrsluna á mánudagskvöld, birti efni úr skýrslunni og ræddi við formann starfshópsins.

***

Óðinn skilur verkefni starfshópsins svo að honum hafi verið ætlað að finna út hvort og þá hversu miklum skatttekjum ríkissjóður verður af vegna lágskattasvæða og koma með tillögur að úrbótum á núverandi regluverki og skattframkvæmd.

***

Í skýrslunni er hins vegar fyrst fremst verið að líta til þess tíma áður en viðskiptabankarnir þrír féllu haustið 2008 og fjárkreppan skall á. Lítil umfjöllun er um raunverulega stöðu undanfarin misseri en ástæðan er sú að engin gögn eru fyrir hendi.

***

Aflönd eða ekki aflönd?


Skýrsluhöfundar benda réttilega á að Íslendingar stofnuðu helst félög í Lúxemborg og Hollandi. Að mati skýrsluhöfunda eru þessi ríki, sem bæði eru meðal sex stofnríkja Evrópusambandsins, lágskattasvæði. Þetta kemur skýrt fram í lið 2.1. þar sem segir m.a.: „Þótt lengi hafi verið nokkuð um undanskot fjármuna á erlenda leynireikninga hérlendis verður stökkbreyting á flæði fjár til aflands- og lágskattasvæða á fyrsta áratug þessarar aldar. Fjöldi aflandsfélaga í eigu Íslendinga fertugfaldast frá 1999 fram að hruni og eignir í stýringu íslensku bankanna í Lúxemborg 46-faldast á sama tímabili.“

***

Þetta er rangt. Í íslenskum rétti eru þessi lönd ekki álitin lágskattaríki. Þetta kemur reyndar fram á viðauka á bls. 42 í skýrslunni „skilgreining á aflandssvæði. Þar eru aflandssvæði og lágskattaríki lagt að jöfnu. Samkvæmt 57. gr. a. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt skal ráðherra birta lista yfir þau lögsagnarumdæmi sem eru lágskattaríki. Hinn 22. desember 2010 birti fjármálaráðuneytið listann. Þetta var í embættistíð Steingríms J. Sigfússonar, þá formanns Vinstri grænna. Indriði H. Þorláksson var hættur sem aðstoðarmaður Steingríms en var í sérverkefnum í ráðuneytinu. Þessi listi var einnig birtur í skýrslunni.

***

Þessi tvö ríki, sem helst koma við sögu í skýrslunni, eru því ekki aflandssvæði samkvæmt eigin skilgreiningu skýrsluhöfunda. Sigurður Ingólfsson, formaður starfshópsins, var á sömu skoð­ un í Kastljósi. Skýrslan er þá þegar marklaus og það á fyrstu síðu. Kvartað hefur verið yfir því að skýrslan hafi verið birt seint, en Óðinn telur að aldrei hefði átt að birta þessa skýrslu í óbreyttri mynd.

***

Fyrirvarar og ályktanir

Að þessu slepptu, þá varð Óðinn hissa þegar hann las skýrsluna. Það sem fyrst og fremst vekur athygli er hversu miklar ályktanir eru dregnar af litlum efnivið. Skýrsluhöfundar gæta hins vegar að því að nefna fyrirvara við nið­ urstöður en þrátt fyrir það eru ályktanirnar dregnar sem stenst ekki skoðun.

***

Í skýrslunni segir: „Milliverð­ lagning felst oftast í því að innflutningsverð er skráð hærra en raunverulegt innkaupsverð, eða að útflutningsverð er skráð of lágt. Þannig verða til tekjur erlendis sem safnast fyrir á aflandssvæð­ um. Löng hefð er fyrir slíkum viðskiptaháttum hérlendis. […] Tímamisræmi, frílagerar og vörudreifingarmiðstöðvar, gengismunur o.m.fl. geta skekkt þá mynd sem gögnin gefa, auk þess sem Ísland er svo lítið að það flokkast oft undir „annað“ í tölfræði sem aðrar þjóðir birta. Því þarf að rýna gögn um milliríkjaviðskipti mjög vandlega til að komast að áreið­ anlegri niðurstöðu. Starfshópnum vannst ekki tími til þess í þetta sinn. Með fyrirvara um það má þó setja fram einfalda nálgun og byggja á henni ályktanir í líkingu við þær sem dregnar hafa verið í öðrum löndum á grundvelli tímafrekrar greiningar, ef haft er í huga að óvissa um niðurstöðuna verður þá sem því nemur meiri.“ Það er ekki boðlegt af opinberri nefnd að halda því fram að það sé hefð hérlendis að stela undan skatti án þess að byggja sakargiftirnar á mjög traustum málflutningi og gögnum. Það eru vissulega dæmi um að íslensk fyrirtæki hafi gerst sek um að falsa reikninga, innflutningsskjöl og önnur bókhaldsgögn í gegnum tíðina. Óðinn man hins vegar ekki eftir nýlegu dæmi þar sem sakfellt hefur verið í slíku máli. Að auki má telja mun erfiðara að stunda margfalt bókhald (ekki tvöfalt, enda er það lagaskylda) þegar það er komið í viðurkennd hugbúnaðarkerfi. Slíkt er vissulega hægt, en mun flóknari heldur en áður fyrr þegar bókhald var mun ófullkomnara.

***

En skýrsluhöfundar láta þetta ekki stoppa sig. Þeir telja að einn af hverjum tíu inn- og útflytjendum hafi ástundað ólögmæta milliverðlagningu en eru svo sanngjarnir og benda á að aðrir hafi ekki gert það!

***

„Skattrannsóknir og vitnisburð­ ur þeirra sem til þekkja benda til þess að 10% óuppgefin „umboðslaun“ af innkaupsverði, eða 11,11% álag á sannvirði, hafi lengi verið viðmiðið hérlendis hjá þeim sem stunduðu þetta, sem auðvitað voru ekki allir. Sú tala er af sömu stærðargráðu og sá eðlilegi verð­ munur sem rekja má til flutningskostnaðar, umsýslu og trygginga. Því má telja nokkuð varfærið að nota 10% af mismuninum þar sem Ísland á í hlut. Það jafngildir því að einn af hverjum tíu inn- og útflytjendum hafi ástundað ólögmæta milliverðlagningu, en aðrir ekki.“

***

Skýrsluhöfundar fella hér þungan dóm yfir 10% allra inn- og útflytjenda en grundvalla dóminn með því að benda á skattrannsóknir og vitnisburð þeirra sem til þekkja. Hvaða skattrannsóknir eru skýrsluhöfundar að tala um? Hverjir þekkja til þessara mála? Eru það endurskoðendur, starfsmenn skattyfirvalda eða sérfræð­ ingar í skattarétti? Spákonur eða minni spámenn?

***

Ágiskun út í bláinn

Á þessum veika grunni byggja skýrsluhöfundar eftirfarandi niðurstöðu: „Sé gert ráð fyrir því að umrætt fé hafi fallið til jafnt og þétt yfir allt tímabilið gerir það rúmlega 2,5 ma.kr. hvert ár í 25 ár. Hafi féð verið vistað óskert allt tímabilið á óskattlögðum bankareikningum með hóflegri innstæðuávöxtun (1%), gefur það 140 ma.kr. í árslok 2015 að teknu tilliti til gengisþróunar á tímabilinu.“

***

Þessi „niðurstaða“ er auðvitað ágiskun út í bláinn og gefur enga vísbendingu um hugsanleg skattaundanskot. Ekki er hægt að átta sig á hverjar ávöxtunarforsendur skýrsluhöfunda eru en þær koma hvergi fram í skýrslunni. Óðinn vill benda þeim á að stýrivextir í flestum ríkjum Evr­ ópu og Bandaríkjunum eru um, rétt undir eða rétt yfir 0% og hefur verið svo frá því að fjárkreppan hófst haustið 2008. Fjárfestar út um allan heim myndu greiða skýrsluhöfundum háar fjárhæðir að fyrir að finna bankareikning í Bandaríkjadal, evrum eða öðrum alþjóðlegum myntum sem gæfi 1% ávöxtun. Slík ávöxtun hefur ekki fengist síðasta áratuginn.

***

Stórfelldur gagnavandi

Eins er áhugavert að í samantekt um niðurstöður skýrslunnar segir um óskráðar fjármagnstilfærslur fram til ársins 2010 að mögulegt sé að þar sé einfaldlega um að ræða stórfelldan gagnavanda, þ.e. vanskráningu, uppsafnaðan gengismun gjaldmiðla, ranga verðlagningu eignamegin o.fl. „Hallast þeir sem mest hafa unnið með þessi gögn hérlendis fremur að þeirri skýringu,“ segir í skýrslunni.

***

Á sömu blaðsíðu segir enn fremur: „Eins og áður segir er ekki hægt að útiloka að hér hafi verið heið­ arlega að öllu staðið, því eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að segja neitt um þennan afgangslið með vissu án frekari rannsókna.“ Þegar allt ofangreint er haft í huga er ljóst að taka verður niðurstöð­ unum með miklum fyrirvara og að minnsta kosti verður að rannsaka málið nánar áður en teknar verða ákvarðanir á grundvelli skýrslunnar.

***

Sett voru á mjög ströng gjaldeyrislög haustið 2008 og eftirlit með þeim var sömuleiðis mikið. Eitt stærsta málið sem kom upp í tíð gjaldeyrishaftanna var mál Samherja. Óðinn telur víst að fá mál hafi verið eins mikið rannsökuð á seinni árum eins og þetta mál. Seðlabankinn hélt því fram að Samherji hefði lengi selt erlendu dótturfélagi sínu afurðir á undirverði og þar með bæði brotið gegn ákvæðum skatta- og gjaldeyrislaga. Seðlabankinn endaði á að sekta Samherja um 15 milljónir fyrir meint brot á skilaskyldu eftir að hafa ákært fyrir brot sem vörðuðu fangelsisrefsingu.

***

Enginn hefur verið sakfelldur fyrir stórfelld skattalagabrot í skugga gjaldeyrislaganna. Hvers vegna benda skýrsluhöfundar ekki á það og taka tillit til þess við „útreikninga“ sína?

***

Skýrsluhöfundar gera tilraun til að meta hversu miklar eignir eru í stýringu erlendis. Aftur viðurkenna þeir að þeir hafi lítil gögn til að byggja á. „Torvelt reyndist að nálgast ítarleg gögn um umfang eignastýringarþjónustu íslensku bankanna í Lúxemborg og fyrir þau fyrirtæki sem líta má á sem arftaka þeirra í þessu tilliti eftir hrun tókst það alls ekki innan tímarammans. Var því notast við nálgun á þessum umsvifum sem miðast við árið 2007 og leiðrétt fyrir líklegri ávöxtun til dagsins í dag.“

***

Skortur á gögnum

Niðurstaða er fengin þrátt fyrir skort á gögnum. „Miðað við varfærnar forsendur gætu aðeins um 60 ma.kr. af eignum í stýringu hafa bjargast 2008 og væru þá 110190 ma.kr. í dag skv. ávöxtunarforsendum. Á hinn bóginn mætti með nokkurri bjartsýni gera ráð fyrir því að lítið tap hafi verið af erlendum eignum og áhrif gírunar verið lítil og yrði mat á eignastöðunni í dag þá á bilinu 200-350 ma. kr. eftir ávöxtun. Rúmar bilið 110-350 ma. kr. sem fæst með þessum hætti aðrar hóflegar tilgátur hópsins.“ Hvaða hóflegu tilgátur eru skýrsluhöfundar að tala um og hvaða óhóflegu tilgátur fengu þeir?

***

Í Kastljóss-þættinum, rétt eins og í skýrslunni, benti formaðurinn Sigurður Ingólfsson á að Íslendingar hefðu verið margfalt umsvifameiri í stofnun aflandsfélaga en hin Norðurlöndin. Skýringarnar á því eru eflaust margar. Með­ al annars notast til dæmis Danir mikið við sjóði en um þá hafa í árhundruð gilt aðrar skattareglur en félög með takmarkaðri ábyrgð. Má þar til dæmis nefna Carlsberg foundation og Lego foundation. Sá síðarnefndi er er staðsettur í Billund í Danmörku og Baar í Sviss, og á 25% hlut í leikfangaframleið­ andanum. Árið 2015 námu tekjur Lego sjóðsins 2,3 milljörðum danskra króna og komu nær allar frá Lego. Skattgreiðslur Lego sjóðsins námu hins vegar 296 þúsund dönskum krónum eða 0,01% af tekjum.

***

Svíinn Ingvar Kamrad, stofnandi Ikea, heldur út einu flóknasta neti eignarhaldsfélaga og sjóða sem þekkist og nær það meðal annars til Sviss, Hollands og Liechtenstein (sem er á lista íslenska fjármálaráðuneytisins yfir lágskattaríki).

***

Skýrsluhöfundar virðast komast að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hafi verið umsvifameiri í aflöndum en frændur okkar á Norð­ urlöndum á grundvelli gagna frá lögfræðifyrirtækinu Mossack Fonseca. Það gæfi eflaust góða vísbendingu ef fyrir lægju gögn frá öllum helstu lögfræðistofum í Sviss, Liechtenstein, Lúxemborg, Panama og öðrum aflöndum. En varla frá einni lögmannstofu í einu þessa ríkja?

***

Það vekur furðu að skýrsluhöfundar skuli ekki hafa greint frá helstu ástæðu þess að eignarhaldsfélög voru færð til Hollands frá Íslandi. Sú regla var í gildi fyrir 2008 hér á landi að söluhagnaður hlutabréfa var skattlagður að fullu. Heimilt var hins vegar að fresta tekjufærslu söluhagnaðar af hlutabréfum um tvenn áramót. Ef keypt voru ný hlutabréf innan tímamarkanna færðist söluhagnaðurinn til lækkunar á kaupverði þeirra bréfa.

***

Hefði aldrei átt að birtast í óbreyttri mynd

Þegar reglunni var breytt með lögum nr. 38/2008 kom eftirfarandi fram í greinargerð: „Þar geta hagstæðar skattareglur skipt sköpum varðandi staðsetningu. Þannig hafa íslensk félög í einhverjum mæli flutt eignarhald sitt á hlutabréfum yfir í dótturfélög sem staðsett eru í ríkjum þar sem skattlagning á söluhagnaði er talin mun hagstæðari en hér á landi. Má þar nefna sem dæmi Holland og Noreg. Norðmenn hafa gengið einna lengst í þessum efnum, en þar í landi er söluhagnaður hvers kyns hlutabréfa skattfrjáls án nokkurra skilyrða ef um er að ræða viðskipti milli aðila í atvinnurekstri svo fremi að seljandinn og fyrirtækið, sem selt er, hafi skattalegt heimilisfesti í EES-ríki.“

***

Kristján Kristjánsson, talsmaður FL Group, sagði eftirfarandi við blaðamann Viðskiptablaðsins í ársbyrjun 2007 í framhaldi af því að félög og einstaklingar tengd FL Group höfðu fært eignarhluti sína í félaginu til félaga í Hollandi. „Að baki tilfærslunni eru ýmsar ástæður. FL Group á fyrir eignir í Hollandi og því eðlileg þróun að haldið sé utan um fleiri eignir á sama stað. Þetta tengist líka fjármögnun en eins og kunnugt er hefur FL Group fjármagnað sig að miklu leyti erlendis að undanförnu. Fjármögnunaraðilar krefjast þess iðulega að veðsettar eignir séu vistaðar í sérstökum eignarhaldsfélögum. Að auki er skattaumhverfi eignarhaldsfélaga í Hollandi hagstæðara en á Íslandi. Að öllu samanlögðu má segja að erlendar fjárfestingar og samskipti við erlendar fjármálastofnanir kalli á ákveðnar breytingar og við erum að svara því kalli með þessum hætti. FL Group er alþjóðlegt fjárfestingafyrirtæki og vinnur samkvæmt því“.

***

Það kemur á óvart að nefnd sérfræðinga skuli skila af sér vinnu sem þessari. Það er mikilvægt að koma upp um og í veg fyrir skattsvik. En skýrsla sem þessi gerir lítið gagn og jafnvel meira ógagn því hún ýtir undir tortryggni sem er engum til góðs. Það má nefnilega ekki gleyma því hversu auðvelt er að flytja af landi brott og finna sér stað fjarri íslenskum skattyfirvöldum, stað sem býður upp á betra veður og lægri skatta.

***

Starfshópurinn er skipaður vel menntuðu fólki, en Óðinn efast um að þessi skýrsla starfshópsins uppfylli kröfur í flestu háskólanámi í flestum háskólum í heimi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.