Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata er gömul sál – hugsanlega sú elsta og virtasta á Alþingi að mati sumra hlustenda Dr. Football en það er önnur saga. Sökum sálaraldurs getur Björn Leví ekki leitað sér upplýsinga án þess að njóta aðstoðar og liðsinnis vel launaðra ríkisstarfsmanna í stjórnkerfinu. Þannig sjá hrafnarnir að hann hefur lagt fyrirspurn á Alþingi fyrir fjármálaráðherra: „Hvaða vextir hafa verið í boði fyrir ríkissjóð í hverjum mánuði á undanförnum tveimur árum, flokkað eftir verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum?“

Fyrirspurnin bendir til þess að Björn hefur ekki hundsvit á því sem hann er að spyrja um þróun á ávöxtunarkröfu á útgefnum ríkisbréfum er skrásett og öllum aðgengileg enda liggja þau til grundvallar allri verðmyndun á skuldabréfamarkaði. En í stað þess að fara inn á heimasíðu Lánamála ríkisins eða þá Kelduna kýs Björn að eyða vinnustundum starfsmanna í fjármálaráðuneytinu í að sækja þetta fyrir hann.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 9. mars 2023.