*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Leiðari
14. febrúar 2016 15:04

Gömul vín á gömlum belgjum

Vandi Samfylkingarinnar verður ekki leystur með gömlum og þreyttum hugmyndum Helga Hjörvar.

Haraldur Guðjónsson

Hafi einhver velkst í vafa um það hvort frumvarp Helga Hjörvar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um afnám verðtryggingar væri atlaga gegn sitjandi formanni Samfylkingarinnar, Árna Páli Árnasyni, getur sá hinn sami hætt að velta því fyrir sér.

Frumvarpið var lagt fram í óþökk Árna Páls og lýsti hann því strax yfir að hann væri því ekki sammála. Það er óvenjulegt að þingmenn leggi fram frumvörp sem formenn þeirra eru ósáttir við og því vakti þetta allt saman athygli áhorfenda.

Sigríður Ingibjörg hafði áður gert atlögu að Árna Páli og bauð sig fram gegn honum, með afar skömmum fyrirvara, á síðasta landsfundi Samfylkingarinnar. Niðurstaðan var reiðarslag fyrir alla sem að málinu komu. Sigríður Ingibjörg tapaði, en sigur Árna Páls var svo naumur, aðeins eitt atkvæði skildi þau að, að hann hefur verið særður holundarsári alla tíð síðan.

Sigríður Ingibjörg ætlar ekki á ný gegn Árna Páli, en öllum sem lásu kjallaragrein DV á dögunum má vera ljóst að Helgi Hjörvar gengur með formann í maga sínum. Hann talar þar um að gera þurfi gagngerar breytingar á hinum ýmsu stoðum þjóðfélagsins, sem honum þykir hafa fúnað. Má þar nefna stjórnarskrá, fjármálakerfi og peningamálin. Hann nefnir ekki Samfylkinguna í þessari grein, en hún er þó skrifuð með hástöfum á milli línanna.

Það sorglega er að lausnir Helga Hjörvars við þeim vandamálum sem hann telur sig sjá eru ekki frumlegar. Hann segir nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni í takt við tillögur stjórnlagaráðsins svokallaða, sem enginn lögfróður maður vill snerta á. Hann vill að sjálfsögðu afnema verðtryggingu lána og reisa á ný verkamannabústaðakerfið. Svo vill hann að sjálfsögðu taka hér upp evru.

Vandi Samfylkingarinnar er ekki eingöngu til kominn vegna formannsins og hann verður ekki leystur með gömlum og þreyttum hugmyndum Helga Hjörvar.

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.