*

föstudagur, 14. maí 2021
Týr
18. apríl 2021 15:04

Gosið á Alþingi

„Framundan er átakatími, ekki bara á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, heldur líka á milli stjórnarflokkanna.“

Á mánudag voru um 30 mál á dagskrá Alþingis, annað eins á þriðjudag og tæplega 20 mál í gær, miðvikudag. Hluti málanna eru ný mál sem ráðherrar eru nú að leggja fram í flýti en önnur eru að fara í gegnum 2. eða 3. umræðu eftir þinglega meðferð. Allt er þetta kunnuglegt stef.

* * *

Það eru aðeins tveir mánuðir í þinglok, þau síðustu á þessu kjörtímabili. Framundan er átakatími, ekki bara á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, heldur líka á milli stjórnarflokkanna. Enn eru mál sem eiga eftir að koma fram. Svo tekið sé eitt dæmi þá vinnur forsætisráðuneytið að frumvarpi sem þrengir enn frekar að möguleika útlendinga á að kaupa hér jarðir og fasteignir. Sjálfstæðisflokkurinn gaf eftir í sambærilegu máli í fyrra en Týr á eftir að sjá hvort það gerist aftur.

* * *

Þó svo að ráðherrum ríkisstjórnarinnar líði vel í núverandi samstarfi á það ekki við um þingflokkana. Staða einstakra þingmanna er heldur ekki til þess fallin að einfalda verkefnin framundan. Bjarkey Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG, taldi að hún gengi að oddvitasæti flokksins í NA-kjördæmi vísu eftir að Steingrímur J. Sigfússon tilkynnti að hann myndi hætta á Alþingi, en var felld í forvali flokksins.

Kolbeinn Óttarsson Proppé hefur verið trygglyndur stjórnarmeirihlutanum og taldi að hann myndi njóta þess í forvali flokksins á Suðurlandi, en var hafnað með afgerandi hætti í vikunni. Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, hefur þegar tilkynnt að hann hyggist ekki bjóða sig fram á ný. Páll skuldar engum neitt, ekki ríkisstjórninni og allra síst forystu Sjálfstæðisflokksins, og getur tafið þau ráðherramál sem hann vill í nefndinni ef honum sýnist. Þetta eru bara nokkur dæmi.

Hvað stjórnarandstöðuna varðar þá brenna bál innan Samfylkingarinnar, röðun á lista Viðreisnar er í uppnámi og vitað er að Miðflokkurinn vill endurnýja hluta af sínum þingflokki.

* * *

Næstu tveir mánuðir verða … áhugaverðir.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.