Í fréttum Ríkisútvarpsins þann 22. janúar var fjallað ítarlega um götulýsingu í Reykjavík. Lýsingin er úr sér gengin í stórum hluta borgarinnar og fjallað var í fréttinni um áform borgarinnar um svokallaða LED-væðingu götulýsingarinnar. Rætt var við Ársæl Jóhannesson, verkefnastjóra hjá Reykjavíkurborg, en fram kom í máli hans að nú þegar hefði borgin LED-vætt þriðjung af öllum ljósastaurum og stefnt væri á að hlutfallið yrði komið í 65% fyrir næstu áramót. LED-væðingu götulýsingar borgarinnar á svo að verða lokið árið 2024.

Það sem vekur athygli við þessa umfjöllun er að ekki er fjallað um þá staðreynd að Reykjavíkurborg hefur ekki boðið út nein af þessum verkum. Þess í stað hefur Orka náttúrunnar, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, fengið þessi verkefni í tengslum við LED-lýsinguna í hendurnar án þess að þurfa að taka þátt í útboðum í samkeppni við önnur fyrirtæki.

Er það með nokkrum ólíkindum að stjórnendur Reykjavíkurborgar standi að málum með þessum hætti enda má öllum vera ljóst að borgin hefur verulega hagsmuni af því að leita eftir hagstæðustu tilboðunum þegar kemur að þessum verkefnum. En samkvæmt upplýsingum sem borgin hefur lagt fram er gert ráð fyrir að kostnaður við rekstur, viðhald og LED-væðingu götulýsingar á árunum 2021 til 2025 nemi 2,8 milljörðum króna.

Að sama skapi er undarlegt að fjölmiðlar hafi ekki sýnt þessu máli meiri áhuga. Þannig ætti það að vera á flestra vitorði að Samtök iðnaðarins hafa á liðnum árum kvartað yfir hvernig væri staðið að þessum málum hjá borginni. Var sá málarekstur til þess að kæra var lögð fyrir kærunefnd útboðsmála. Kærunefnd útskurðaði í málinu síðasta sumar og lagði fyrir Reykjavíkurborg að bjóða út þjónustu við útskiptingu og uppsetningu LED-lampa í Reykjavík. Var borginni auk þess gert að greiða stjórnvaldssekt vegna málsins.

Í þessu samhengi má nefna að fjölmargir rafverktakar sinna viðhaldi götulýsingar fyrir sveitarfélög, Rarik og Vegagerðina um land allt. Það eru aðeins sveitarfélögin sem hafa verið í viðskiptum við Orku náttúrunnar sem kjósa að bjóða slík verk út.

***

Innherji, viðskiptavefur Vísis, birti áhugaverða umfjöllun í vikunni. Í henni kom fram að á síðustu tveimur árum hefur fækkað í hópi þeirra einstaklinga sem hafa fengið sérstök úrræði hjá Landsbankanum vegna greiðsluerfiðleika. Almennt er fjöldi slíkra mála hjá viðskiptabönkunum þremur lítill í sögulegu samhengi.

Þetta eru eftirtektarverðar upplýsingar þó að þær ættu ekki að koma á óvart. Þannig hefur mátt sjá í Fjármálastöðugleikaskýrslum Seðlabankans undanfarin misseri að vanskil eru í sögulegu lágmarki á meðan efnahagsleg staða heimilanna er sterk og kaupmáttur mikill. En þetta kemur samt sem áður ekki saman við málflutning forystu verkalýðshreyfingarinnar að undanförnu. Þannig var Drífu Snædal, forseta ASÍ, tíðrætt um að hér á landi ríkti neyðarástand í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabankans í þarsíðustu viku.

Slíkur málflutningur fellur alla jafna í frjóan jarðveg hjá fjölmiðlum. Í því ljósi væri til eftirbreytni ef leitað væri svara hjá þeim sem fullyrða að neyðarástand ríki í efnahagslegum skilningi í hverju neyðin fælist nákvæmlega og hvar í hagtölum mætti greina hana.

Þannig var af einhverjum ástæðum talið fréttnæmt í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins á þriðjudag að fá álit Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, á stöðunni umfram annarra stjórnmálaleiðtoga. Þar talaði hann fyrir að afnám allra sóttvarnareglna og innrás rússneskra stjórnvalda inn í Úkraínu á dögunum kallaði á hærri vaxtabætur: Í endursögn af fréttinni á heimasíðu RÚV segir:

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir alveg ljóst að nú þegar sjái fyrir endann á faraldrinum og afnám allra sóttvarnareglna þurfi efnahagsmálin að vera í aðalhlutverki og þá helst hvernig eigi að grípa viðkvæmustu hópana. Hann segir ríkisstjórnina ósamstíga eftir samstöðu í faraldrinum og innrás Rússa í Úkraínu geti haft miklar afleiðingar hér innanlands, staðan þar sé grafalvarleg. „Ég held að svona í augnablikinu verðum við að taka efnahagsmálin föstum tökum. Við verðum að tryggja að fólk komist sem best út úr þessum faraldri. Við erum að sjá verðbólgu hækka, við erum að sjá vexti hækka og það þarf að grípa til efnahagsráðstafana sem að grípa viðkvæmustu hópana. Þetta eru sumir flokkanna í ríkisstjórninni sammála okkur um, aðrir ekki. Það sem einkennir stjórnmálaástandið núna er að ríkisstjórnarflokkarnir, eftir að hafa getað sameinast í Covid, eru núna á sitthvorri leiðinni og stjórnarandstaðan er sameinuð," segir Logi.

En hverjar eru brýnustu efnahagsaðgerðirnar sem þér finnst og ykkur í Samfylkingunni að þurfi að bregðast við núna?

Við höfum talað bara skýrt fyrir því að það verði gripið til aðgerða sem komi í veg fyrir að þessar vaxtahækkanir hitti viðkvæmustu heimilin. Það er hægt að gera það til dæmis með tímabundnum eða varanlegum úrbótum á vaxtabótakerfinu."

Þarna tínir formaður Samfylkingarinnar til fjölmargar ástæður til þess að auka ríkisútgjöld með auknum vaxtabætum. En það breytir ekki neinu hvort verðbólga og vaxtahækkanir annars vegar eða yfirgangur rússneskra stjórnvalda gagnvart nágrannaríki hins vegar er um að ræða. Það verður að gera kröfu um að formaðurinn útskýri hvaða hópur það er nákvæmlega sem er ætlað að hjálpa. Vafalaust er hægt að finna einstaka dæmi um fólk sem er í erfiðri stöðu um þessar mundir en að sama skapi er ekkert sem bendir til þess að skilgreind neyð ríki hjá ákveðnum hópum í samfélaginu vegna þróunar efnahagsmála. Þeir sem telja að svo sé verða auðvitað að gera betur grein fyrir máli sínu.

***

Mikið fjölmiðlafár hefur geisað vegna þess að fjórir rannsóknarblaðamenn hafa verið kallaðir til yfirheyrslu vegna mála sem tengjast símastuldi og gruns um brot á friðhelgi einkalífs þess sem fyrir stuldinum varð. Það sem vakti fyrst og fremst eftirtekt við fréttaflutning af þessu máli í síðustu viku er hversu fjálglega fréttamenn fjölluðu um málið án þess að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir um hvað það snerist.

Náði þessi umfjöllun slíkum hæðum að mannréttindalögmaðurinn og þingmaðurinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði í Kastljósi í síðustu viku að um aðför gegn rannsóknarblaðamennsku væri að ræða og taldi hún að hugmyndir af hægri kantinum um að taka RÚV af auglýsingamarkaði væru liður í þessari aðför. Aðför sem væri svo sprottin af hefndarhug vegna sýninga sjónvarpsþáttarins Verbúðin.

Um svona vænisýki er lítið að segja. En hún bendir til þess hvað fjarstæðukenndar samsæriskenningar geta átt greiða leið í ríkisfjölmiðilinn. En á þetta allt saman er minnst hér til að benda fólki á ágæta grein sem Eva Hauksdóttir lögmaður ritaði um þetta mál og umfjöllun fjölmiðla um það litla sem hefur komið fram um efnisatriði þess:

„Því miður er ekki útlit fyrir að neinn marktækur fjölmiðill ætli að skoða möguleikann á því að eitthvað annað og geðslegra en ofsóknir í garð blaðamanna séu helsti drifkraftur lögreglunnar. Ég árétta að ég er ekki að fullyrða neitt um atvik þessa máls. Það eina sem ég fullyrði er að fréttaflutningur af því er grunnur, einhliða, ofsafenginn og lítt til þess fallinn að upplýsa almenning um nokkuð sem máli skiptir."

Það er full ástæða til þess að blaða- og fréttamenn ræði um þessi orð Evu í ágætri grein sem hún birti um málið á vefsíðu Vísis.