Í júní 2017 gaf Apple út skuldabréf að verðmæti 1 milljarður USD. Töluverð umræða skapaðist um það þar sem það var grænt. Raunin er sú að Apple gaf einnig út grænt skuldabréf í febrúar árið áður að verðmæti 1,5 milljarður USD.

Vísindamönnum ber almennt saman um að loftslagsbreytingar eiga sér stað á miklum hraða. Og að veita þurfi gríðarlegt fjármagn í verkefni sem ætlað er að sporna við breytingum og aðlaga samfélagið að breyttu loftslagi.

Þrátt fyrir að nokkuð borðliggjandi sé í hverskonar verkefni þarf að fara (t.d. orkuskipti til að minnka hlut jarðefnaeldsneytis í samgöngum) þá eru þónokkrar leiðir sem fjárfestar geta farið til að ná góðri ávöxtun ásamt því að stuðla að jákvæðri þróun í samhengi við sjálfbærni.

Græn og sjálfbær skuldabréf

Græn skuldabréf eru í eðli sínu einföld skuldabréf (e. vanilla bond) sem uppfylla auknar kröfur varðandi gagnsæi og hvernig fjármagn er nýtt. Útgefandi slíkra bréfa verður að nýta söluandvirði skuldabréfanna í fyrirfram skilgreind verkefni sem draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda eða öðrum mengandi áhrifum og greina þarf umhverfislegan ávinning af verkefninu.

Einnig er mögulegt að gefa út skuldabréf þar sem fjármagn skal nýtt í félagslega þætti, s.s. aðgengi að félagslegu húsnæði (e. social bonds). Þau hafa verið gefin út í mun minna mæli, eða um 5% af stærðargráðu grænna skuldabréfa, m.v. heildarútgáfu árið 2017.

Nasdaq bendir á að þrjú skilyrði þurfa að vera til staðar svo skuldabréf fáist skráð sem grænt skuldabréf. 1) Fjármagn skal nýtt í verkefni sem hafa umhverfislegan ávinning, t.d. dragi úr skaðlegri mengun, 2) þriðji aðili skal rýna í verkefnið sem er fjármagnað, t.d. að ganga úr skugga um að þau hafi sannarlega verið greind og sýnt sé fram á að verkefnin dragi í raun úr mengun og 3) framvinduskýrslur skuli vera aðgengilegar þar sem sýnt er fram á t.d. hversu mikið verkefnið hafi dregið úr útblæstri eða mengun eða önnur ESG áhrif þess. Hér þarf að passa sérstaklega uppá eftirfylgni með alþjóðlegum viðmiðum.

CICERO, norsk samtök sem veita umsögn þriðja aðila um græn skuldabréf, benda á að lífsferilsgreining (LCA) sé sú aðferðafræði sem helst eigi að horfa til þegar umhverfislegur ávinningur verkefna er greindur.

Á Íslandi mætti fjármagna ýmis verkefni sem gjarnan eru nefnd í almennri umræðu. Hér má helst nefna t.d. uppsetningu hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla, rafknúnar almenningssamgöngur og orkuver sem notast við endurnýjanlega orkugjafa líkt og Landsvirkjun hefur gert. Einnig má fjármagna innviði fyrir orkuskipti, bæði fyrir almenning og iðnað (t.d. sjávarútveg) og byggingar séu þær orkunýtnari eða stuðla að auknu framboði fyrir lágtekjuhópa.

Útgáfa grænna skuldabréfa hefur farið ört vaxandi, og eru áætluð verðmæti útgefinna bréfa árið 2017 um 160 milljarðar USD. Kauphallir eru einnig farnar að skapa sérstaka lista tileinkaða slíkum skuldabréfum, t.d. Osló árið 2015, Stokkhólmur, London, Mexíkó, Lúxemborg, Ítalía, Sjanghæ, Suður-Afríka og nú síðast Tokyo í janúar 2018.

Fjárfestar spyrja gjarnan hvort fjárfesting í grænum skuldabréfum gefi betri ávöxtun en hefðbundin skuldabréf. Nýleg rannsókn við Erasmus School of Economics, og sú fyrsta sem ber arðsemi grænna skuldabréfa saman við hefðbundin skuldabréf, virðist benda til að græn skuldabréf gefi fjárfestum í raun að jafnaði betri ávöxtun. Þetta eru gríðarlega mikilvægar upplýsingar sem ætti að skoða nánar.

Hér má mögulega sjá hvers vegna eftirspurn er mikil eftir grænum skuldabréfum. Bréfin hafa ekki einungis möguleg jákvæð umhverfisáhrif heldur virðist ávöxtun af slíkri fjárfestingu ekki endilega síðri og á stundum betri en af hefðbundnum skuldabréfum.

Landsvirkjun gaf út grænt skuldabréf fyrst íslenskra fyrirtækja. Það skuldabréf ber 4,14% vexti sem greiddir eru út tvisvar á ári. Eftirspurn eftir bréfi Landsvirkjunar var sjöföld miðað við upphaflega 100 milljóna USD útgáfu. Landsvirkjun tekur fram að fjármagnið skuli nýtt í byggingu Þeistareykjavirkjunar og stækkun Búrfellsvirkjunar.

Ørsted, stærsta orkufyrirtæki Danmerkur, gaf einnig út grænt skuldabréf að verðmæti rúmlega 1,4 milljarðar USD og býður fyrirtækið því upp á fjölbreyttari fjárfestingaleiðir en einungis kaup hlutabréfa, sem snúa á mismunandi hátt að sjálfbærni í rekstri Ørsted.

Hvað gerði Apple?

Árið 2016 gaf Apple út grænt skuldabréf að verðmæti 1,5 milljarðar USD. Apple endurtók svo leikinn rétt eftir að tilkynnt var að Bandaríkin myndu draga sig frá Parísarsamkomulaginu og gaf út annað grænt skuldabréf að verðmæti 1 milljarður USD.

Vextir seinna skuldabréfsins eru 2.85%, greiddir út á 6 mánaða fresti og gaf Moody’s bréfinu einkunnina Aa1 og S&P gaf því AA+.

Áhugavert er að geta þess að 44% fjárfesta græna skuldabréfs Apple tilheyra hópi sem einungis fjárfesta í grænum fjármálaafurðum. Samkvæmt Apple var markmiðið að ná til breiðari hóps sem hefur sérstakan áhuga á grænum fjárfestingum. Það var því árangursrík stefna hjá fyrirtækinu að standa að slíkri útgáfu.

Apple gefur reglulega út skýrslu þar sem ávinningur af grænu skuldabréfunum er sýndur. Þar kemur fram að verkefni sem fjármögnuð voru með fyrra bréfinu (gefið út árið 2016) dró úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem nemur 439.100 tonnum. Seinna bréfið sem gefið var út árið 2017 hefur nú þegar dregið úr útblæstri sem nemur 15.100 tonnum.

Það er því ljóst að útgáfa grænna skuldabréfa til fjármögnunar verkefna er mjög áhugaverður kostur. Ekki bara fyrir útgefendur til að stuðla að jákvæðum breytingum heldur líka fyrir fjárfesta sem í auknum mæli vilja beinlínis fjárfesta í slíkum fjármálaafurðum.

Dr. Reynir er meðstofnandi Circular Solutions.
Bjarni Herrera er framkvæmdastjóri Circular Solutions