*

laugardagur, 29. febrúar 2020
Leiðari
28. október 2019 14:15

Grátt gaman

Vera Íslands á gráa lista FATF er klúður bæði stjórnsýslu og ráðamanna. Engu síður er margt bogið við aðferðafræði FATF.

Haraldur Guðjónsson

Það að Ísland hafi ratað á „Gráa listann“ hjá alþjóðlegum starfshópi um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (FATF) er klúður bæði stjórnsýslu og ráðamanna. Eftir alla þá umræðu um bankakerfið, skattaskjól, aflandsfé og fjármálakerfið allt frá bankahruninu 2008 er ótrúlegt að þetta hafi komið fyrir. Íslendingar virðast hafa verið ótrúlega værukærir að þessu leyti, bæði gagnvart skuggalegu fjármálavafstri en þó ekki síður því regluverki, sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig á alþjóðavettvangi til þess að viðhafa á þessu sviði.

Þessi málaflokkur hefur verið á reiki milli fjögurra ráðuneyta á síðustu árum, en það var ekki fyrr en 2016 sem Íslendingar bættu úr þeim aðfinnslum, sem fram komu í úttekt frá árinu 2006. Í næstu úttekt FATF, sem birt var vorið 2018, var gerð 51 athugasemd við ástandið á Íslandi, en þegar FATF ákvað að setja Ísland á gráa listann stóðu enn þrjú  atriði út af.

Að því sögðu er ýmislegt bogið við aðferðafræði FATF. Kínverjar sem fara með formennsku í FATF fá til að mynda falleinkunn á fleiri sviðum en Íslendingar, án þess að fara á listann. Mörg af frægustu skattaskjólum heims á borð við Cayman-eyjar er þar ekki heldur að finna. Að tikka í box er ekki það sama og koma í veg fyrir glæpi. 

Samkvæmt FATF er lagaumhverfi og regluverk óaðfinnanlegt á Norðurlöndum og helstu ríkjum Vestur-Evrópu. Samt hefur seint og um síðir komist upp um stórfengleg peningaþvættismál hjá Danske Bank, Swedbank og Nordea, Deutsche Bank í Þýskalandi, ING í Hollandi, BNP Paribas og Société Générale í Frakklandi. Að ógleymdu umfangsmiklu peningaþvætti Rússa á fasteignamarkaði í Lundúnum. Eða endalausum straumi fjármagns frá Bandaríkjunum til írskra hryðjuverkahópa og „góðgerðasamtaka“ í ýmsum löndum til hryðjuverkasamtaka í Miðausturlöndum. Samt þykir FATF þar allt í stakasta lagi.

Þrjú atriði stóðu út af hjá Íslendingum að mati FATF, sem öll hafa þegar verið uppfyllt eða verið er að innleiða, en FATF telur sig ekki hafa haft tíma til að fara yfir: Skortur á upplýsingum um raunverulega eigendur fyrirtækja, en ríkisskattstjóri ætlar að vera búinn að koma upp slíkri skrá fyrir áramót. Hætta á peningaþvætti í gegnum almannaheillafélög, en lög um skráningarskyldu slíkra félaga var samþykkt áður en ákvörðun FATF lá fyrir. Þá snýr síðasta atriðið að miðlægum gagnagrunni yfir tilkynningar um peningaþvætti — sem verið er að koma upp hjá ríkislögreglustjóra — og starfsmannafjölda á skrifstofu lögreglunnar er snýr að peningaþvætti — sem hefur verið fjölgað. Ísland endar því á listanum þó að það hafi gert allt það sem FATF biður um.

Af hálfu FATF hafa ekki verið gerðar neinar athugasemdir við atriði sem snúa að íslensku fjármálakerfi, heldur aðeins það sem varðar opinbera tilsjón og skriffinnsku.

Ákvörðun um að setja Ísland á listann virðist vera alfarið pólítísk ákvörðun, sennilega öðrum til viðvörunar. Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að það hefðu verið Bandaríkin og Bretland, sem beittu sér fyrir að setja Ísland á gráa listann, en Morgunblaðið hefur upplýst að þar hafi David Lewis, framkvæmdastjóri FATF, leikið lykilhlutverk. Hann er einmitt sá sem beitti sér helst fyrir því í breska stjórnkerfinu á sínum tíma, að Ísland yrði sett á hryðjuverkalistann alræmda fyrir rúmum áratug. Bretar hafa enn ekki beðist afsökunar á þeirri meingerð.

Að undanförnu hafa breskir ráðamenn margítrekað vilja sinn til þess að treysta og efla góð samskipti við Íslendinga. Undir það hefur vel verið tekið, enda báðum þjóðum kappsmál að Brexit valdi engum hnökrum í sambandi þeirra.

Ekki síður hafa Bandaríkjamenn lagt lykkju á leið sína til þess að auka á ný tengslin með tíðum heimsóknum og fögrum yfirlýsingum æðstu ráðamanna. Því hefur einnig verið vel tekið af íslenskum stjórnvöldum, eins og rétt er.

En það vekur alvarlegar spurningar um einlægnina þar að baki, þegar sömu stjórnvöld standa fyrir óvinveittum aðgerðum eins og þessu gráa gamni á vettvangi FATF. Utanríkisráðherra þarf að gera þessum ætluðu bandamönnum okkar ljóst að slíkum vinum geti Íslendingar ekki treyst.

Stikkorð: FATF grái listinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.