Á óvissutímum á borð við þá sem nú leiða af kórónuveirufaraldrinum er að mörgu að huga og þar á meðal mun reyna verulega á stjórnir félaga, og aðra forsvarsmenn þeirra. Í mörgum tilvikum hefur tekjuflæði félaga dregist verulega saman eða jafnvel stöðvast. Á sama tíma hvíla ýmsar skuldbindingar á félögum sem kann að vera erfitt að mæta við þessar aðstæður, ekki síst ef staða félaganna var ótraust fyrir. Með aðgerðum stjórnvalda hafa þó verið skapaðar aðstæður til að létta undir með félögum vegna þeirra efnahagslegu áskorana sem leiða af kórónuveirufaraldrinum.

Sem fyrr verða þau sem eru í forsvari félaga að huga vel að stöðu þeirra. Hér er sjónum einkum beint að stjórnum félaga, en eftirlit með fjármunum og bókhaldi félags er ein af mikilvægustu skyldum sem hvíla á þeim. Eitt þeirra mikilvægu atriða sem stjórnir þurfa að vera vakandi fyrir er hvort félagið sé greiðslufært. Sé félag ógreiðslufært er stjórn skylt að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta. Verði stjórn ekki við þeirri skyldu getur stjórn skapað sér skaðabótaskyldu eða jafnvel refsiábyrgð.

Ógreiðslufærni er sú staða ef (1) skuldari getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og (2) ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.

Til að meta fyrra skilyrðið þarf að skoða hvaða fjármuna félagið geti aflað í fyrirsjáanlegri framtíð til að standa við þær kröfur sem falla á félagið á sama tíma.

Félög eiga nokkra möguleika til að verða sér úti um fé til að efna skuldbindingar sínar s.s. með því að afla tekna, afla því nýs hlutafjár eða lánsfjár, t.d. með útgáfu skuldabréfa, eða selja eignir. Skuldabréf geta verið með eða án breytiréttar en breytiréttur felst almennt í heimild lánveitanda til að breyta kröfu sinni í hlutafé í lántaka. Við mat á greiðslufærni félags er einungis unnt að taka mið af þeim fjármunum sem skila sér „í kassann“, þ.e. hreinum tekjum, og upphæð lánsfjárhæðar sem fæst greidd út, þ.e. að frádregnum lántökukostnaði. Eigi félag kost á að ganga á eignir sínar til að standa í skilum með greiðslu skuldbindinga þarf við mat á greiðslufærni að ganga úr skugga um að mögulegt sé að koma slíkum eignum í verð þegar kröfur félagsins falla í gjalddaga (eða innan skamms tíma þaðan í frá).

Á sama tíma þurfa forsvarsmenn félags að kortleggja allar þær kröfur sem fyrirséð er að munu beinast að félaginu og upphæð þeirra þegar þær falla í gjalddaga. Hafi gjaldfelling átt sér stað þarf vitanlega að taka mið af þeirri stöðu. Einnig þarf að gera ráð fyrir því ef gjaldfelling leiðir af sér frekari gjaldfellingu, t.d. með svokölluðum „ cross default “ samningsákvæðum sem kveða á um að ef einn samningur gjaldfellur, gjaldfalli aðrir samningar. Hafi félag hins vegar fengið greiðslufrest getur félagsstjórn tekið tillit til þess og á sama hátt getur félag tekið tillit til loforðs um að breyta skammtímaskuldbindingum í langtímalán, enda dreifist greiðslubyrðin þá yfir lengra tímabil. Það er því ljóst að aðgerðir stjórnvalda og annarra aðila koma til með að nýtast félögum við mat á greiðslufærni enda snúa þær meðal annars að slíkum greiðslufrestum .

Seinna skilyrðið er að ekki verði talið sennilegt að greiðsluörðugleikar félagsins muni líða hjá innan skamms tíma. Hérlendis hefur verið talið að í skilyrðinu felist svigrúm til að taka mið af mismunandi staðháttum og aðstæðum, t.d. venjulegum og tímabundnum sveiflum í vissum atvinnugreinum. Hins vegar hefur verið talið að ekki megi teygja þennan mælikvarða fram úr bókstaflegri merkingu orðanna „innan skamms tíma.“ Almennt er að hámarki hægt að líta nokkra mánuði fram í tímann. Af þessu má ætla að dómstólar komi til með að veita stjórnum félaga svigrúm við mat á því hvort um sé að ræða tímabundna lægð í rekstri félagsins við þær aðstæður sem skapast hafa vegna kórónuveirufaraldursins. Hins vegar yrði alltaf tekið til skoðunar hvers konar rekstur væri um að ræða, hvernig faraldurinn komi við rekstur þess og staða þess að öðru leyti, svo sem hver staða félagsins var fyrir faraldurinn. Mestu máli skiptir að meta það hversu líklegt það sé að félagið komist á rétt ról aftur.

Sjái stjórn félags vart í land skiptir mestu að grípa tímanlega til þeirra úrræða sem í boði eru, í þeirri viðleitni að rétta af fjárhaginn, enda hefur það sýnt sig að þrátt fyrir að félag eigi í verulegum rekstrarerfiðleikum getur áframhaldandi rekstur félagsins verið arðbær og verðmætur. Fyrir utan þær leiðir sem nú er sérstaklega boðið upp á vegna kórónuveirufaraldursins og þeirra leiða sem áður voru nefndar ( greiðslufrestir , skuldbreytingar) getur félag átt þess kost að fara í greiðslustöðvun ef það er enn ekki orðið ógreiðslufært. Þá getur félagið líka leitað nauðasamninga en það er ein af áhrifaríkustu leiðunum til að koma í veg fyrir gjaldþrot.

Mestu skiptir að stjórnir félaga átti sig á mikilvægi þess að fylgjast vel með fjárhag félaga, enda er ljóst að það gagnast ekki stjórnarmeðlimum að bera fyrir sig ókunnugleika í þeim efnum komi til þess að þeim sé stefnt til greiðslu skaðabóta eða jafnvel refsiábyrgðar. Þá getur verið skammt stórra högga á milli og því mikilvægt að grípa á réttum tíma til þeirra úrræða sem í boði eru áður en skyldan til að gefa félag upp til gjaldþrotaskipta vaknar, í viðleitninni við að halda rekstri félagsins áfram.

Höfundur er lögmaður á Landslögum lögfræðistofu.