*

laugardagur, 12. júní 2021
Huginn og muninn
11. júní 2021 07:05

„Gríma Sjálfstæðisflokksins fallin“

Sjálfstæðimaðurinn Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Circle Air, vandar flokknum sínum ekki kveðjurnar.

Þorvaldur Lúðvík telur Sjálfstæðisflokkinn einblína of mikið á hagsmuni suðvesturhornsins.
Haraldur Guðjónsson

Þorvaldur Lúðvík, fyrrverandi stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna, ritað í vikunni grein sem birtist á vefnum akureyri.net og ber yfirskriftina „Gríma Sjálfstæðisflokksins fallin“.

Í greininni gagnrýnir hann sérstaklega þrjá ráðherra flokksins eða þau Bjarna Benediktsson, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur fyrir að einblína á suðvesturhornið. Á meðan flugvellir á Akureyri og Egilsstöðum séu fjársveltir hafi nýlega verið ákveðið að veita 20 milljarða króna í nýja viðbyggingu við Leifsstöð. Bendir Þorvaldur Lúðvík á að nýverið hafi svokallaðar Vörður í íslenskri ferðaþjónustu verið kynntar en það séu Þingvellir, Gullfoss, Geysir og Jökulsárlón á meðan ekkert sé minnst á Dynjanda, Snæfellsjökul, Mývatn eða Dettifoss. Loks hafi verið tekin ákvörðun um tafarlausa viðbyggingu á flugskýli Gæslunnar í Vatnsmýrinni, sem þýði að allar björgunarþyrlur verði á sama blettinum.

„Sé það vilji forystu Sjálfstæðisflokksins að sækja einungis fylgi sitt til kjósenda á höfuðborgarsvæðinu, þá er hreinlegra að segja það berum orðum. Landlausir sjálfstæðismenn utan þess svæðis neyðast þá til að greiða öðrum flokki sem hefur alvöru byggðastefnu að leiðarljósi atkvæði sitt, skila auðu á kjörstað eða finna sér annan farveg,“ skrifar Þorvaldur Lúðvík.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.