*

mánudagur, 17. júní 2019
Leiðari
28. september 2017 12:40

Grjóthart regluverk

Virða þarf ákvarðanir Hafrannsóknastofnunar þegar kemur að laxeldi líkt og við úthlutun á kvóta.

Haraldur Guðjónsson

„Eining lýðræðislegrar þjóðar byggir á samstöðu, sjálfsákvörðunarrétti og því að ákvarðanir séu teknar eins nærri þeim sem þær varða og frekast er kostur. Ef þeir sem vilja hafa vit fyrir okkur ætla einfaldlega að ákveða þetta fyrir okkar hönd, hafa af okkur sjálfs- ákvörðunarréttinn með yfirgangi, þá erum við ekki lengur þjóð. Sama hver niðurstaðan er. Þá er samkomulagið – um að við gætum hagsmuna hvert annars, við séum saman í þessum báti – einfaldlega brostið.“

Svo mælti rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl á fjölmennum borgarafundi, sem haldinn var á Ísafirði um síðustu helgi. Eiríkur sagði einnig: „… stundum er einsog hér rekist stöðugt á tvær ólíkar þjóðir – Vestfirðingar og þeir sem vilja hafa vit fyrir þeim“.

Þessi orð skáldsins endurspegla því miður viðhorf alltof margra Vestfirðinga – og ekki aðeins Vestfirðinga heldur endurspegla þessi orð þankagang fjölda fólks af landsbyggðinni og úr borginni. Það er slæmt þegar fólk skipar sér í lið eftir búsetu. Þá verður samræðan einræða. Litróf umræðunnar gránar og orðræðan verður svarthvít – við á móti ykkur. Þið fenguð álver en við ekki, þið fenguð jarðgöng en við keyrum á holóttum vegum, við viljum Reykjavíkurflugvöll burt en þið viljið hafa hann í Vatnsmýrinni, við viljum laxeldi en þið viljið ekki leyfa okkur að ala lax í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi.

„Laxeldi hefur, þar sem hirðuleysi réði för, farið allharkalega af hjörunum,“ sagði Eiríkur í ræðu sinni. „Og það viljum við ekki – það vill enginn skíta í deigið. Ef við ætlum að stunda hér sjókvíaeldi þurfum við að geta treyst því að regluverkið sé grjóthart. Búskap þarf alltaf að stunda af virðingu við náttúruna – það er ekki valkvætt.“

Nú er það svo að það er einmitt þetta grjótharða regluverk sem fjöldi Vestfirðinga gagnrýnir. Samkvæmt nýrri skýrslu um stefnumótun í fiskeldi verða leyfisveitingar til sjókvíaeldis ákvarðaðar eftir áhættumati Hafrannsóknarstofunar. Samkvæmt því mati verður laxeldi ekki heimilað í Ísafjarðardjúpi og byggir sú ákvörðun á vísindalegum rökum. Náttúran á að njóta vafans.

Það þarf að fara varlega í uppbyggingu á laxeldi hérlendis. Sérstaklega eldi á frjóum laxi því eins og Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í júlí þá „sleppur alltaf fiskur úr sjókvíaeldi.“

Í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 í lok ágúst sagði Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, að jafnvel þó búið væri að afmarka laxeldi við ákveðna firði þá væru allir laxastofnar á Íslandi undir. Í skýrslunni „Erfðablöndun eldislaxa af norskum uppruna við íslenska laxastofna“, kemur fram að erfðablöndun hafi þegar átt sér stað í ám á Vestfjörðum. Sporin hræða.

Það er því ekki svo að obbi Vestfirðinga standi einn á móti öllum. Það skilja allir að þeir vilji auka atvinnumöguleikana í sinni sveit en því miður vilja þeir gera það á kostnað náttúrunnar og fjölmargra landeigenda íslenskra laxveiðiáa en talið er að stangaveiði velti á bilinu 15 til 20 milljörðum króna á ári.

Boðað hefur verið til kosninga 28. október og sátu fulltrúar stjórnmálaflokkanna borgarafundinn á Ísafirði, sem fjallaði um framtíð Vestfjarða. Nú sem aldrei fyrr er brýnt að politíkusar þessa lands standi í lappirnar, haldi í sín prinsipp í stað þess að selja skoðanir sínar hæstbjóðanda og sveiflast eftir fylgi skoðanakannana. Alveg eins og ákvarðanir Hafrannsóknastofnunar eru virtar þegar kemur að úthlutun á kvóta þá á að virða ákvarðanir hennar þegar kemur að laxeldi. Regluverkið þarf að vera grjóthart.

Hafið er ekki í einkaeigu þeirra sem við það búa. Firðir landsins eru auðlind í eigu allrar þjóðarinnar. Á sama hátt er náttúran ekki okkar einkamál heldur miklu fekar komandi kynslóða. Við megum ekki tefla henni í tvísýnu á örskotsstund fyrir nokkur störf í laxeldi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is