Á undanförnum mánuðum hefur enginn stjórnmálamaður sætt jafn mikilli gagnrýni í þessum dálkum og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, enda verksvið hans sérstakt áhugaefni lesenda og skrifenda Viðskiptablaðsins.

Til að gæta sanngirni verður einnig að minnast þess að Bjarni hefur um margt staðið sig vel á erfiðum tímum. Þar ber að minnast endurreisnarinnar eftir bankahrun og afnáms gjaldeyrishafta, lengsta hagvaxtarskeiðs Íslandssögunnar, mun betri regla er komin á ríkisfjármálin, stöðugleiks í efnahagslífi, um margt skynsamlegra viðbragða við heimsfaraldrinum og einstæðrar kaupmáttaraukningar, sem allir launahópar hafa notið. Þetta er ekki ónýt ferilskrá.

***

Gagnrýni Óðins á Bjarna

Á hinn bóginn verður einnig að rifja upp gagnrýnisatriðin líka, lesandanum til upprifjunar, en þau má lesa í eldri skrifum Óðins:

Frá því að Bjarni tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum í miðju bankahruni hefur miðgildi kosningafylgis Sjálfstæðisflokksins verið um 25% en var um 37% áratugina fyrir hrun. Fátt bendir til þess að hann nái að rífa það upp fyrir 30%. Þrátt fyrir að hafa alla tíð verið stærsti flokkurinn á þingi frá 2013 hefur Bjarni aðeins verið forsætisráðherra í rúma 10 mánuði af þessum tæpu 10 árum.

Persónulegar árásir andstæðinga flokksins á Bjarna — ósanngjarnar sem þær flestar hafa verið — hafa límst við hann og flokkinn. Flokkurinn hafði reist sig upp í 40% í skoðanakönnunum 2012, en óskiljanlegur snúningur Bjarna í lok Icesave-málsins sökkti fylginu varanlega niður í 25%. Bjarni er lélegur mannþekkjari og heldur þétt að sér þröngum hópi ótrúlega lánlausra ráðgjafa sama hvað þeir koma honum oft í koll að ógleymdum ráðuneytisstjóranum gíruga.

Loks ber að nefna megingagnrýni Óðins á Bjarna, en það er að í fjármálaráðherratíð hans hefur hið opinbera þanist gríðarlega út, engin bönd virðast á ríkisútgjöldum, starfsmannafjölgun hins ríkisins er stjórnlaus, í nýjustu fjárlögum er Covid-kostnaðurinn orðinn fasti þó enginn sé faraldurinn, en Sjálfstæðisflokknum virðist ár eftir ár ómögulegt að uppfylla eina kosningaloforðið sem alltaf er gefið: Lækkum skatta.

***

Margt má laga

Nú má segja að sumt af þessu sé sögulegt, sem lítið gagni um að fást; nýr veruleiki í stjórnmálum eftirhrunsins kann að gera verulega fylgisaukningu ómögulega án samruna flokka eða gerbreytts kjördæmakerfis; myndun lífvænlegrar stjórnar án Katrínar Jakobsdóttur í forsætisráðuneyti kann að hafa verið ógerleg (og embætti fjármálaráðherra aldrei valdameira), en þar þurfti einnig að gefa margt eftir og sennilega erfitt eða útilokað að halda ríkisútgjöldum niðri í ríkisstjórn með ríkisvæðingarsósíalista á aðra hönd og framsóknarmenn á hina, sem virðast hafa fullkomnað þá list að vinna kosningar með því að múta kjósendum með þeirra eigin peningum - að frádregnu umsýslugjaldi.

En annað er vel á valdi Bjarna. Hann getur hæglega sinnt flokknum betur, þó eflaust sé það lýjandi og stundum leiðinlegt. En það er það sem í formannsembættinu felst og þær skyldur þarf hann að rækja. Það kann að krefjast aukinnar skipulagningar á tíma hans, fleiri og betri ráðgjafa, en það er nú það sem allir ráðherrar þurfa að gæta sín á, að ráðuneytið gleypi þá ekki. Á þeim vettvangi hefur hann einnig ótal tæki til þess að skerpa á ríkisrekstrinum, halda mönnum við efnið í verkefnavali, mannahaldi og löghlýðni við fjárheimildir fjárlaga. Hann þarf að nota þau tæki, hætta að hugsa í ónýttum tekjustofnum og já, lækka skatta.

En það er ekki framboðið sjálft sem kemur á óvart, heldur ástæður þess. Þær eru allnokkrar en standast misvel og stangast jafnvel á.

***

Gagnrýni Guðlaugs Þórs

Eins og einherjar Viðskiptablaðsins, hinir dyggu lesendur Óðins, þekkja vel, hefur verið á öllu þessu tæpt hér áður, margsinnis sumu. Sú gagnrýni hefur fundið hljómgrunn víðar, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins.

Það á því ekki að koma á óvart, að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem nú freistar þess að steypa flokksformann sinn úr stóli, hefur um margt sett fram afar svipaða gagnrýni á Bjarna. Af því að hún er ekki röng.

Af því leiðir hins vegar ekki endilega að Gulli sé rétta svarið.

***

Ábyrgð samherjanna

Margt í þessari gagnrýni hittir nefnilega Guðlaug Þór sjálfan fyrir. Sumt með beinum hætti og annað með óbeinum. Fyrrgreind gagnrýni stafar ekki bara af eigin verkum Bjarna heldur líka samverkamanna hans. Hann fær hins vegar bróðurpartinn af gagnrýninni af því að hann er jú formaður flokksins og fjármálaráðherra og ætti því að vera öryggisventilinn í samstarfi við vinstri flokkana tvo, Vinstri græna af öfund og Framsóknarafturhaldið. En líka vegna þess að Bjarni er fremstur meðal jafningja, andlit flokksins og oddviti í ríkisstjórn. En hann á það ekki einn.

Það er til að mynda vonandi enginn svo bláeygur að halda að fjármálaráðherrann ráði einn fjárlögunum og sé einn ábyrgur fyrir fráleitum vexti ríkisútgjalda og háum sköttum á Íslandi, en aðeins í Svíþjóð rennur meira af landsframleiðslunni til hins opinbera. Aðrir ráðherrar eru einnig ábyrgir — að ekki sé sagt samsekir — og óbreyttir þingmenn flokksins einnig, því ríkisstjórnin starfar í skjóli og krafti þeirra, það eru þeir sem samþykkja að lokum fjárlögin, heimild framkvæmdavaldsins til útgjalda.

Óðinn hefur ekki tekið eftir minnstu gagnrýni á fjármál ríkisins frá öðrum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, nema auðvitað þeirri að þeir vilja allir meiri pening. Enginn þeirra hefur haldið því fram opinberlega að ríkisstjórnin sé á rangri leið.

Aðeins einn þingmaður ræðir reglulega um að við séum á rangri leið í skattheimtunni og ríkisfjármálunum. Það er Óli Björn Kárason.

***

Framboð og forsendur Guðlaugs Þórs

Guðlaugur Þór tilkynnti formannsframboð í Sjálfstæðisflokknum um liðna helgi. Framboðið kom flestum í opna skjöldu, nema auðvitað Guðlaugi Þór og hans mönnum, sem hafa undirbúið það um nokkurt skeið. Meðal annars, að því er Óðinn hefur heyrt, með því að fikta í fulltrúalistunum fyrir landsfundinn um helgina, sem er heldur til veisluspjalla í lýðræðisveislunni miklu.

En það er ekki framboðið sjálft sem kemur á óvart, heldur ástæður þess. Þær eru allnokkrar en standast misvel og stangast jafnvel á.

***

Fylgisrýrnun

Fyrst kom Guðlaugur Þór fram með þá ástæðu að fylgið væri lélegt og hann gæti fiskað betur. En það þarf ekki að skoða staðreyndir málsins lengi til þess að sjá að það er rangt, eins og bent var á vef Viðskiptablaðsins í síðustu viku.

Árið 2007 var fylgið í Reykjavík norður 36,4% og 39,2% % í Reykjavík suður. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í síðustu kosningum var 20,2% í Reykjavík norður, kjördæmi Guðlaugs Þórs, og 22,8% í Reykjavík suður. Fylgið í Reykjavík var því 43% lægra í kosningunum 2021 en það var árið 2007. Í Kraganum, kjördæmi Bjarna Benediktssonar, var fylgið 42,6% árið 2007 en 30,2% árið 2021. Fylgið er því 29% lakara nú.

Það er því holur hljómur í fullyrðingum Guðlaugs Þórs um að hann geti aflað flokknum meira fylgi. Það bendir ekkert til þess. Nema auðvitað hann hafi verið að spara kraftana allan þennan tíma.

Að mati Óðins er peningum hvergi eins illa varið í ríkiskerfinu eins og í utanríkisþjónustunni eftir að faxtækið var fundið upp.

***

Stærstur eða langstærstur

Nú játaði Guðlaugur Þór reyndar að Sjálfstæðisflokkurinn væri enn stærstur og fylgismestur stjórnmálaflokka á landinu. En hann er metnaðarfullur maður og sagði að það væri alls ekki nóg að Sjálfstæðisflokkurinn væri stærstur, hann ætti að vera langstærstur. Við þessu á Bjarni augljóslega aðeins eitt svar, en algert rothögg: Að hann sætti sig ekki við að flokkurinn sé stærstur eða langstærstur, hann verði að vera langlangstærstur, jafnvel langlanglangstærstur.

***

Lægri skattar og minni ríkisútgjöld

Guðlaugur Þór ræddi það sérstaklega, þegar hann tilkynnti framboð sitt á sunnudag, að skattar væru of háir og ríkisútgjöld sömuleiðis. Þetta hefur hann einnig gert í viðtölum í vikunni. Allt rétt.

Það er ekkert nýtt hjá honum. Guðlaugi Þór til hróss þá lét hann Jóhönnu-stjórnina oft heyra það og barðist þá af alefli gegn hærri sköttum og ríkisútgjöldum. Var raunar með allra duglegustu stjórnarandstöðuþingmönnum í ræðustól, dró hvergi af sér svo undan sveið. Það kom engum á óvart sem fylgst hefur með ferli Guðlaugs Þórs. Þegar hann var að feta fyrstu sporin á stjórnmálabrautinni, í borgarstjórn 1998–2006, sást vel hvers hann var megnugur í minnihluta. Það var frekar að honum væru mislagðar hendur í meirihluta eins og REI-málið var ógæfulegt dæmi um. Eftir sem áður var honum tíðrætt um ráðdeild í opinberum rekstri og hófsemi í skattheimtu.

En frá því hann settist í ríkisstjórn man Óðinn ekki til þess að Guðlaugur Þór hafi minnst á þetta mikilvægasta stefnumál Sjálfstæðisflokksins. Fyrr en á sunnudag.

***

Orð og borð

Sanngjarnara er þó að skoða efndirnar en orðin. Guðlaugur Þór gegndi embætti utanríkisráðherra frá 11. janúar 2017 til 28. nóvember 2021 og rétt að líta á hvernig hann fór með fjármuni skattgreiðenda þar.

Útgjöld utanríkisráðuneytisins vegna árið 2017 voru ekki á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar og Guðlaugs Þórs en það voru hins vegar fjárlögin 2022. Útgjöld til utanríkisþjónustu og stjórnsýslu utanríkismála, sem er sérstakur liður í ríkisreikningi en þar fellur undir rekstur utanríkisráðuneytisins og sendiráða, jukust úr 4.942 m.kr. árið 2017 í 6.599 m.kr. árið 2022. Útgjaldaaukningin nemur 34%, eða 16% á föstu verðlagi.

Að mati Óðins er peningum hvergi eins illa varið í ríkiskerfinu eins og í utanríkisþjónustunni eftir að faxtækið var fundið upp. Óðinn hefur ekkert á móti því að menn drekki brennivín erlendis en finnst menn eigi að gera það á eigin kostnað, ekki skattgreiðenda í veislusölum sendiráða og sendiherrabústaða.

Það stenst því enga skoðun að Guðlaugur Þór sé á einhvern hátt betri talsmaður skattgreiðenda en Bjarni Benediktsson. Ríkisreikningurinn lýgur ekki um það.

Úr því Franklin Delano Roosevelt gat klárað eina heimsstyrjöld á hækjum þá getum við klárað einn landsfund.

***

Athyglisverð ræða

Formaður Sjálfstæðisflokksins þarf að hafa myndugleik til að bera, þekkingu til þess að ræða hvaðeina um landsins gagn og nauðsynjar, vera fljótur að hugsa og hafa mælsku til þess að ná til fólks og þagga niður í andstæðingum.

Framboðsræða Guðlaugs Þórs á sunnudag var um margt ágæt fyrir þann hóp sem hann vildi ná til, þó hún væri full löng og sundurlaus. Hún bar með sér að vera ekki vel undirbúin og máltilfinning ráðherrans tæplega nógu örugg til þess að hann geti leyft sér að flytja óskrifaðar óyfirlesnar ræður.

Hins vegar hnaut Óðinn um tvær meinlegar staðreyndavillur í ræðunni. Ef menn vilja slá um sig með sagnfræðilegri þekkingu, tilvísunum og innsæi er alltaf betra að menn viti um hvað þeir eru að tala. Þetta var enn neyðarlegra fyrir það að Guðlaugur Þór gegndi embætti utanríkisráðherra í tæp fimm ár og ætti að vita betur en raunin var.

***

Sameinuðu þjóðirnar og þjóðin

Fyrra atriðið snýr að Íslandi og Sameinuðu þjóðunum.

„Þegar Ísland varð sjálfstætt ríki þá vorum minnsta þjóð innan Sameinuðu þjóðanna og þá töluðu menn um að það væri tilraun að svo lítið þjóð væri til.“

Ísland varð sjálfstætt ríki 1. desember 1918. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar 24. október árið 1945, 27 árum seinna, en Ísland gekk raunar ekki í þær fyrr en 19. nóvember 1946. Ef Guðlaugur Þór meinti ekki það sem hann sagði, heldur átti við það þegar Ísland varð lýðveldi 17. júní 1944, þá gerðist það samt sextán mánuðum áður en Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar og tveimur og hálfu ári áður en Ísland gekk í þær. Þetta voru engin mismæli heldur meinloka, því hann endurtók þessa rangfærslu í viðtali við Vísi á þriðjudag.

***

Roosevelt og Guðlaugur Þór

Ekki batnaði það þegar Guðlaugur Þór bar sig saman við einn þekkasta Bandaríkjaforseta sögunnar:

„Þegar þið sjáið mig skakklappast hér upp. Og ég bara segi bara eitt við ykkur. Úr því Franklin Delano Roosevelt gat klárað eina heimsstyrjöld á hækjum þá getum við klárað einn landsfund.“

Roosevelt lést þann 12. apríl árið 1945, en seinni heimsstyrjöldinni lauk 2. september sama ár með formlegri uppgjöf Japana. Þjóðverjar gáfust hins vegar upp 8. maí, þremur vikum eftir andlát Roosevelt, svo honum auðnaðist nú ekki að klára heimsstyrjöldina, blessuðum.

Hann var ekki heldur á hækjum. Roosevelt fékk mænusótt árið 1921, lamaðist fyrir neðan brjóst og þurfti brátt að notast við hjólastól þá rúmu tvo áratugi sem hann lifði. Nema þegar setti á sig járnspelkur til þess að geta staðið uppréttur á almannafæri. Á þeim tíma reyndi forsetinn að halda fötlun sinni leyndri gagnvart almenningi en það er langt síðan fötlun hans varð almenn vitneskja, þó hún hafi farið fram hjá Guðlaugi Þór.

Hitt er þó kannski merkilegra að hann hafi viljað bera sig saman við Roosevelt, sem Demókratar hafa í dýrðlingatölu fyrir stóraukin ríkisumsvif og dólga-Keynesisma, sem framlengdi Kreppuna miklu um mörg ár, líkt og Milton Friedman hlaut Nóbels-verðlaun fyrir rannsóknir á. Það er hins vegar fátíðara að hægri menn leggi nafn hans við hégóma.

Guðlaugur Þór brást hinn versti við fréttinni og sagði það „allsendis ósatt“ að hann hafi gert kröfu um að verða fjármálaráðherra í skiptum fyrir að hætta við framboðið.

***

Verri villur og kórvillur

Þetta skiptir auðvitað litlu máli, kjánalegt sem það er, þó almennt hljóti það að vera heppilegra að formenn stjórnmálaflokka fari ekki með slíkar fleipur. En svo er annað, sem kemur illa heim og saman, og er öllu alvarlegra.

Innherji, viðskiptakálfur vefmiðilsins Vísis, sagði frétt af því á mánudag að Guðlaugur Þór hafi verið reiðubúinn að falla frá framboðsáformum sínum gegn því að Bjarni Benediktsson, núverandi formaður flokksins, myndi eftirláta honum fjármálaráðherrastólinn. Hann hafi gert þá kröfu á fundum, sem þeir hafi átt síðasta fimmtudag og föstudag, þar sem rætt var um hvort slíðra mætti sverðin fyrir landsfund.

Guðlaugur Þór brást hinn versti við fréttinni og sagði það „allsendis ósatt“ að hann hafi gert kröfu um að verða fjármálaráðherra í skiptum fyrir að hætta við framboðið. Bjarni staðfesti að þeir hefðu hist en vildi ekki greina frá því hvað þeim fór nákvæmlega á milli, en sagði þó að Guðlaugur Þór hafi velt því fyrir sér hvort gera mætti „breytingar í innra starfi flokksins og eftir atvikum með verkaskiptingu milli fólks“. Guðlaugur hefur ekki mótmælt því.

Það verður hver að meta það fyrir sig hvað í þessu felst, hver sagði ósatt, Innherji eða Guðlaugur Þór.

***

Satt og ósatt

Óðinn hefur hins vegar heyrt að á mannamáli þýði þessi óljósu orð að Guðlaugur Þór hafi lagt til að Bjarni sæti áfram sem formaður fram að næsta landsfundi en færði sig yfir í utanríkisráðuneytið og reyndi að bæta forgjöfina í golfi. Guðlaugur Þór yrði hins vegar fjármálaráðherra og varaformaður, gagngert til þess að sinna innra starfi flokksins, en jafnframt fengi hann yfirráð yfir Valhöll, hreinsaði þar út og kæmi eigin lykilfólki þar fyrir, enda félli það undir innra starfið. Leiðin í formannsstólinn væri þá greið fyrir Guðlaug 2024, einmitt í tæka tíð fyrir kosningar 2025.

Þetta var ákaflega snyrtileg flétta ef marka má frásögnina. En jafnskiljanlegt að Bjarni hafi ekki getað gengið að þessum afarkostum, því hann hefði engan ávinning séð af þessu fyrir sig eða flokkinn. Og það er jafnskiljanlegt hvað Guðlaugur Þór brást ókvæða við fréttinni, því hún gróf undan öllu því sem hann hafði annað og áður sagt um tildrög framboðs síns og hina sögulegu nauðsyn þess fyrir flokkinn að Bjarni viki úr formannsstóli þegar í stað.

Þau hvössu viðbrögð Guðlaugs kunna að vera skiljanleg í því ljósi, en þau draga dilk á eftir sér. Þegar hann sakaði Innherja um að segja ósatt, flytja Fake News eins og annar alþýðuleiðtogi hefði orðað það, en andæfði þó ekki orðum Bjarna um tillögu sína um innra starf og verkaskiptingu, þá vakti Guðlaugur Þór að óþörfu spurningar um eigin sannsögli. Það eru fráleit mistök, nokkrum dögum fyrir formannskjör, að gera það að helsta álitaefni kosningabaráttunnar hvort hann sé ósannindamaður eða ekki og verra svarið líklegra en hitt.

***

Stjórnarsamstarf í uppnámi

Hugsanlega er það þó annað sem kann að reynast þyngra á metum í formannskjörinu, en það eru afleiðingar þess á ríkisstjórnarsamstarfið, sem mikið mæðir á vegna ótryggs heimsástands og verðbólgudraugs, skuldaklafa og kjaraviðræðna. Það er nú þegar orðið losaralegra vegna óvæntrar óvissu um forystu Sjálfstæðisflokksins snemma í upphafi kjörtímabils.

Mikið hefur verið rætt um hvort Guðrún Hafsteinsdóttir verði ráðherra næsta sumar eins og Bjarni Benediktsson hefur margítrekað, en Guðlaugur Þór nefndi að umræða um þann ráðherrakapal hafi ýtt við sér um að fara í formannsframboð, þó það komi reyndar líka illa heim og saman við aðrar uppgefnar ástæður.

Ef Guðlaugur Þór verður formaður Sjálfstæðisflokksins er öruggt að Guðrún verður ekki ráðherra. Þórdís Kolbrún og Áslaug Arna verða ekki heldur áfram ráðherrar. Ekki af því að Guðlaugi sé sérstaklega í nöp við þær (þó ekki sé það útilokað!), heldur af því að þá verður Guðlaugur Þór ekki lengur ráðherra.

Allir þeir sem eitthvað þekkja til stjórnarsamstarfsins vita að það hvílir á forystumönnum stjórnarinnar persónulegu trúnaðartrausti þeirra á milli. Verði Guðlaugur Þór formaður Sjálfstæðisflokksins mun ríkisstjórnin ekki lifa lengur en það tekur Katrínu Jakobsdóttur að sannfæra Samfylkinguna, Pírata og Viðreisn um að hjálpa sér við að læsa Íhaldið úti í kuldanum.

***

Fjöregg forystumanna

Guðlaugur virðist átta sig á þeirri hættu. Hann fór strax af miklum móði að útskýra í löngu máli af hverju alls engin hætta væri á að upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu myndi slitna með sig við stjórnvöl Sjálfstæðisflokksins, en var eiginlega of mikið niðri fyrir til þess að það væri mjög sannfærandi.

Meginrökin voru þau að stjórnarsamstarfið væri milli flokkanna, ekki forystumanna þeirra, og að menn létu sig forystu annarra flokka engu varða. Þetta er ljóslega út í bláinn. Það voru forystumennirnir sem mynduðu stjórnina og það eru þeir sem þurfa að lappa upp á hana þegar á móti blæs.

Ímyndi sér einhver annar en Guðlaugur Þór að þar séu persónur forystumannanna aukaatriði er sjálfsagt að útskýra þetta í tveimur setningum:

Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki tekið þátt í ríkisstjórnarmyndun undir forsæti Svandísar Svavarsdóttur. Ef Katrín Jakobsdóttir yrði fyrir loftsteini og Guðmundur Ingi Guðbrandsson tæki við formennsku Vinstri grænna myndu Sjálfstæðismenn ekki halda áfram í óbreyttri ríkisstjórn undir forsæti hans; ekki einn dag.

Glundroðinn í Sjálfstæðisflokki Guðlaugs Þórs myndi vafalítið ýta vænum hópi kjósenda í faðm Viðreisnar og varla færri til Framsóknar.

***

Vonarpeningur vinstrimanna

Nú myndi Óðinn ekki gráta það lengi, ein vinstri stjórn er annarri lík.

En þá gæti staða Sjálfstæðisflokksins orðið ákaflega veik. Flokkurinn væri mjög lemstraður eftir formannsátökin, mögulega klofinn. Nýi formaðurinn í miklum minnihluta í eigin þingflokki, með stjórnarslit og stjórnarandstöðu í syndaregistrinu og réttnefndur guðfaðir 5 flokka vinstristjórnar.

Ástandið væri litlu skárra ef forsætisráðherra ryfi þing og boðaði til kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn enn í sárum og ákaflega ósennilegt að nýi formaðurinn næði að treysta stöðu sína innan flokksins fyrir þær kosningar. Þrátt fyrir að hann hefði komið vörgum í vé Valhallar gæti hann ekki beitt sömu bellibrögðum í almennum prófkjörum og við fulltrúaval á landsfund. Líklegt væri að margt öflugasta kosningafólk flokksins myndi sitja heima, en aðallega blasir við að hinn almenni kjósandi myndi ekki verðlauna Sjálfstæðisflokkinn fyrir upplausnina.

***

Hrein vinstristjórn möguleg

Á hinn bóginn gætu Vinstri grænir loks aukið fylgi sitt á vinstri vængnum, þó ekki væri nema fyrir það eitt að hafa hent höfuðóvininum, Sjálfstæðisflokknum, út úr ríkisstjórn. Samfylkingin gæti náð vopnum sínum en flokkurinn virðist undir forystu Kristrúnar Frostadóttur — í fyrsta sinn frá hruni — vera sameinaður og samhentur. Meira segja Össur og Ingibjörg Sólrún eru sammála um Kristrúnu, en þau hafa ekki verið samstiga frá árinu 2005.

Glundroðinn í Sjálfstæðisflokki Guðlaugs Þórs myndi vafalítið ýta vænum hópi kjósenda í faðm Viðreisnar og varla færri til Framsóknar. Hrein vinstristjórn væri því allt í einu möguleg aftur, en sennilega stjórn frá miðju til vinstri, sem hin vinsæla Katrín Jakobsdóttir myndi veita forstöðu.

Þyki hægrimönnum sú sviðsmynd ekki nógu wagnerísk ættu þeir að hugleiða næstu afleiðingar. Sjálfstæðisflokkurinn gæti hæglega farið niður í 20% fylgi og 14 þingmenn, jafnvel enn lægra, þar sem nýi formaðurinn væri í miklum minnihluta og ekki í nokkurri stöðu til þess að taka þátt í stjórnarmyndun. Aðallega af því að enginn myndi taka símann frá honum, nema kannski Flokkur fólksins af vorkunnsemi eða Sósíalistaflokkurinn af skepnuskap. Og það sem verra er, engar sérstakar líkur á því að þeirri eyðimerkurgöngu lyki í bráð. Þvert á móti, því við slíkar aðstæður er líklegt að ærlegt fólk með borgaralegar lífsskoðanir fyndi stjórnmálaskoðunum sínum annan farveg.

***

Vonarneistar og villuljós

Óðinn vill ekki skilja lesandann eftir í þessu svartnætti, því einn vonarneista má finna. Undir þessum kringumstæðum gætu kraftar og hæfileikar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar nefnilega nýst og notið sín. Eins og Óðinn benti á að ofan er Guðlaugur Þór aldrei öflugri en í stjórnarandstöðu og færi vafalaust hamförum í ræðustól Alþingis svo sjö sverð virtust á lofti.

Það mun örugglega gleðja fylgismenn hans. Gallinn við stjórnarandstöðu er hins vegar sá að þó menn plægi og sái sleitulaust, þá þarf að jafnaði að bíða uppskerunnar í fjögur ár – þar til gengið er til kosninga – en jafnvel þá getur orðið uppskerubrestur. Stundum taka þeir engan enda, eins og Sjálfstæðismenn í Reykjavík og oddviti þeirra þekkja alltof vel.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, 3. nóvember 2022.