*

þriðjudagur, 24. nóvember 2020
Týr
16. maí 2016 15:14

Guðni Th. og Icesave

Er það góð byrjun á forsetaframboði að fara í einhvern blekkingarleik?

Haraldur Guðjónsson

Flestir virðast vera sammála um að forseti Íslands þurfi að vera einstaklingur sem geti staðið í lappirnar í erfiðum málum.

***

Tý er Icesave-málið mjög hugleikið. Þar samþykkti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Sigfússonar samning við Breta og Hollendinga sem hefði getað sett ríkissjóð Íslands á hausinn. Þar sem mun betur hefur árað í efnahagslífinu bæði á Íslandi og erlendis en útlit var fyrir árið 2009, þá hefði samningurinn þýtt 208 milljarða tap skattgreiðenda í erlendri mynt.

***

Guðni Th. Jóhannesson forsetaframbjóðandi hefur reglulega verið fenginn á síðustu árum sem álitsgjafi hjá Ríkisútvarpinu og fleiri fjölmiðlum.

***

Í Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudag svaraði Guðni því hvar hann stóð í Icesave og hvort hann hafi verið hlynntur Icesave-samningum: „Ég skal bara svara því hvar ég stóð í Icesave, 1, 2 og 3. Úr því að þetta voru Icesave 1,2 og 3. Um Icesave 1 fengum við kjósendur ekki að ráða neinu. Það voru bara 64 Íslendingar sem fengu að kjósa um Icesave 1.“

***

Hvern er Guðni Th. Jóhannesson að reyna að blekkja? Hvaða almannatengill ráðlagði honum að segja þessa vitleysu. Er það góð byrjun á forsetaframboði að fara í einhver blekkingarleik?

***

Guðni Th. stóð bara alls ekki þarna í Icesave I. Hann var fylgjandi samningnum, sem kenndur hefur verið við Svavar Gestsson, eins og kemur svo skýrt fram í tímaritinu Grapevine sem kom út 19. júní 2009.

***

„Það getur verið að okkur líki Icesave-samningurinn illa, en hinn kosturinn er miklu verri og kannski er þetta það besta sem við, eða einhver annar, gæti fengið. Haldið eða sleppið, það eru skilaboðin sem við fengum. Ég held að hver sá sem gagnrýnir samninganefndina fyrir linkind sé að horfa, viljandi eða óviljandi, framhjá því hversu ótrúlega erfið staða íslenskra stjórnvalda er.“

***

Auðvitað vita allir að sagnfræð­ingurinn Guðni hafði enga stöðu til að samþykkja samninginn. En sem „fræðimaður“ og „álitsgjafi“ gat hann haft töluverð áhrif á nið­urstöðu málsins.

***

Þetta er skammarleg meðferð á sannleikanum hjá Guðna.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.