Hönnun er alls staðar. Í fatnaði okkar, húsunum, eggjabökkunum, klósettpappírnum og ekki síst tækjunum sem við erum með við hendina frá morgni til kvölds. Það er því varla of stórt til orða tekið að segja að hönnun sé alls staðar. Hönnun hefur áhrif á hvernig okkur líður og getur í mörgum tilfellum auðveldað okkur lífið. Allra besta hönnunin er gegnsæ, hún þvælist ekki fyrir, hún virkar, hún endist lengi og hún er umhverfisvæn. Svo mælti Dieter Rams, einn farsælasti hönnuður okkar tíma.

Við gleymum oft að allt sem við gerum hefur í för með sér kostnað, í sumum tilvikum kostnað sem erfitt er að koma auga á. Ég er nokkuð viss um að börnin mín pæla ekki mikið í því hvað internetaðgangurinn kostar í peningnum eða nýtingu auðlinda, hann er orðinn jafn sjálfsagður og rafmagn. Á Íslandi er rafmagn hlutfallslega ódýrt og umhverfisvænt, þó að umhverfisáhrif virkjana séu mikil. Hver ljósmynd sem send er með skilaboðum í Snapchat felur í sér orkunotkun, og erlend netþjónabú eru oftar en ekki keyrð á „skítugri“ orku, bara til að nefna dæmi. Allt sem tengist internetinu notar orku, en samkvæmt nýjust tölum notar UT-geirinn 7% af allri orku sem við framleiðum. Meira að segja einfaldar vefsíður skila koldíoxíði út í andrúmsloftið, sumar hverjar mörgum tugum eða jafnvel hundruðum kílóa. Ein af lykilspurningunum er hvort vefsíður, öpp og aðrar stafrænar þjónustur skilji eftir sig minna kolefnisfótspor heldur en það sem þær koma í staðinn fyrir. Ef ég get til dæmis afgreitt mig sjálfur heima í stofu í stað þess að keyra til sýslumanns á bílnum mínum til að endurnýja ökuskírteinið, er þá sparnaðurinn sem til kemur af internetinu jafnvel meiri en kostnaðurinn?

Fyrirtæki og stofnanir keppast nú við að stafvæða lykilþjónustuferla sína svo viðskiptavinir geti afgreitt sig sjálfir. Með því er oft verið að úthýsa vinnu, sem starfsfólk innan fyrirtækja og stofnanna vann áður, yfir á viðskiptavini og auka þannig skilvirkni fyrirtækja með því auka vinnu í meira virðisskapandi þáttum. Fyrirtæki kappkosta að hámarka notendaupplifun í gegnum stafræna miðla og hanna ferla sem koma í stað mannlegrar þjónustu. Tjáning fyrirtækja er þar í gegnum stafræna hönnun, þ.e. með litum, letri, orðalagi og ósnertanlegum mynstrum og flæði sem skapa samkennd og upplifun notandans á þeim mannlega þætti sem áður var til staðar. Þar kemur til mikilvægi hönnunar.

McKinsey ráðgjafafyrirtækið birti fyrir nokkru rannsókn þar sem afdráttarlaus niðurstaða var að fylgni milli framúrskarandi hönnunar og tekna sé ein sú mesta sem sést hefur í áratugi í rannsóknum á tengsla milli kúltúrbreytinga og fjárhagslegs ávinnings fyrirtækja. Dæmi eru um að tekjuvöxtur tvöfaldist hjá þeim fyrirtækjum sem verða leiðandi í framúrskarandi hönnun. Þetta er eitthvað sem okkur hönnuðum hefur lengi grunað, og nú höfum við  tölur þessu til staðfestingar. Í dag ætti hönnun því að vera hluti af umræðunni á stjórnarfundum alveg eins og tekjur og kostnaður og allt efsta stjórnendalag fyrirtækja þyrfti auknu mæli að vera meðvitað um mikilvægi hönnunar.

Heimurinn er og hefur víst alltaf verið að fara til fjandans, segja sumir :) en enginn getur allt og allir geta eitthvað og við getum vel nýtt okkur kosti hönnunar sem framlags til lausna á umhverfisvandamáli heimsins. Því þó internetið noti gríðarmikla orku þá skapa stafrænir ferlar orkusparnað. Margt smátt gerir eitt stórt og það að stafvæða vel hannaða ferla er frábært fyrsta skref í átt að sjálfbærara samfélagi mannsins.

Höfundur er eigandi og framkvæmdarstjóri Kosmos & Kaos.