*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Bjarni Ólafsson
8. febrúar 2015 12:15

Gullöldin 2004-2007

Allt tal um fasteignabólur er úr lausu lofti gripið. Við eigum langt í land með að ná vitleysunni sem náði sér á strik fyrir hrun.

Haraldur Guðjónsson

Ekki verður um það deilt að fasteignaverð hefur hækkað verulega, en fjölbýli hækkaði að raunvirði um 9,0% í fyrra og sérbýli um 3,7%. Landsbankinn spáir því að fasteignaverð hækki um önnur 9,5% í ár og um 6,5% árið 2016. Það er því ekki að undra að fasteignaverð sé milli tannanna á fólki. Talað er um að ungt fólk hafi aldrei átt jafn erfitt með að koma þaki yfir höfuð sitt og að leiga sé svo há að nánast megi tala um okur.

En hvernig er staðan raunverulega á fasteignamarkaði? Í Viðskiptablaðinu í dag má sjá að fjöldi kaupsamninga í fyrra, meðalfjárhæð samnings og heildarvelta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu í fyrra er nær alveg á pari við meðaltal síðustu 13 ára. Núvirt er staðan í raun mjög svipuð því sem var á árunum 2003- 2004 og við eigum langt í land með að ná vitleysunni sem náði sér á strik á árunum 2005-2007.

Af þessu má ráða að allt tal um fasteignabólur er úr lausu lofti gripið og líklega getur fasteignaverð hækkað enn um sinn án þess að blásið sé í bólur. En það er hins vegar alveg rétt að ungt fólk á erfiðara með að kaupa íbúðarhúsnæði og neyðist því til að leigja húsnæði. Aukin eftirspurn eftir leiguhúsnæði ýtir leiguverði upp á við og þá er sú staða komin sem kvartað er undan nú.

En hvernig stendur á því að erfiðara er fyrir ungt fólk að kaupa íbúðarhúsnæði nú en t.d. árið 2007, þegar raunvirði hvers kaupsamnings var langt yfir því sem nú gerist? Svarið er einfaldlega það að þá var hægt að fá með mjög einföldum og tiltölulega ódýrum hætti 100% fjármögnun á slíkum kaupum. Þetta stendur fólki, sem betur fer, ekki lengur til boða og því er staðan eins og hún er.

Þeir sem háværastir eru í bólutalinu verða að svara því hvort þeir telji eðlilegt að búið sé svo um hnútana að allir geti keypt húsnæði, burtséð frá tekjum og eignastöðu. Ef það er markmiðið verður annaðhvort að taka upp aftur 100% lána umhverfi eða að auka svo framboð á húsnæði að arðsemi af byggingu þess verður neikvæð. Erfitt er að sjá hvernig stjórnmálamenn ætla að sannfæra verktaka um ágæti þeirrar hugmyndar.

Síðasti kosturinn, sem Samfylkingin í Reykjavík hefur talað fyrir, er að hið opinbera byggi sjálft, eða fjármagni byggingu á, íbúðarhúsnæði. Það hvort borgarstjórnarfulltrúar í Reykjavík séu betur til þess fallnir að meta raunverulega þörf fyrir húsnæði og mæta henni betur en markaðurinn verður hver að dæma fyrir sig.

Það sem virðist hafa gleymst er að ástandið nokkrum árum fyrir hrun, þar sem nánast hver sem er gat keypt húsnæði og fengið næga fjármögnun til þess, var ekki eðlilegt og ekki til eftirbreytni. Það er stjórnmálamanna að meta hvort kröftum þeirra sé vel varið í að berja niður húsnæðisverð, en eins og sjá má í blaðinu í dag þá er alltént ekki hægt að tala um neina bólu í þessum efnum.

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is