Frumvarp sem var ætlað að tryggja að ríkissáttasemjari geti látið greiða atkvæði um miðlunartillögu verður ekki lagt fram á þessu þingi þrátt fyrir að afgreitt úr þingflokkum stjórnarflokkanna. Týr þurfti að lesa þessa frétt tvisvar til að trúa henni. Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra ákvað að leggja ekki frumvarpið fram þrátt fyrir eftir að hafa fundað með forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar.

Mikil er ábyrgð Guðmundar fyrir að lyppast niður fyrir verkalýðshreyfingunni í þessu máli. Það þarf ekki að segja Tý hvaða verkalýðsforyngjar hafi sett sig gegn málinu. Eins og kom á daginn í síðasta reglubundna verkfalli Sólveigar Önnu og félögum hennar í Eflingu eru lagaheimildir ríkissáttasemjara um að kjósa verði um miðlunartillögur hans óljósar. Þess vegna þurfti þetta frumvarp að ná fram að ganga. Án lagabreytingar geta óábyrgir skemmdavargar haldið kjaraviðræðum í heljargreipum með því að neita að taka þátt í atkvæðagreiðslum eins og í ljós kom í Eflingarverkfallinu á útmánauðum.

***

Týr hefur af þessu miklar áhyggjur. Í verkalýðshreyfingunni hefur hver sáttahöndin verið uppi á móti annarri undanfarin misseri. Nú stefnir allt í að Efling segi sig úr Starfsgreinasambandinu vegna persónulegrar óvildar Sólveigar Önnu Jónsdóttir formanns Eflingar í garð Vilhjálms Birgissonar formanns SGS.

Ekkert bendir til annars en að verkalýðshreyfingin komi enn sundraðri til leiks þegar reynt verður til þrautar að ná langtímakjarasamningi á almennum vinnumarkaði næsta vetur. Það er ekki lítið sem er í húfi á þessum verðbólgutímum. Guðmundur Ingi félagsmálaráðherra er að tryggja að Sólveig Anna geti eftir sem áður haldið öllum í gíslingu með verkfallsátökum og almennum leiðindum. Verður það að teljast ótrúlegur gunguskapur.

***

Eins og allir vita er Týr hugprúður og djarfastur allra ása og er samkeppnin þó ekki lítil. En þó er hann ekki svo djarfur að hann væri reiðubúinn til að leiða Samtök atvinnulífsins að óbreyttu og Guðmundur Ingi sér til þess að Sólveig Anna hafi öll vopn í hendi sér.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins, en þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 13. apríl.