Á einni viku hafa hlutabréf í Síldarvinnslunni lækkað um tæp 9%, bréfin í Brimi um 5%, í Eimskip um tæp 10% og í Icelandair um tæp 9%. Týr þarf varla að benda lesendum Viðskiptablaðsins á að helsta ástæða þessara lækkana er tilefnislaus innrás Rússlands inn í Úkraínu. Stríðsátök svo nærri okkur hafa með einum eða öðrum hætti áhrif á rekstur allra þessara félaga.

* * *

Gefum okkur að fjársterkur aðili, sem við skulum til gamans kalla Gunnar Smára, hefði fyrir rúmri viku fjárfest fyrir tíu milljónir króna í hverju þessara fjögurra félaga, samtals 40 milljónir. Þegar þessi pistill Týs rennur í gegnum prentvélarnar er andvirði fjárfestingarinnar þó aðeins um 36,7 milljónir og Gunnar Smári hefur því tapað um 3,3 milljónum króna, um 8% af upphaflegri fjárhæð. Það má fastlega gera ráð fyrir því að tapið verði eitthvað meira á næstu dögum - og jafnvel vikum. Það er lítið við því að gera annað en að vona að markaðir taki við sér einhvern daginn og að félögin horfi þá fram á bjartari tíma. Það mun þó taka einhvern tíma að vinna tapið til baka og vonandi getur Gunnar Smári hagnast á fjárfestingu sinni einn daginn.

* * *

Alla jafna er lítið fjallað um þá sem tapa peningum. Það er enginn sem stendur upp í þinginu og talar máli Gunnars Smára, það skrifar enginn langan pistil fullan vandlætingar á bloggsíður sem vilja kalla sig fréttasíður og það heimtar enginn að hann greiði hærri skatta en aðrir. Þetta gerist þó allt ef sveiflan er í hina áttina og fjárfesting Gunnars Smára fer upp á við. Þá fáum við bloggpistlana um að hann hafi grætt svo og svo mikið, rætt verður um skattlagningu og meintan ójöfnuð í samfélaginu.

* * *

Þetta er hverfull heimur. Bókfært virði hlutabréfa er lítils virði fyrr en einhver tekur ákvörðun um að kaupa eða selja. Almennt ríkir lítil samúð með þeim sem tapa peningum en á móti ætti ekki að ríkja öfund eða hatur út í þá sem hagnast. Sá hagnaður er vel skattlagður og skilar sér alltaf inn í samfélagið að lokum. Við þurfum þó alltaf fólk eins og Gunnar Smára.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .