*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Týr
31. október 2021 15:04

Gunnarsstaðabræðurnir

Andúðin á erlendum fjárfestingum tekur á sig ýmsar myndir.

Haraldur Guðjónsson

Sú undirliggjandi andúð sem ríkir í garð erlendra fjárfesta meðal íslenskra stjórnmálamanna hefur meðal annars komið fram í umræðum um fjárfestingu franska fjárfestingasjóðsins Ardian í Mílu. Meira að segja stuðningsmenn þess að Ísland gangi í ESB efast um réttmæti þess að einhverjir útlendingar eignist hluta af fjarskiptainnviðum hér á landi.

* * *

Vissulega – og sem betur fer – höfum við séð stórar erlendar fjárfestingar í fyrirtækjum, t.d. í Icelandair, Icelandair Hotels og Kea-hótelunum, í fiskeldi, í greiðslukortafyrirtækjum og fleiri fyrirtækjum. Þau eru þó fleiri dæmin þar sem stjórnmálamenn og aðilar í stjórnsýslunni hafa ýmist komið í veg fyrir þátttöku erlendra aðila í íslensku atvinnulífi og hagkerfi eða ýtt þeim í burtu með áhugaleysi og sinnuleysi.

* * *

Andúðin á erlendum fjárfestingum tekur á sig ýmsar myndir. Alþingi samþykkti í lok júní 2020 frumvarp forsætisráðherra um breytingu á „ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna“, sem var bandormur sem fól í sér að erlendum aðilum var gert erfiðara um vik að kaupa jarðir og fasteignir hér á landi. Í samtölum þingmanna var þetta í daglegu tali kallað Ratcliffe-frumvarpið, enda var öllum ljóst að því væri beint að einum manni, breska fjárfestinum Jim Ratcliffe. Týr gæti haldið langa tölu um það hvernig frumvarpið felur í sér skerðingu á eignarrétti íslenskra landeigenda, en lætur duga í bili að rifja það upp að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti þá skerðingu á eignarréttinum án athugasemda.

* * *

Það gerði líka Steingrímur J. Sigfússon, þá forseti Alþingis og einn af eigendum að jörð Gunnarsstaða í Þistilfirði. Í nýlegum sjónvarpsþætti á Stöð 2 fjallaði Steingrímur um það hversu góð veiðihlunnindin væru af jörðunum og mikil tekjulind fyrir jarðeigendur. Í sama þætti var rætt við Jóhannes Sigfússon, bónda á Gunnarsstöðum og bróður Steingríms, sem hefur um árabil lýst andúð sinni á fjárfestingum Ratcliffe. Með Che Guevara húfu að vopni dásamaði hann frumvarpið sem Steingrímur bróðir hans samþykkti.

Ber er hver að baki, nema sér bróður eigi… á Alþingi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.