*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Týr
7. september 2018 10:18

Gyðingaandúð

Þá rifjast upp að í næstu viku verða þrjú ár liðin frá því að borgarstjórn samþykkti að fela borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á vörum frá Ísrael.

Ráðhúsið í Reykjavík.
Haraldur Jónasson

Úti í heimi hefur umræða um gyðingahatur blossað upp að undanförnu. Hér höfum við helst séð fréttir af vandræðum Jeremy Corbyns, formanns breska Verkamannaflokksins, en gyðingaandúðar gætir miklu víðar, sérstaklega í Evrópu. Þar er þjarmað að gyðingum úr þremur áttum. Margir vinstrimenn eiga bágt með sig vegna dálætis á Palestínu, með fjölgun múslíma hefur fjandsemi við gyðinga víða brotist út og ekki má gleyma miklum uppgangi þjóðernisflokka um nánast gervalla álfuna. Hér ræðir ekki aðeins um hatursorðræðu; árásir á gyðinga á götum úti, bænahús og menningarmiðstöðvar, skóla og dagheimili í gyðingahverfum, hafa færst mjög í vöxt.

                                                                ***

  

Fæstir vilja auðvitað kannast við að vera gyðingahatarar, enda skáka þeir flestir í því skjólinu, að þeir séu að gagnrýna Ísrael, auðmannaklíkur eða ámóta. Fæstum dylst þó að þar er átt við gyðinga, líkt og kom vel fram þegar Corbyn sagði að það væri merkilegt með zíonistana, að þó þeir hefðu búið kynslóðum saman í Bretlandi, þá gætu þeir ekki tileinkað sér breska kaldhæðni. Hann sagði zíonistar en meinti gyðinga (varla erfist zíonisminn), og gaf til kynna að þeir væru ekki fullgildir Bretar.

                                                                ***

  

Hér á Íslandi hefur gyðingaandúðar lítið gætt, enda fremur ómarkvisst í landi þar sem gyðingar hafa aldrei sest að í neinum mæli. Þó má stöku sinnum heyra fólk hnussa yfir „júðunum“, nískt fólk er kallað gyðingar og í heitum umræðum um Ísrael glittir iðulega í ógeðfelldar hneigðir.

                                                                ***

Þá rifjast upp að í næstu viku verða þrjú ár liðin frá því að borgarstjórn samþykkti að fela borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á vörum frá Ísrael, einu ríkja heims. Treysta menn sér til þess að fullyrða að þar hafi gyðingaandúð ekki komið við sögu? Nú fór það raunar svo, að borgarstjóri stakk samþykktinni undir stól, ekki vegna þess að hann efaðist um markmiðið, heldur vegna þess að hann óttaðist að bandarískir fjárfestar Marriott-hótelsins við höfnina (þeir helstu eru gyðingar) kynnu að kippa að sér höndum. En samþykktin er þarna ennþá óhögguð. Ef það er vottur af ærleika í borgarstjórnarmeirihlutanum þá stendur hann við stóru orðin og rökstyður þau, nú eða fellir samþykktina úr gildi. 

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is