*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Týr
8. febrúar 2019 11:10

Gyðingahatur

Þessi einangrunarstefna gegn Ísrael skaut enn upp kollinum á dögunum vegna andstöðu við þátttöku Íslands í Júróvisjón.

Haraldur Guðjónsson

Eitt hið fyrsta sem nazistar í Þýskalandi gerðu þegar þeir komust til valda árið 1933 var að efna til sniðgöngu á verslunum og fyrirtækjum í eigu gyðinga til þess að gera þeim óvært. Síðustu ár hefur í sumum löndum örlað á sams konar tilburðum í nafni BDShreyfingarinnar, m.a. á Íslandi, en lengst gekk það með samþykkt Reykjavíkurborgar um viðskiptabann á Ísrael 2015.

* * *

Þessi einangrunarstefna gegn Ísrael skaut enn upp kollinum á dögunum vegna andstöðu við þátttöku Íslands í söngvakeppni Júróvisjón, sem í ár fer fram í Tel Aviv. Að venju er samúð með Palestínuaröbum sögð rótin, í bland við andúð á zíonismanum og Ísraelsríki. Það kom hins vegar í ljós þegar Páll Hjálmtýsson, söngvarinn síkáti, var tekinn tali í útvarpi, að þar býr hefðbundin gyðingaandúð ekki síður að baki.

* * *

Þar reifaði Páll andstyggilegar hugmyndir, sem gyðingahatarar hafa verið duglegir við að boða um langan aldur: „Ástæðan fyrir því að restin af Evrópu þegir þunnu hljóði er sú að gyðingar eru búnir að sauma sig inn í Evrópu á mjög lúmskan hátt á mjög löngum tíma." Undir lokin tregaði hann að „gyðingar lærðu ekki neitt af Helförinni," líkt og það þyrfti þá að kenna þeim betur og sagði svo að þeir hefðu sjálfir umbreyst í nazista.

* * *

Um grímulausa fordómana, níðið og ógeðslegan samjöfnuðinn er óþarfi að ræða, en það er rétt að vekja athygli á því að Páll lét allan fyrirslátt um Ísrael vera og talaði fullum fetum um gyðinga. Daginn eftir tók hann þau orð aftur, en baðst ekki afsökunar, ítrekaði Helfararsamlíkinguna og áréttaði andóf sitt við zíonismann, sem fengi „engan afslátt". Með því leggst hann gegn tilverurétti Ísraelsríkis, sem einhver myndi segja and-semitískt viðhorf, en hitt er þó verra að „leiðrétting" hans á orðum sínum um gyðingana skuli eftir allt bara vera afsláttur. Það er fyrirlitlegt, en hitt ömurlegt hvað margir voru til í að taka undir þessi viðhorf, þó þeim þætti sumum Páll fullberorður.

* * *

Að því sögðu telur Týr að Íslendingar eigi að sniðganga söngvakeppnina, algerlega óháð því hver heldur hana og hvar. Ekki aðeins af því að hann sé tapsár fyrir Íslands hönd, heldur af því að auðvitað eiga Íslendingar að sniðganga Júróvisjón eins og allt tónelskt fólk.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.