*

sunnudagur, 5. desember 2021
Týr
4. september 2021 15:04

Hægrið leiðir umhverfismálin

Loftslagsmálin verða ekki leyst með fleiri friðlýsingum og baráttu gegn þeim grænu virkjunarkostum sem í boði eru hér á landi.

Eyþór Árnason

Það vakti athygli, þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum, að Vinstri græn skyldu gera Guðmund Inga Guðbrandsson, sem þá var formaður Landverndar, að umhverfisráðherra. Týr varð ekki var við nein mótmæli af hálfu Sjálfstæðisflokksins, enda er flokkum nokkurn veginn í sjálfsvald sett hverja þeir skipa sem ráðherra þegar búið er að semja um skiptingu ráðuneyta. Sjálfstæðisflokkurinn hefði þannig getað gert framkvæmdastjóra SFS að sjávarútvegsráðherra eða forstjóra Icelandair að ferðamálaráðherra ef út í það er farið. Týr efast þó um að VG hefði sætt sig við þá ráðstöfun.

* * *

Hvað umhverfis- og loftslagsmálin varðar má segja að vinstrimenn hafi náð að eigna sér málaflokkinn. Þegar nánar er að gáð hafa skilaboðin og lausnirnar þó helst falist í hærri sköttum, auknum afskiptum ríkisins og samviskubiti yfir þeim lífsgæðum sem við búum við. Hægrimenn hafa mótmælt þessum málflutningi og fyrir vikið málað þá mynd af sjálfum sér að þeir láti umhverfismálin sig ekki varða.

Nú kann þó að verða breyting á, þótt fyrr hefði verið. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagði sérstaka áherslu á græna byltingu í ræðu sinni á fundi flokksins um nýliðna helgi og sló þannig nýjan tón í umræðunni. Áður hafði Miðflokkurinn talað um mikilvægi þess að nýta þá endurnýjanlega orku sem er í boði hér á landi.

* * *

Það er hægt að ræða mikið og lengi um umhverfis- og loftslagsmál – eins og vinstrið hefur gert í áratugi. Svo er hægt að boða raunverulegar lausnir, fjárfesta í grænum lausnum, búa til efnahagslega hvata og þannig mætti áfram telja – allt í þeim tilgangi að flýta fyrir orkuskiptum og búa til umhverfisvænna samfélag. Tækninni fleygir hratt fram og hið frjálsa markaðshagkerfi vinnur daglega að raunverulegum lausnum til að takast á við loftslagsmálin. Þau verða ekki leyst með fleiri friðlýsingum og baráttu gegn þeim grænu virkjunarkostum sem í boði eru hér á landi.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.