Í síðustu viku hófust sýningar á nýjustu myndinni í Batmanmyndaflokki Christophers Nolan og ef marka má undirtektir verður hún ein vinsælasta mynd ársins hér á landi sem annars staðar. Myndirnar um auðmanninn Bruce Wayne, sem berst við glæpalýð á götum Gotham- borgar, hafa reynst gríðarlega vinsælar og hefur önnur myndin í þríleiknum The Dark Knight oft verið sögð besta ofurhetjumynd kvikmyndasögunnar.

Þetta er merkilegt fyrir margar sakir. Á síðustu áratugum hefur kvikmyndaborgin Hollywood réttilega fengið það orð á sig að vera vinstra megin við meirihluta Bandaríkjamanna. Í myndmáli kvikmyndanna er athafnamaðurinn og auðjöfurinn iðulega illmennið.

Nolan hefur í kvikmyndum sínum farið gegn þessari ódýru og skaðlegu nálgun á heiminn, þótt ekki sé verið að nudda áhorfendum upp úr því.

Gott dæmi er þegar illmennið Bane ræðst inn í kauphöllina. Lögreglumaður segir við starfsmann kauphallarinnar að það skipti hann engu máli hvað hryðjuverkamennirnir gera þar inni, því hann geymi peningana sína undir dýnunni. Starfsmaðurinn segir þá að ef Bane tekst að skaða markaðinn þá verði dýnan miklu minna virði.

Markaðurinn býr til auð sem við njótum öll, þótt ekki séum við virkir þátttakendur í kauphöllinni.

Illmenni myndarinnar, Bane, er fulltrúi öfundar og niðurrifs. Þegar Catwoman gengur inn í íbúð, sem búið er að leggja í rúst af hugmyndafræðilegum samherjum Occupyhreyfingarinnar, segir hún: „Þetta var einu sinni heimili einhvers“, en vinkona hennar á bágt með að hemja gleðina þegar hún svarar „núna er þetta heimili allra!“ Afleiðingar þess að einkaeignarrétturinn er ekki virtur verða vart betur færðar á skjáinn.

Eins og Andrew Klavan gerir í pistli sínum í Wall Street Journal má halda því fram að enginn kvikmyndamaður í Hollywood sé raunverulegur sósíalisti — ekki einu sinni vindbelgir eins og Michael Moore. Aðeins séu til kapítalískir kvikmyndagerðarmenn sem geri sósíalískar kvikmyndir.

Það er áhugavert að á undanförnum árum hafa kvikmyndagestir hins vegar fengið að kynnast tveimur auðjöfrum sem bæði gera heiminn betri í krafti auðs síns og einnig sem ofurhetjur. Ironman, sem einnig heitir Tony Stark, er annar slíkur. Líkt og myndir Nolans hafa myndir um Ironman notið gríðarlegra vinsælda og er sú þriðja á leiðinni. Í lokin er rétt að benda á að ólíkt flestum ofurhetjum eru þeir Wayne og Stark ekki búnir neinum ofurkröftum, heldur hafa þeir þurft að nota þrautsegju og meðfæddar gáfur til að ná á toppinn í ofurhetjugeiranum. Enn og aftur sannar nördamenningin gildi sitt.

Pistillinn birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.