*

sunnudagur, 23. janúar 2022
Óðinn
8. júlí 2020 07:20

Hækkun erfðafjárskatts og misskilningur

Í besta falli misskilningur hjá samgönguráðherra að verkefni með tímabundnu erlendu vinnuafli dragi úr atvinnuleysi.

Gunnhildur Lind Photography

Innan stjórnkerfisins er nú verið að útfæra hækkun erfðafjárskatts. Nútímastjórnmálamennirnir eru nefnilega mjög uppteknir af því hvernig vindar blása þá stundina og minnstu hviður geta hreyft þá úr stað.

                                                                     ***

Í þetta sinn voru það Vinstri grænir af öfund og Framsóknarmenn sem misstu fótanna. Ástæðan var arfleiðsla eigenda útgerðarfélagsins Samherja til barna sinna. Og þá kemur þeim auðvitað ekki annað til hugar en að breyta landslögum til þess að skakka leikinn gagnvart einni fjölskyldu.

                                                                     ***

Til upprifjunar eru um helmingur tekna Samherja erlendar og hafa verið um langt skeið. Því má segja með nokkurri vissu að helmingur þess fyrirframgreidda arfs til barnanna hafi komið erlendis frá.

                                                                     ***

Erfðafjárskattur er í dag 10% og því hefur skattgreiðslan af þessum gjörningi numið milljörðum. Ef miðað er við eigið fé Samherja þá væri stofninn um 111 milljarðar króna, arfurinn nam 86,5% hlutafjárins og því erfðafjárskatturinn um 9,5 milljarðar króna.

                                                                     ***

Á móti kemur að ævintýri Samherjamanna í Namibíu hefur stórskaðað félagið og minnkað virði þess, í það minnsta til skemmri tíma. Hugsanlega hefur það haft einhver áhrif á stofninn til útreiknings erfðafjárskattsins.

                                                                     ***

Tvöföldun

En hugmyndin er sumsé sú að hækka erfðafjárskatt í 20% en hækka um leið frítekjumarkið verulega, hugsanlega í einhverja tugi milljóna.

                                                                     ***

Alveg burtséð frá því, sem þarna býr að baki, þá er stórhættulegt þegar löggjafinn leggst í svona æfingar, setur almenn en þó klæðskerasaumuð lög. Getur almenningur treyst því að það gerist ekki aftur gagnvart einhverjum öðrum, sem er í ónáðinni þá stundina? Og svo öðrum og öðrum? Það segir sig sjálft að það samræmist engum hugmyndum um lýðræðisleg sjónarmið, jafnræðisreglu laga eða annað það sem borgararnir verða að geta reitt sig á gegn handahófskenndri og gerræðislegri valdbeitingu stjórnvalda.

                                                                     ***

Þessi hugmynd er ekki aðeins vond og heimskuleg, heldur mun hún í reyndinni verða stórskaðleg fyrir ríkissjóð Íslands. Þeir sem eiga meira en 100 milljónir króna munu, ef til hækkunarinnar kemur, útfæra sín skattamál þannig að til sem minnstar skattgreiðslu komi. Það er nefnilega ótrúlegt hvað auðvelt er að verjast ágengni stjórnmálamanna þegar kemur að skattsýki þeirra. Þeir fjármunir munu því síður eða ekki nýtast á Íslandi hér og nú, enn síður þegar kemur að lokauppgjörinu við sláttumanninn slynga og skattmanninn þvinga.

                                                                     ***

Frönsk lexía

Óðinn er ekki í vafa um að ríkið muni á endanum tapa á hækkuninni og vill minna á dæmi frá Frakklandi. Sósíalistinn François Hollande, fyrrverandi forseti Frakka, setti árið 2012 á 75% hátekjuskatt á alla þá sem höfðu meira en eina milljón evra (um 135 milljónir króna) í laun á ári.

Stjórnlagadómstóll landsins lækkaði álagningu skattsins í 50%, þar sem hann legðist misjafnlega á fólk eftir fjölskylduaðstæðum, en jafnframt leiddu skoðanakannanir í ljós að almenningur var honum andstæður og þótti hann jafnast eignaupptöku, sem myndi hafa aðrar og verri afleiðingar en að var stefnt.

                                                                     ***

Skatturinn skilaði mun minna í ríkissjóð landsins en stjórnvöld höfðu gert ráð fyrir. Árið 2013 skilaði skatturinn 260 milljónum evra en aðeins 160 milljónum evra árið eftir. Áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir að skatturinn myndi skila tæpum 1 milljarði evra í tekjur á árunum tveimur. Aðeins af þeirri ástæðu blasir við að skattlagningin var vanhugsuð.

                                                                     ***

Það kom enda berlega á daginn, nánast um leið og ákveðið var að fara þessa leið. Fjölmargir frægir tekjuháir einstaklingar yfirgáfu Frakkland vegna skattsins. Þeirra á meðal voru ríkasti maður Frakklands, Bernard Arnault, sem tók upp belgískt ríkisfang, og leikarinn  Gérard Depardieu sem tók upp rússneskt ríkisfang.

Margt af þessu fólki var vinsælt, en einnig virt sem frumkvöðlar og skapandi fólk í atvinnulífi. Ekki voru þó allir ríkir og frægir, sem ákváðu að taka til fótanna, því það gerðu einnig margir sem ólu með sér vonir um ríkidæmi. Þannig reyndist þessi ákvörðun gríðarleg blóðtaka fyrir franskt fjármálakerfi, þar sem nánast heil kynslóð upprennandi bankamanna og fjármálafakíra flutti sig frá Signubökkum að Thames, hinu megin Ermarsunds.

                                                                     ***

Hátekjuskattur Hollande var því ekki endurnýjaður í fjárlögum 2015, en það var þáverandi fjármálaráðherra sem beitti sér fyrir því, Emmanuel nokkur Macron, sem lýsti afleiðingum ofurskattsins með orðunum „Kúba án sólskinsins". Um leið má segja að ferill Hollande hafi blessunarlega verið á enda. Sömuleiðis gróf sú niðurlæging mjög undan kenningum Thomas Piketty, sem var helsta klappstýra Hollande í þessari óheillaför.

                                                                     ***

Stuðningur úr óvæntri átt

Þann 1. maí setti Snærós Sindradóttir, starfsmaður Ríkisútvarpsins og fyrrverandi blaðamaður á Fréttablaðinu færslu á Twitter:

Gleðilegan baráttudag verkalýðsins og leggjum svo niður helvítis erfðafjárskattinn.

                                                                     ***

Þetta kom Óðni nokkuð á óvart, en að eigin sögn skráði Snærós sig í Vinstri græna af öfund aðeins 12 ára gömul. Hann þurfti því ekki lengi að bíða spurningar um af hverju hún væri þessarar skoðunar og hvort erfðafjárskatturinn væri ekki besta jöfnunartækið. Okkar kona hélt nú ekki:

Einmitt ekki. Hann er 10% flatur á allan arf af eignum sem alla tíð hefur verið greiddur skattur af og verður áfram. Ef þú átt ekkert, erfir íbúð, þá þarftu að punga út 10% af virði eignarinnar á einu bretti. Eigum bara að leyfa fólki að erfa sitt og borga hefðbundinn skatt.

                                                                     ***

Til eru verri skattar

Óðinn vill benda þessum ágæta starfsmanni Ríkisútvarpsins, um leið og hann gleðst yfir rökstuðningnum, að það er enginn skattur lagður á einstaklinga þar sem hann hefur ekki greitt áður skatt af, nema tekjuskattur. Virðisaukaskattur, stimpilgjald, útvarpsgjald, áfengisgjald, fasteignaskattur, erfðafjárskattur og hvað allir þessir skattar heita sem þeir sem aðhyllast sömu hugsjónir og Snærós hafa barist fyrir.

                                                                     ***

Móðir Snærósar er Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Það er vonandi að eggið kenni hænunni í þessu tilfelli. Reyndar er það ósjaldan svo að vinstri menn sjá sköttum allt til foráttu, ef þeir eiga að greiða þá.

                                                                     ***

Óðinn er þeirrar skoðunar að skattar eigi að vera almennir, þeir eiga að vera lágir og sanngjarnir. Það eru nefnilega til margir verri skattar en flatur 10% erfðafjárskattur. En það er vert að hafa í huga að skoðanakannanir um skattheimtu á Vesturlöndum hafa áratugum saman verið mjög á eina leið um það að erfðaskattar þykja flestum allra skatta ósanngjarnastir. Þar ræðir um það sem eftir lifir af ævistarfi hvers og eins, því sem fólk vill til leggja afkomendum sínum til þess að létta þeim lífsbaráttuna.

                                                                     ***

Samgönguáætlunin

Samgönguráðherra mætti í viðtal hjá Ríkisútvarpinu á þriðjudag. Þar kom fram að um 8.700 störf verða til á næstu árum í tengslum við framkvæmdir vegna samgönguáætlunar. Í fréttinni sagði: Ráðherrann segir mikilvægt að ráðast í framkvæmdirnar einkum til að útvega fjölda fólks störf. „Það er líka skynsamlegt að fara í framkvæmdir jafnvel þó að við þurfum að taka lán fyrir þeim vegna þess að vaxtastigið í landinu er mjög hentugt. Þannig að þetta er akkúrat rétti tíminn að spýta í opinberar framkvæmdir."

                                                                     ***

Í maí var um 10% atvinnuleysi á Íslandi. Það er í besta falli fullkominn misskilningur hjá samgönguráðherranum að vegaframkvæmdir, eins nauðsynlegar og margar þeirra nú eru, muni minnka atvinnuleysi á Íslandi nema að mjög óverulegu leyti.

                                                                     ***

Langflestir sem starfa við vegaframkvæmdir eru verkamenn og tækjamenn sem koma tímabundið til starfa á Íslandi, helst frá Austur-Evrópu.

                                                                     ***

Svipaður misskilningur var uppi þegar tekin var ákvörðun um að halda áfram með framkvæmdir við tónleikahúsið Hörpu. Þá björguðu ríki og borg störfum um eitthundrað kínverskra verkamanna sem settu glerhjúpinn utan á húsið.

                                                                     ***

Það skiptir miklu máli að atvinnulífið snúist í gang eftir plágu, en aðgerðir stjórnvalda eiga að miðast við það sem mestu skiptir, ekki einhverjar stórkarlalegar áætlanir til þess að sýnast vera að gera eitthvað, bara eitthvað. Það mun meira muna um að ríkisvaldið gefi atvinnu- og efnahagslífi tækifæri til þess að blómstra, því það getur það án þess að stjórnmálamennirnir séu með puttana í því öllu og lúkurnar sífellt dýpra í vösum skattgreiðenda. Eða því aðeins, öllu heldur.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.