*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Týr
24. janúar 2021 12:32

Hafnar­fjarðar­brandari í Reykja­vík

Það er mjög auðvelt að byggja 175 milljarða króna skýjaborgir fyrir annarra manna fé.

Haraldur Guðjónsson

Í lok árs 2007 hélt meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar, sem þá var stjórnað af vinstri mönnum, mikla pólitíska flugeldasýningu þegar tilkynnt var að árið 2008 yrði „stærsta framkvæmdaár í sögu bæjarins“ eins og það var orðað. Það verður ekki af þáverandi stjórnendum bæjarins tekið, að þeir stóðu við stóru orðin. Hvað fjárhag bæjarins varðar var þó engin innstæða fyrir þessari áætlun heldur var þetta allt meira og minna tekið að láni.

* * *

Týr man vel eftir þessari sýningu. Á þessum tíma voru blikur á lofti á fjármálamörkuðum, aðgangur að lánsfjármagni var orðinn takmarkaður og lánakjör dýrari en þau höfðu verið nokkrum árum áður. Þrátt fyrir að nær allar tekjur bæjarins væru í íslenskum krónum tók bærinn erlend lán, sem síðan stökkbreyttust eftir hrun. Sveitarfélög á Íslandi geta ekki orðið gjaldþrota, því miður, en ef ekki hefði komið til sölu bæjarins á hlut í HS Orku væri hann sjálfsagt enn í fjárhagslegri gjörgæslu ríkisins.

* * *

Reykjavíkurborg áætlar nú að fara sambærilega leið. Meirihluti borgarstjórnar, sem í þessu tilviki er einnig stjórnað af vinstri mönnum, kynnti á síðasta ári það sem kallað er Grænt plan og felur í sér mikla uppbyggingu og ýmis önnur gæluverkefni. Á þessu ári stendur til að fjárfesta fyrir 28 milljarða króna og á næstu þremur árum samtals fyrir um 175 milljarða.

* * *

Allt hljómar þetta afskaplega vel. Sá böggull fylgir þó skammrifi að þessir peningar, 175 milljarðar, eru ekki til og það er ekkert útlit fyrir að þeir verði til á næstu árum. Til stendur að fjármagna meginþorra áætlunarinnar með lántökum. Líkt og með Hafnarfjarðarbæ þá kemur samt að því að það þarf að greiða lánin einn daginn. Það er ekkert í áætlunum vinstri meirihlutans í Reykjavík sem gefur til kynna að það verði gert öðruvísi en með hærri sköttum og gjöldum í framtíðinni í bland við skerta þjónustu.

* * *

Það er mjög auðvelt að byggja skýjaborgir fyrir annarra manna fé. Hafnarfjarðarbrandarinn er þó ekkert fyndinn fyrir þá sem búa í Reykjavík.

* * *

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.