Virði seljanlegustu félaga Kauphallarinnar hefur undanfarna daga jaðrað við að vera 45 sinnum hærra en tíu ára meðaltal raunhagnaðar og hefur ekki mælst jafnhátt síðan í júlí 2007. Hlutfall virðisins af hagnaði er heldur hærra en gengur og gerist á mörkuðum vestanhafs auk þess að vera vel yfir meðaltali frá árinu 1995, sem er um 17.

Hvað áhrærir 17% hækkun Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar (OMXI10) frá ársbyrjun er hún að einhverju leyti útskýrð með 225 punkta vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands og áhrifum þeirra á hvoru tveggja ásókn fjármagns í aukna ávöxtun sem og núvirðingu greiðsluflæðis eigna.

Að undanskildum áhrifum vaxtalækkana Seðlabankans hefur uppgangur síðastliðinna vikna átt rætur sínar að rekja til bjartsýni í garð komandi tíma vegna áhrifa bólusetningar. Aðrir þættir hafa átt hlut í máli líkt og lækkun raungengis þriðja árið í röð og kröftugri þjóðarútgjöld á fyrstu þremur fjórðungum ársins en reiknað hafði verið með.

Útflutningur og hagnaður
Útflutningur og hagnaður
© vb.is (vb.is)

Upphallandi ferill ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa gefur síður til kynna væntingar um viðvarandi slaka í hagkerfinu og að vextirnir haldist að óbreyttu svo lágir til næstu tíu ára. Til að forðast rökvillu má velta upp hvað markaðsaðilar búast við mikilli aukningu hagnaðar félaga OMXI10 ef gert er ráð fyrir að hlutfall virðis af hagnaði nái sínu eðlilega horfi þrátt fyrir hækkandi vexti, eða að minnsta kosti sem samsvarar ávöxtun lengstu skuldabréfa ríkissjóðs.

Að því gefnu að virðið haldist óbreytt út næsta ár þyrfti hagnaður félaganna að vaxa um liðlega 75 milljarða króna frá hagnaði núlíðandi árs svo hlutfall virðis á móti hagnaði nálgist meðalstöðuna 17. Ef miðað er við ávöxtun lengstu ríkisbréfa þyrfti hagnaður félaganna að vera um 27 milljörðum hærri að raungildi á næsta ári.

Hversu líklegt er að hagnaður fyrirtækja aukist um ofangreindar upphæðir? Sennilegt er að fyrir fjárfestum vaki vöxtur útflutnings á næsta ári sem helsta ástæða aukins hagnaðar, hvoru tveggja útflutningsfyrirtækja auk rekstrar fyrirtækja þar sem ytri áhrifa gætir af útflutningi. Súlurnar á myndinni sýna breytingar í árlegum raunhagnaði félaga í OMXI10 og ferillinn lýsir árlegum vexti heildarútflutnings Íslands.

Glöggur lesandi þekkir að töluverð óvissa varðar útflutning á næsta ári sem veltur á framþróun bólusetningar gegn farsóttinni. Fyrir vikið er ekki útséð á hvaða tímapunkti meðal annars þjónustuútflutningur tekur við sér. Gæti sagan gefið fyrirheit yrði að teljast fremur óvænt ef hagnaður núverandi félaga vísitölunnar ykist um 75 milljarða samhliða 12% vexti útflutnings líkt og Seðlabankinn reiknar með í síðustu Peningamálum. Að því gefnu að áætlun Icelandair Group í aðdraganda útboðs í september gangi eftir um taprekstur komandi árs þyrfti hagnaður annarra félaga að tvöfaldast og gott betur en það.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.