Miðað við 3,7% raunávöxtunarkröfu þyrfti samanlagður hagnaður félaga í OMXI8 að rúmlega tvöfaldast til að réttlæta verðlagningu.

Hlutfall virðis á móti hagnaði Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands (OMXI8) hefur hækkað hratt frá áramótum. Undirliggjandi hagnaður útskýrir þróunina en hann hefur dregist saman – að mestu – vegna taps Icelandair Group á síðasta ári.

Frá árinu 2011 hefur VH-hlutfallið verið að jafnaði 15 en í janúar síðastliðnum var gildi þess 27 og svo 38 síðastliðinn þriðjudag. Svo hátt hefur hlutfallið ekki verið síðan í apríl árið 2010 en þar áður í desember 2001. Myndin sýnir þróun árshagnaðar og virðis félaga í OMXI8 leiðrétt fyrir verðbólgu þar sem upphafsgildi er umreiknað 100 í desember 2010 til að einfalda samanburð. Sjá má að hagnaður hefur nánast samfellt dregist saman frá marsmánuði 2017. Gögn greinarinnar má nálgast á síðunni hi.is/~boo4.

Frá árinu 1995 er meðaltal VHhlutfallsins fyrir OMXI8 um 16 sem jafngildir um 6,25% nafnávöxtunarkröfu á tekjufært greiðsluflæði eða 3,7% raunávöxtunarkröfu ef miðað er við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Að því gefnu að það sé „rétt“ ávöxtunarkrafa þyrfti undirliggjandi árshagnaður vísitölunnar að aukast um 130% að raunvirði til að ná hlutfallinu úr 38 í 16. Með öðrum orðum, fjárfestir sem á eignasafn sem endurspeglar OMXI8 og metur VH-hlutfall þess vera 16 gerir ráð fyrir að hagnaður félaganna verði um 130% hærri yfir næstu 12 mánuði fyrir utan verðbólgu.

Hliðstæð ársbreyting átti sér stað á seinni helmingi ársins 1999 þegar hagnaður Flugleiða tífaldaðist milli ára. Árið 2002 var yfir 130% raunvöxtur hagnaðar en um 20% veiking krónunnar árið áður var félögum eins og Baugi Group og Eimskipafélagi Íslands hliðholl í rekstri og fjármagnsliðum. Mikinn vöxt áranna 2005 og 2006 má aðallega rekja til þróun fjáreigna fjármálafyrirtækja. Samfelldur hagnaðarvöxtur áranna 2015 og 2016 skýrist aðallega af árangri Icelandair Group og Marel þar sem félögin vógu samanlagt um 55% af OMXI8.

Að öðru óbreyttu, náist jöfnuður í afkomu Icelandair Group árið 2019 yrði VH-hlutfall OMXI8 um 23 en til samanburðar er það um 18 í Bandaríkjunum og 15 í Evrópu samkvæmt Thomson Reuters. Að því viðbættu ef vöxtur hagnaðar Marels verður álíka og síðastliðin tvö ár yrði hlutfallið 20. Sennilega er ofaukið að gera ráð fyrir endurtekningu einskiptisliða eins og 3 milljarða króna niðurfærslu viðskiptavildar hjá Símanum og fjárfestingareigna Reita. Að slíkum liðum undanskildum færi hlutfallið úr 20 í 18. Slíkt gildi jafnast við 5,6% nafnávöxtunarkröfu sem er á við kröfu langra ríkisskuldabréfa í dag.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.