*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Týr
13. ágúst 2018 11:19

Hagsmunir pólitíkusa

Stjórnmál og stjórnsýsla verða ekki betri við að til þeirra starfa veljist aðeins fólk, með litla eða enga reynslu af neinu nema stjórnmálastörfum.

Haraldur Guðjónsson

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, skilaði á dögunum inn hagsmunaskráningu, en hann hefur verið virkur í íslensku athafnalífi um árabil, svo úr þeirri skráningu má ýmislegt lesa. Í kosningabaráttunni í vor voru frambjóðendur Samfylkingarinnar duglegir að dylgja um þessa hagsmuni Eyþórs og viðskiptasögu hans. Nú þegar hagsmunaskráin liggur fyrir gerði Stundin, sem sérhæfir sig í fréttum af sjálfstæðismönnum, sér mat úr þessu og rakti eignarhald hann í hinum ýmsu félögum (ekki síst Morgunblaðinu), eignavensl og stjórnarsetur, með móraliseringu um að illa færi á því að hann kæmi nálægt verðmætasköpun nokkurs konar.

                        ***

Þetta er skrýtið viðhorf. Almennt eiga menn auðvitað ekki að henda of marga bolta á lofti, enda hefur Eyþór skipulega dregið úr aðkomu sinni að athafnalífi á síðustu mánuðum. En á móti má vel spyrja, hvort það vanti ekki fleira fólk úr atvinnulífinu í stjórnmál. Stjórnmál og stjórnsýsla verða ekki betri við að til þeirra starfa veljist aðeins fólk, með litla eða enga reynslu af neinu nema stjórnmálastörfum. Ef það.

                        ***

Auðvitað er hagsmunaskráningin um margt sýndarmennska, en hún getur þó auðveldað mönnum að sjá þegar sumir fjárhagslegir hagsmunir geta rekist á við pólitísk störf manna. Að eiga hagsmuna að gæta skapar hins vegar ekki sjálfkrafa vandamál; ekki fyrr en þetta tvennt skarast (sem er fremur fátítt). Vinstrimönnum lætur hins vegar vel að láta að því liggja, enda sjálfir ósennilegri til þess að koma að sköpun verðmæta, þeir eru meira í að eyða þeim.

                        ***

Hins vegar eru alls kyns aðrir hagsmunir óskráðir, svo sem aðild að þrýstihópum, áhugamannafélögum og aðgerðahópum, sem hafa æ meira að segja, ekki síst á vinstri vægnum. Þeirra hagsmuna er í hvergi getið í hagsmunaskráningu borgarfulltrúanna. Hvað þá þeirra fjárhagslegu hagsmuna, sem flestir landsmenn eru háðir – jafnt til hægri og vinstri, með kerfisflokkum jafnt og popúlistum – en það er persónuleg skuldastaða og hverjir eru helstu lánardrottnar. Við blasir að skuldum vafðir stjórnmálamenn geta verið í mjög viðkvæmri stöðu. Öll hagsmunaskráning er markleysa ef það er undanskilið.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.