*

miðvikudagur, 23. september 2020
Yngvi Harðarson
29. ágúst 2020 13:42

Hagvaxtarhorfur 2020/21

Vísbendingar er um að hið versta gangi yfir í haust og vetur. Merki um viðsnúning hérlendis virðist þó ekki eins skýr og í viðskiptalöndunum.

Haraldur Guðjónsson

Afar mikil óvissa ríkir um efnahagshorfur næstu mánuði og misseri þegar litið er til hagvaxtar og atvinnustigs. Svartsýni hefur verið ríkjandi í tengslum við áhrif COVID-19 farsóttarinnar og skyldi engan undra með hliðsjón af heilbrigðisvánni og áfallinu fyrir ferðaþjónustuna. Þar hitti farsóttin ferðaþjónustuna illa fyrir því þar var þegar farið að hægja á þegar farsóttin skall á. Fáir efast um að umtalsverður samdráttur verði á árinu en spurningin er hvernig gangi að snúa úr vörn í sókn.

OECD hefur um árabil birt sk. samsetta leiðandi hagvísa fyrir ýmis lönd. Hagvísarnir eru vísitölur sem samanstanda af nokkrum undirþáttum og er ætlað að gefa vísbendingu um efnahagsumsvif og sérstaklega möguleg umskipti 6-9 mánuði fram í tímann. Árið 2013 hóf Analytica að birta slíkan hagvísi fyrir Ísland að fyrirmynd OECD.

Í ljósi stöðu mála nú er ekki úr vegi að skoða hvað þessir hagvísar segja bæði fyrir helstu viðskiptalönd sem og umsvif hérlendis. Á meðfylgjandi mynd má sjá leiðandi hagvísa OECD fyrir BNA (grár ferill) og Kína (rauður ferill) auk hagvísis sem Analytica hefur sett saman úr leiðandi hagvísum OECD fyrir helstu viðskiptalönd (grænn ferill). Þá er leiðandi hagvísir Analytica fyrir Ísland dreginn með bláum ferli. Tölurnar ná fram til júlí.

Í öllum tilvikum virðist hafa orðið viðsnúningur til hækkunar hagvísanna þótt þann fyrirvara þurfi að gera að tölurnar eru gjarnan endurskoðaðar. Því getur tekið nokkra mánuði fyrir merkin að skýrast frekar.

Hagvísarnir sveiflast í kringum gildið 100 sem skýrist af því að framsetningin er í formi fráviks frá leitni (e. trend).

Að því gefnu að þær vísbendingar sem hér birtast gangi eftir má gera ráð fyrir að í efnahagsmálum gangi hið versta yfir í haust og vetur en síðan taki efnahagslífið að rétta úr kútnum mögulega um eða upp úr nk. áramótum. Merki um komandi viðsnúning hérlendis virðist þó ekki eins skýr og í viðskiptalöndunum en það stafar að líkindum af þungu vægi ferðaþjónustunnar hér. Þá veita hagvísarnir takmarkaða vísbendingu um styrk viðsnúningsins en langan tíma gæti tekið fyrir viðskiptalífið að ná sér almennilega á strik.

Leiðandi hagvísir Analytica samanstendur af undirþáttum sem hver um sig leiðir almenn efnahagsumsvif í tíma en með ófullkomnari hætti en samsettur hagvísir. Hugmyndin sem liggur að baki er að framleiðsla hefur aðdraganda og að vísitalan sé reiknuð á grunni þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga. Sá mælikvarði á almenn efnahagsumsvif sem hagvísinum er ætlað að leiða er verg landsframleiðsla. Að jafnaði er tímaleiðnin um 6-9 mánuðir en hún getur verið bæði meiri og minni. Ekki er endilega um beint orsakasamhengi að ræða heldur samhengi í tíma.

Undirþættir leiðandi hagvísis Analytica eru sex. Um er að ræða vísitölu aflamagns, debetkortaveltu að raungildi, ferðamannafjölda um Leifsstöð, heimsvísitölu hlutabréfa, vöruinnflutning að raungildi og væntingavísitölu Gallup. Eru þessir undirþættir hinir sömu og gjarnan eru notaðir erlendis eða náskyldir ættingjar.

Höfundur er hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica ehf.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.