*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Huginn og muninn
9. febrúar 2019 10:02

„Hakkavél herskáu aflanna“

Frestur til að skila framboði í formannskjöri VR rennur út á mánudaginn.

Haraldur Guðjónsson

Föstudaginn 1. febrúar auglýsti VR eftir einstaklingsframboðum til formanns og í stjórn félagsins, sem og listaframboðum í trúnaðarráð. Framboðsfrestur rennur út mánudaginn 11. febrúar en kosningarnar fara fram í mars.

Ragnar Þór Ingólfsson hefur gefið kost á sér til áframhaldandi formennsku en enn sem komið er hafa hrafnarnir ekki heyrt af neinu mótframboði. Ragnar Þór hefur skipað sér í flokk með hinum herskáu sósíalísku verkalýðsforingjum og þá sérstaklega þeim Sólveigu Önnu Jónsdóttir í Eflingu og Vilhjálmi Birgissyni í Verkalýðsfélagi Akraness.

VR er í eðli sínu allt öðruvísi félag en Efling og Verkalýðsfélag Akraness. Endurspeglast það meðal annars í þeirri staðreynd að innan VR er stór hópur félagsmanna, eins og til dæmis sérfræðinga og stjórnenda, sem eru á launum sem eru ekki í neinu samræmi við lágmarkstaxta á íslenskum vinnumarkaði. Hinar sósíalísku áherslur Ragnars Þórs og fjálglegt tal um verkföll hafa skiljanlega valdið töluverðri ólgu hjá þessum hópi, svo mikilli að sumir hafa yfirgefið félagið og gengið í Kjarafélag viðskipta-  og hagfræðinga (KVH) eða Félag lykilmanna (FLM).

Vegna þeirrar ólgu sem verið hefur innan VR kemur það hröfnunum nokkuð á óvart að ekki skuli vera komið mótframboð gegn Ragnari Þór. Hrafnarnir vita reyndar að leit að álitlegum frambjóðanda hefur staðið yfir frá því fyrir áramót. Heyrðu þeir í einum sem búið er að þrýsta á síðan í desember að bjóða sig fram en sá sagðist einfaldlega ekki vilja það. Hann sagði að það kæmi sannarlega á óvart að ekki væri búið að finna mótframbjóðanda en á sama tíma væri það að einhverju leyti skiljanlegt því það þyrfti mjög sterkan einstakling til að taka slaginn eða „fara í þessa hakkavél herskáu aflanna“ því það væri beinlínis „heilsuspillandi“ eins og það var orðað.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.