*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Huginn og muninn
6. apríl 2019 10:02

„Hálfvitinn“ við Sæbraut

Humarinn stóð í borgarbúum og þurftu þeir vænan slurk af meðalfylltu en ósætu Pouilly-Fuissé hvítvíni til að ná andanum á nýjan leik.

Vígdís Hauksdóttir umkringd dönskum stráum.
Haraldur Guðjónsson

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, syndir á móti straumnum. Hafa hrafnarnir svolítið gaman af þessum týpum, sem eru með munninn fyrir neðan nefið, oftast, og láta ekki almenningsálitið stjórna orðræðu sinni. Þegar Vigdís stendur upp þá er hún oftar en ekki í ham. Í vikunni stökk hún upp og skrifaði færslu á Facebook sem margir fjölmiðlar greindu frá. Var hún að vekja athygli á kostnaði borgarbúa við innsiglingarvita, sem búið er að koma fyrir við Sæbrautina, gegn Höfða. Vitinn, sem Vigdís kallar að sjálfsögðu hálfvita, á að leysa af hólmi vita Sjómannaskólans við Háteigsveg. Bendir Vigdís á að upphafleg kostnaðaráætlun hafi hljóðað upp á 75 milljónir króna en að í dag sé kostnaðurinn kominn í 150 milljónir. Raunar segist Vigdís telja að endanlegur kostnaður muni verða 175 milljónir. Ef það verður raunin þá nemur framúrkeyrslan 133%.

„Hálfvitinn“ við Sæbraut er þar með kominn í ansi merkan hóp danskra stráa og suðrænna pálmatrjáa. Það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan borgarbúar vöknuðu upp við þann vonda draum að kostnaður vegna endurbóta við bragga og náðhús við Nauthólsveg 100 væri kominn yfir 400 milljónir króna en upphafleg kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 158 milljónir. Nam framúrkeyrslan 180%. Í byrjun ársins tilkynnti Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, að ákveðið hefði verið að skreyta nýju byggðina við Elliðaárvog með tveimur pálmatrjám. Til þess að þau lifi af íslenskra veðráttu eiga þau að vera í upphituðum turnlaga glerhýsum. Kostnaðurinn við útilistaverkið nemur 140 milljónum króna. Humarinn stóð í borgarbúum þegar þeir heyrðu þessar fréttir og þurftu þeir að taka vænan slurk af meðalfylltu en ósætu Pouilly-Fuissé hvítvíni til að ná andanum á nýjan leik.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.