*

föstudagur, 14. maí 2021
Huginn og muninn
2. maí 2021 08:22

Hallar sér aftur í stólnum

Borgarstjórinn hefur það náðugt á meðan stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn karpar innbyrðis um ökuhraða og bekki við Kaffi Vest.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Haraldur Guðjónsson

Sumarið er komið og hrafnarnir spóka sig á húsþökum í sólinni. Þó að ein og ein fluga komi suðandi raskar það ekki ró þeirra. Það sama verður ekki sagt um borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Marta Guðjónsdóttir skrifaði grein í vikunni, sem hún birti á Vísi.

Greinin, sem bar yfirskriftina „Gísli Marteinn í bakaríinu“, var ríflega þúsund orða „orðsending“ til sjónvarpsstjörnunnar og borgarfulltrúans fyrrverandi. Byrjun greinarinnar hljóðar svo: „Þú hefur verið óvenju drjúgur með þig þessa dagana, pjakkurinn þinn, og er þá mikið sagt“. Er Marta pirruð yfir því að Gísli Marteinn Baldursson hafi „ráðist“ á borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á Facebook og í útvarpsþættinum Bakaríinu á Bylgjunni með „ósannindum“. Það sé ekki rétt sem Gísli Marteinn hafi sagt að sjálfstæðismenn séu á móti því að lækka ökuhraða og á móti því að fólk sitji á bekkjum og njóti mannlífsins úti við. Hins vegar séu sjálfstæðismenn á móti því að borgin borgi eina og hálfa milljón fyrir bekki og borð til að hafa fyrir utan Kaffi Vest. „Slíka ívilnun fá ekki aðrir veitingastaðir.“

Það er allt í lagi að leiðrétta rangfærslur en það er hægt að gera með mismunandi hætti. Setningar eins og „þú varst ein af prinsessum Sjálfstæðisflokksins og RÚV. En nú ert þú bara prinsessa RÚV,“ gengisfella pistilinn. Það á enginn að setjast reiður við lyklaborð. Svívirðingar og uppnefni eru ekki til þess fallin að auka traust og tiltrú fólks á pólitík, eins og Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði í færslu á Facebook sama dag og grein Mörtu birtist.

Á meðan meirihlutinn tekur hverja óvinsælu ákvörðunina á fætur annarri getur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hallað sér aftur í stólnum því það logar allt stafna á milli í Sjálfstæðisflokknum, stærsta stjórnarandstöðuflokknum. Hrafnarnir vilja beina því til borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna að fara að fordæmi hrafnanna og láta ekki eitthvert suð trufla sig heldur einbeita sér að því að gagnrýna það sem skiptir raunverulegu máli, stjórn og stefnu meirihlutans í borginni.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.