Nú eru tvær vikur liðnar af nýju ári og margir að vinna í áramótaheitunum sínum. Algengustu heitin tengjast heilsu; að borða hollari mat, hreyfa sig meira og léttast. Önnur algeng markmið eru að spara, læra eitthvað nýtt, draga úr áfengisneyslu og lesa fleiri bækur.

Ef þú strengdir áramótaheit þá er hins vegar ógnvekjandi staðreyndin sú að yfir 90% líkur eru á að þú munir ekki standa við það. Raunar hefur fjórðungur áramótaheita þegar verið rofinn. Og áður en janúar er liðinn mun meirihluti þeirra liggja í valnum.

Margar ástæður eru fyrir þessu. Sum markmið eru einfaldlega óraunhæf á meðan aðrir útfæra ekki áætlun til að vinna að þeim. En sálfræðingar hafa sýnt fram á aðra, óvenjulegri ástæðu: ef við segjum öðrum frá markmiðum okkar erum við ólíklegri til að standa við þau.

Þetta gengur þvert á hefðbundin heilræði um að segja frá markmiðum sínum til að auka skuldbindingu sína gagnvart þeim. Og þegar maður hefur sett sér markmið er fyrsta eðlishvötin að deila því með öðrum.

En þegar við segjum frá markmiði upplifum við sömu vellíðunartilfinningu og ef við hefðum þegar náð því. Í kjölfarið minnkar metnaðurinn til að vinna að því, þar sem okkur líður eins og við þurfum þess ekki lengur.

Í ofanálag skemma viðbrögð annarra fyrir. Ef við fáum hrós þá styrkist upplifun okkar um að við höfum nú þegar náð markmiðinu. Og ef við fáum gagnrýni þá getur hún dregið úr trú á að markmiðið sé verðugt eða raunhæft.

Best er því að sitja á sér og segja ekki frá áramótaheitinu – að minnsta kosti ekki fyrr en á næsta ári.