Við fjölskyldan nutum þess að ferðast innanlands í sumar. Við sækjum í fáfarnar slóðir, gjarnan inn á hálendið, til að fá kraftinn úr hrikalegri náttúrunni. Við skoðum ummerki náttúruhamfara og umbrota, því hrikalegra því meiri orka. Leiðin er oftar en ekki holótt og oft á tíðum óvissa um hve vel gangi eða hve langan tíma það taki að komast þangað sem ferðinni er heitið. En það er þó vegur og aðrir hafa farið á undan og við vitum hvert við ætlum.

Heimsbyggðin hefur öðlast færni í að takast á við náttúruhamfarir og heimsstyrjaldir, en enginn átti von á heimsfaraldri á borð við COVID. Í þeim aðstæðum getum við ekki fylgt fyrri vegum því þeir eru mögulega ekki til staðar. Við þurfum því að búa til nýjar leiðir með tilheyrandi lærdómsferli. Allur heimurinn er tilneyddur til að hætta því sem alltaf hefur verið gert og byrja upp á nýtt. En er það endilega slæmt, eða felast mögulega í því tækifæri?

Tækifæri til umbreytinga

Við þurfum að staldra við og hætta að hugsa hvernig við getum gert það sem við höfum gert með nýjum aðferðum. Við þurfum að finna tækifærin í að gera eitthvað alveg nýtt. Hamast við að finna nýjar og ferskar hugmyndir til að vaxa, efla andann, ná árangri og ná forskoti í leik og starfi.

Það reynir verulega á að vera kippt inn í slíkar aðstæður. Í ljósi sögunnar þekkjum við, að margar af merkilegustu og mikilvægustu uppgötvunum mannkyns hafa oft fæðst í kjölfar hamfara eða styrjalda. Kjarkur og skapandi hugsun er eitthvað sem við erum að þjálfa með okkur þessi misserin. Kjarkur til að taka ígrundaða áhættu, mögulega gera mistök og skapandi hugsun til að gera tilraunir.

Hugrekki er svo sannarlega smitandi

Stjórnendur og leiðtogar í atvinnulífinu þurfa að ganga fram með góðu fordæmi, vera opnir fyrir nýjum nálgunum og gera tilraunir. Hugrekki er svo sannarlega smitandi. Í einhverjum tilfellum gæti þurft að henda reglubókinni, fagna glundroðanum og umfram allt, að fara ekki í gamla farið.

Nú er tækifæri til umbreytinga og skapalónið sem við höfum haft til þessa er mögulega ekki það rétta. Sem stjórnendamarkþjálfi og ráðgjafi hef ég verið að aðstoða stjórnendur í mörgum fyrirtækjum við þennan viðsnúning. Áskoranirnar eru gríðarlegar hvað varðar skipulag og aðferðir við að sinna hinum daglegu störfum. Við höfum verið toguð áfram með tækninni, sem er algerlega frábært á svo margan hátt, en á sama tíma finnum við að þessi félagslega þörf, sem er svo stór hluti af okkar vellíðan og hamingju, er í hættu.

Aðdráttaraflið og mælikvarðinn á eftirsóknarverðan vinnustað

Samkomutakmarkanir og fjarlægðarreglur hafa sannarlega verið mikilvægar í baráttunni við veiruna en hafa á sama tíma reynst mörgum erfiðar. Í samskiptum mínum við stjórnendur fyrirtækja heyri ég uppsafnaða þörf nærveru – ég heyri nýjar áskoranir á borð við ólíkar þarfir og ólíka sýn hjá mismunandi menningarhópum. Ég heyri ótta, ég heyri þrá og allt snýr þetta að þessu mannlega hjá mikilvægustu auðlind fyrirtækjanna. Þegar rýnt er í gögn sem mannauðssérfræðingar Forbes tóku saman nýverið kemur í ljós að afar margt snýr að þessum málaflokki.

Svo sem mikilvægi þess að hafa skýra sýn hvað varðar félagslegar áskoranir og mikilvægi þess að hlúa að andlegri líðan mannauðs. Sérfræðingar telja að það verði aukin áhersla á starfsfólkið sjálft, rödd þeirra og þarfir í breyttri vinnustaðamenningu. Að leggja verði meiri áherslu á jöfnuð og fjölbreytni en áður. Um er að ræða gríðarlega samfélagsbreytingu og því eru gildi eins og aðlögunarhæfni og traust afar mikilvæg. Ofangreindir þættir tengjast síðan andlegri heilsu og vellíðan.

Talið er að þessar áherslur eigi eftir að verða helsta aðdráttaraflið og mælikvarðinn á eftirsóknarverðan vinnustað. Hvernig sinnum við þessu mannlega á tímum Covid með fjarlægðarreglu og samkomutakmörkunum? Það reynir á hugarfarið og gæti komið sér vel að nýta hugarfar grósku sem Carol S. Dweck kom fram með í bók sinni „Mindset“. Í stað þess að hugsa „hvort?“ – þá á að hugsa „hvernig?“. Að spyrja sig spurningarinnar; á hvaða hátt getum við…? Sem eigandi viðburðafyrirtækis þá erum við sífellt með viðskiptavinum okkar að spyrja þessara spurninga og finna nýjar leiðir, þar sem það er enginn vegvísir.

S ýnileiki, hreyfiafl og tengslanet í takt við nýja tíma

Við í stjórn Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) höfum staðið frammi fyrir þessum áskorunum og sannarlega þurft að spyrja okkur þessara spurninga. Í þeim aðstæðum höfum við lagt okkur fram um að virkja hugarfar grósku. Á vegum FKA eru nefnilega árlega haldnir tugir viðburða ásamt stórum hreyfiaflsverkefnum.

Við ákváðum því að gefa tóninn með afar frumlegum og táknrænum opnunarviðburði starfsársins sem haldinn var 3. sept. s.l. þegar við framkvæmdum nokkurskonar gjörning þar sem félagskonur mynduðu keðju við Búrfellsgjá, sameinaðar fyrir starfsárið og bjuggu til pláss fyrir nýjar konur og nýja möguleika. Um 100 félagskonur í takt við fjöldatakmarkanir mynduðu keðjuna þar sem Eliza Reid, forsetafrú og félagskona FKA, tók þátt og var áherslan að þessu sinni á fjölbreytileikann en hún lætur sig þau málefni miklu varða.

Þar sem FKA er leiðandi afl í íslensku atvinnulífi förum við fram með góðu fordæmi með því að horfa langt út fyrir boxið, til að sýna að framundan er líka fullt af tækifærum þar sem áhersla verður á sýnileika, hreyfiafl og tengslanet í takt við nýja tíma. Leiðin framundan er holótt en með sterka sýn vitum við nákvæmlega hvert við í FKA ætlum án þess að gefa nokkurn afslátt af mannréttindum, jafnréttinu … eða sóttvörnum.

Höfundur er eigandi PROevents & PROcoaching og varaformaður FKA.