*

þriðjudagur, 21. september 2021
Leiðari
26. febrúar 2021 12:09

Handbremsubeygja við Hringbraut

Það væri óskandi ef forstjóri Landspítalans og íslensk stjórnvöld hefðu dug til að taka handbremsubeygju í rekstrinum.

Haraldur Jónasson

Umfjöllun um íslenska heilbrigðiskerfið og nýlega skýrslu, sem unnin var í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið McKinsey, hefur nú loks komist á flug, rúmum fjórum mánuðum eftir að hún var birt opinberlega. Það er jákvætt og Sænsk-íslenska viðskiptaráðið á heiður skilinn fyrir fund sem haldinn var um málið þann 16. febrúar. Á fundinum var Björn Zöega, forstjóri Karolinska sjúkrahússins og fyrrverandi forstjóri Landspítalans, með áhugavert erindi, en undir hans stjórn hefur algjör viðsnúningur orðið í rekstri sænska sjúkrahússins.

Björn tók við forstjórastöðunni í janúar 2019. Á því ári nam rekstrartapið tæplega 1.900 milljónum sænskra króna en í fyrra var niðurstaðan ríflega 70 milljóna rekstrarafgangur. En hvernig ætli Björn hafi farið að þessu? Rifjast þá upp viðtal sem tekið var við hann í Læknablaðinu aðeins níu vikum eftir að hann tók við forstjórastólnum í Svíþjóð.

„Mér sýnist að við séum að ná að taka handbremsubeygju. Við vorum á snarvitlausri leið hér með fjárhaginn,“ sagði Björn og bætti því við að á meðal verkefna næstu vikna væri að kynna nýtt skipurit, fækka yfirmönnum og einfalda boðleiðir. „Við stefnum að því að fækka þessum gráu svæðum innan spítalans, þar sem fólk rífst um sjúklingana og hvað eigi að gera við þá. Það eru ótrúlega margir stjórnendur á þessum spítala og yfirbyggingin hefur stækkað síðustu þrjú til fjögur árin. Þegar ég sá það og skoðaði tölurnar leiddi það til þess að við sögðum upp 550 manns í stjórnsýslunni hjá okkur, sem vinna ekki nálægt sjúklingum. Svo verðum við að fækka öðru starfsfólki,“ sagði Björn en starfsmenn sjúkrahússins á þessum tíma voru um 15.600. Já, og þessu til viðbótar þá bæði stytti Björn fundi og fækkaði þeim.

Það eru samt ekki einungis uppsagnir og fækkun funda sem hafa skilað þessum árangri. Fjármögnun Karolinska er með allt öðrum hætti en tíðkast á sjúkrahúsum hérlendis. Um helmingur fjármögnunarinnar er föst fjárhæð, lítið brot er háð gæðastuðlum og um 40% fjármagnsins eru breytileg því það er tengt svokölluðu DRG-fjármögnunarkerfi. DRG-kerfið byggir á þjónustutengdri fjármögnun og er hvetjandi að því leyti að sjúkrahúsið fær greitt fyrir unnin verk.

Á Íslandi er Landspítalinn, sem og aðrar sjúkrastofnanir, á fjárlögum, sem þýðir að það er enginn sérstakur hvati til að auka framleiðni. Í raun er íslenska kerfið letjandi. Þetta kemur enda skýrt fram í fyrrnefndri skýrslunni, sem áður hefur verið fjallað um á þessum vettvangi. Í henni kemur fram að framleiðni starfsfólks hérlendis hafi minnkað undanfarin fimm ár og að á sama tíma hafi starfsmannakostnaður aukist. Raunar hefur stöðugildum fjölgað um 21,4% á Landspítalanum á síðustu fimm árum og samkvæmt skýrslunni sker spítalinn sig úr að þessu leyti í samanburði við viðmiðunarsjúkrahúsin erlendis.

„Þetta skýrist að hluta til af mikilli fjölgun starfsfólks sem ekki vinnur klínísk störf hjá Landspítala (6,8% á árunum 2015-2019), þ.m.t. á sviðum stjórnunar og stoðdeilda,“ segir í skýrslunni.

Björn hefur líka farið í markvissar aðgerðir til að stytta biðlista hjá Karolinska. Í grunninn eru þær þannig að ef sjúklingur þarf að bíða eftir þjónustu í meira en 90 daga getur hann leitað eftir þjónustunni annars staðar á kostnað Karolinska.

Leiðir þetta óhjákvæmilega hugann að biðlistum eftir ýmiss konar þjónustu hérlendis. Fyrir um ári síðan voru t.d. 1.148 á biðlista eftir liðskiptaaðgerðum að því er fram kemur í greinargerð Embættis landlæknis. Síðasta sumar birti Jóna Kristín Hjartardóttir áhugaverða BS-ritgerð í hagfræði, þar sem m.a. var farið í saumana á samfélagslegum kostnaði við þessa biðlista. Var ritgerðin unnin undir handleiðslu Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur, prófessors við hagfræðideild HÍ. Til að gera langa sögu mjög stutta þá var niðurstaðan sú að ef ekkert yrði að gert myndi samfélagslegur kostnaður á árabilinu 2019 til 2030 nema tæplega 100 milljörðum króna. Eru þá ótalin þau skertu lífsgæði sem fólk á biðlistum býr við og áhrifin á andlega og líkamlega heilsu þeirra.

Það væri óskandi ef forstjóri Landspítalans og íslensk stjórnvöld hefðu dug til að fara að dæmi Björns og taka handbremsubeygju í rekstrinum. Þær aðgerðir sem búið er að fara í hjá Karolinska eru nefnilega nákvæmlega þær aðgerðir sem þarf að fara í hér heima. Á næstu árum er stefnt að því að taka upp DRG-kerfið hérlendis. Það hefur verið reynt áður en þá kom bakslag. Slíkt má ekki gerast aftur.

Stikkorð: Landspítalinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.