Meira um vaxtahækkanir og dýrtíðina. Samtökum leigjenda hefur orðið ágengt að undanförnu að koma hugmyndum sínum um að þak verði sett á hækkanir leiguverðs á framfæri í fjölmiðlum og á dagskrá stjórnmálaumræðunnar. Þannig hefur Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, talað fyrir því í leiðurum blaðsins að sett verði á leiguþak og tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, þær Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sagst vilja taka það til alvarlegrar skoðunar.

Í ljósi þeirrar staðreyndar að raunverð leguverðs hefur nánast staðið í stað frá seinni hluta árs 2018 er athyglisvert að hugmyndir um leiguþak hafi fengið jafn mikla umfjöllun og raun ber vitni að undanförnu. Það er fyrst og fremst fasteignaverðið sem hefur hækkað en eigi að síður er það bara tímaspursmál hvenær þær hækkanir skila sér í leiguverðið. En mikilvægt er fyrir fjölmiðla að halda til haga að það hefur enn ekki gerst.

En þar sem hugmyndir um leiguþak virðast njóta einhvers stuðnings á þingi ættu fjölmiðlar að leita svara hjá þeim stjórnmálamönnum sem tala fyrir slíkri handstýringu á verðlagsþróun hvort þeir telji slíkt þak ekki þá koma til greina þegar kemur að vöruflokkum sem hafa hækkað mikið í verði að undanförnu. Það væri fróðlegt að fá svör við slíkum spurningum enda má gefa sér að þeir sem telja að hægt sé að handstýra verði á leigumarkaði telji að slík verðlagsstýring gefist til að mynda vel á matvörumarkaði og jafnvel eldsneytismarkaði svo einhver dæmi séu tekin.

Fjölmiðlarýni er skoðanadálkur og er þetta hluti af lengri umfjöllun sem birtist í Viðskiptablaðinu 8. júní 2022.